Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[18:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Við ræðum hér áframhaldandi kerfisvæðingu loftslagsmálanna. Slík kerfisvæðing þessa málaflokks, eins og reyndar svo marga annarra, hefur ekki reynst vel, held ég að mér sé óhætt að segja, fram að þessu. Raunar virðist það vera einkenni á nútímastjórnmálum að því stærri sem málin eru, þeim mun yfirborðskenndari eru lausnirnar.

Við getum væntanlega öll verið sammála um að loftslagsmálin séu eitt af stærstu viðfangsefnunum þessi misserin og komandi ár og væntanlega áratugi. En séum við sammála um það hljótum við líka að geta verið sammála um að það þurfi að nálgast loftslagsmálin á þann hátt að það sé til þess fallið að skila raunverulegum árangri. En sú hefur ekki verið raunin.

Fyrir ekki svo löngu síðan, árið 2015, var samþykktur svokallaður Parísarsáttmáli í loftslagsmálum og ég tel að ég hafi verið þátttakandi í því og undirritað það skjal, enda vorum við Íslendingar, og erum, allir af vilja gerðir að taka þátt í þeim lausnum sem menn geta komið sér saman um. En því miður er fátt sem bendir til að sú lausn muni skila umtalsverðum árangri, raunar þvert á móti. Nú hefur verið sýnt fram á, með gögnum Sameinuðu þjóðanna sjálfra um loftslagsmál, að jafnvel þó að menn uppfylli Parísarsamkomulagið að öllu leyti á þeim tíma sem menn hafa sett sér til að klára það mál, muni áhrifin vera hverfandi, nánast engin hvað varðar loftslagsbreytingar eða losun gróðurhúsalofttegunda. Það hlýtur að vera áhyggjuefni en þess heldur er það áhyggjuefni að menn haldi áfram á sömu braut, haldi áfram með sýndaraðgerðum, með aðgerðum sem þeir telja til þess fallnar að láta líta út fyrir að verið sé að bregðast við loftslagsvá, án þess að aðgerðir skili nokkrum árangri sem heitið geti.

Það er áhugavert til að mynda að bera saman árangur Bandaríkjanna og Evrópulanda undanfarin ár í því að fást við losun gróðurhúsalofttegunda, sérstaklega áhugavert í ljósi þess að Bandaríkjamönnum hefur verið legið á hálsi fyrir að gera ekki sitt í þessu efni. Bandaríkin hafa að sjálfsögðu verið mjög lengi það land sem losar mest af gróðurhúsalofttegundum. En að auki bættist það svo við að bandarísk stjórnvöld sögðu sig frá Parísarsamkomulaginu.

En hver hefur raunin verið? Undanfarin ár hefur losun gróðurhúsalofttegunda í Bandaríkjunum minnkað umtalsvert meira en hjá mörgum, líklega flestum, Evrópuþjóðum. Hvernig stendur á því? Jú, það er ekki hvað síst vegna þess að Bandaríkin hafa í auknum mæli fært sig frá orkuframleiðslu með kolabruna og yfir í orkuframleiðslu með bruni á gasi, en gasframleiðsla, jarðgasframleiðsla, hefur aukist töluvert í Bandaríkjunum undanfarin ár með nýrri tækni sem upp á ensku er kölluð „fracking“. Ég verð að biðja herra forseta afsökunar á því að ég þekki ekki íslenska orðið á þeirri aðferð við gasframleiðslu. En afleiðingin hefur verið sú að gasframleiðsla Bandaríkjanna hafi aukist til mikilla muna og það hefur gert þeim kleift að draga mjög verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. En þetta er eitthvað sem menn einfaldlega viljað líta fram hjá, sem er ákaflega sérkennilegt í ljósi þess að sama fólk telur þetta mestu vá sem steðjar að mannkyninu. Það vill hins vegar ekki eða a.m.k. forðast það að líta til þeirra aðferða sem hafa skilað raunverulegum árangri í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en finnur upp sífellt nýjar sýndaraðgerðir og jafnvel, eins og er nú svo einkennandi, því miður, með stjórnmál nútímans og sýndarnálgunin á pólitíkina, finnur upp ný orð til að lýsa hlutunum eins og það leysi eitthvað.

