149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[16:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni prýðisgóða ræðu og þessa yfirferð. Hér er mikilvægt mál á ferðinni og stórt mál; loftslagsmálin eru að verða eitt stærsta málið, bæði á landsvísu og svo í alþjóðasamskiptum.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann aðeins út í tvennt. Á bls. 3 er fjallað um skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga. Þar segir að ráðherra láti reglulega vinna vísindalegar skýrslur um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag á Íslandi. Ég vil aðeins staldra við þetta samfélag á Íslandi. Ég tek fram að ég er mjög hlynntur þessum skýrslum og tel að þær séu mjög mikilvægt innlegg inn í þetta mál.

Hvernig er þetta hugsað ef hv. þingmaður gæti aðeins komið inn á það? Er t.d. verið að skoða skattalega þáttinn? Verður hann skoðaður? Ég held að það sé mjög mikilvægt að skoða hann, sérstaklega hvað varðar landsbyggðina, að skatti eins og kolefnisskattinum sé jafnað á sanngjarnan hátt niður á alla landsmenn. Ég held að það sé svolítið mikilvægt að fá það fram, hvort hugsanlegt sé að það geti fallið hér undir að gerð verði skýrsla í þá veru.

Í 4. gr. er talað um fyrirtæki og einstaklinga í atvinnurekstri sem eigi að skila inn skýrslum. Mig langar aðeins að fá það nánar hjá hv. þingmanni: Er verið að tala um að einyrkjar og lítil fyrirtæki þurfi að skila skýrslum? Er þetta ekki orðið svolítið mikil yfirbygging? Án þess að gjald komi fyrir, er sagt, er skylt að skila skýrslu til Umhverfisstofnunar — ef hv. þingmaður gæti aðeins skýrt þetta nánar. Ég fann þetta ekki í greinargerðinni.