149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

upplýsingalög.

780. mál
[17:44]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið og koma hingað upp til að þakka hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og ekki síst framsögumanni málsins, hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni, fyrir góða vinnu í þessu máli og raunar líka því sem hér var afgreitt á undan. Bæði þessi mál eru afrakstur vinnu sem ég setti af stað fyrir nokkrum mánuðum og koma frá nefndum sem höfðu það markmið að skila frumvörpum til að efla tjáningarfrelsi og gera að verkum að Ísland stæði framar á því sviði. Bæði þessi mál munu skila þeim árangri, ekki síst þetta mál sem felur í sér útvíkkun gildissviðs upplýsingalaga, t.d. hvað varðar stjórnsýslu Alþingis og dómstóla, en leggur líka ríkari kröfur á herðar stjórnvöldum um að standa betur að aðgengi að upplýsingum.

Ég er mjög ánægð með þennan áfanga í að auka gagnsæi og upplýsingafrelsi. Við erum ekki búin með alla þá vinnu sem sett var af stað en ég lít svo á að þetta séu merkir áfangar á þeirri leið og nýti hér tækifærið til að þakka nefndinni og hv. framsögumanni sérstaklega fyrir.