Hér liggur fyrir frumvarp sem gengur einmitt fyrst og fremst út á þetta, að búa til nýjar nefndir, jafnvel ný orð, nýjan vettvang til að ræða málin og velta vöngum. Maður óttast í ljósi reynslunnar að þetta verði allt á sömu bókina lært og fram að þessu, að í stað þess að menn líti raunverulega til vísindanna og þeirra aðferða sem geta kannski skilað raunverulegum árangri í þessum efnum, muni þetta snúast um orðskrúð og nefndir til þess að menn geti vísað í það að þessi nefnd sé jú starfandi þarna og þessi markmið hafi verið sett. Þannig séum við að vinna á þessum vanda, þótt raunin sýni að lítið gangi við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Þetta atriði varðandi gasið tengist auðvitað umræðunni um orkuvinnslu á Íslandi. Við búum svo vel á Íslandi að framleiða raforku nánast algerlega eða 100% með endurnýjanlegum orkugjöfum, umhverfisvænum, endurnýjanlegum orkugjöfum. Það hefur oft á tíðum verið sérkennilegt að fylgjast með umræðunni um orkuvinnslu hér á landi þar sem þeir sem skilgreina sig sem umhverfisverndarsinna hafa sett út á það að hér væri virkjað, jafnvel þó að um sé að ræða virkjanir sem eru í samræmi við nýtingarkosti í rammaáætlun, og hafa oft og tíðum hreinlega sett út á allar virkjunarframkvæmdir. Það er sérstaklega sérkennilegt í ljósi þess að sú orka sem framleidd er hér gagnast auðvitað heiminum öllum hvað varðar baráttunni við losun gróðurhúsalofttegunda vegna þess að hún er unnin með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Hins vegar hafa menn lagst mjög gegn því, margir hverjir, þeir sem skilgreina sig sem umhverfisverndarsinna, að Íslendingar hæfu olíu- og gasvinnslu á Drekasvæðinu. Þeir hafa jafnvel reynt að bregða fæti fyrir þau áform þrátt fyrir að rannsóknir hafi sýnt að þar sé að öllum líkindum að finna umtalsvert jarðgas, náttúrulegt gas ekki hvað síst, sem gæti hjálpað þjóðum heims við að draga úr kolabrennslu og minnka um leið losun gróðurhúsalofttegunda.

Það er alveg ljóst að það mun þurfa að auka orkuframleiðslu á komandi árum. Orkuþörf heimsins eykst um u.þ.b. 2% á ári og hefur gert í alla vega 40 ár, að jafnaði. Það mun reynast óframkvæmanlegt að verða við þessari auknu eftirspurn eftir orku eingöngu með vindmyllum og slíkum aðferðum. Raunar gerði ég vindmyllur að sérstöku umtalsefni í umræðu um þriðja orkupakkann og tel ástæðu til að koma inn á þær í seinni ræðu um þetta mál sem við ræðum hér, enda hefur reynst erfitt að sýna fram á að vindmylluvæðingin sé til þess fallin að draga raunverulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Vindmyllur eru almennt framleiddar úr stáli sem er unnið í Kína með brennslu kola og með gríðarlegri notkun á steinsteypu og öðrum efnum sem ýta undir og auka við losun gróðurhúsalofttegunda og ekki hefur verið sýnt fram á að vindmyllurnar nái á líftíma sínum að vinna það upp.

En það er erindi í sérstakri ræðu. Ég nefni þetta eingöngu í framhjáhlaupi til að leggja áherslu á það og undirstrika að í þessum loftslagsmálum, í þessu stóra viðfangsefni sem loftslagsmálin eru, þurfa menn í auknum mæli að temja sér að líta á hlutina heildstætt, skoða heildaráhrif þeirra aðgerða sem ráðist er í og líta á hlutina til lengri tíma. Í rauninni á það sama við í þessu eins og svo mörgum stórum málum, menn þurfa að reyna að meta heildaráhrifin til að geta tekið skynsamlegar ákvarðanir sem eru til þess fallnar að skila einhverjum árangri sem heitið geti.

Af því að ég nefndi gasnotkun og vindmyllur má setja það í samhengi með því að benda á að gastúrbína framleiðir jafn mikið magn og vindmyllur með einungis 1/200 af því hráefni, þ.e. málmum og öðru sem þarf til að framleiða túrbínurnar, sem þarf í vindmyllurnar til að þær skili sömu orku. Eingöngu eitt af fjölmörgum dæmum sem mætti nefna um að það þurfi að setja þessa hluti í samhengi, sé mönnum alvara með að ná árangri á þessu sviði.

Ísland hefur svo sannarlega lagt sitt af mörkum á undanförnum árum og áratugum. Við framleiðum, ef ég man rétt, u.þ.b. tífalt meira af orku hér en meðalþjóðir í Evrópu og við gerum það á umhverfisvænan, endurnýjanlegan hátt. Þess vegna hefur verið afskaplega sérkennilegt, eins og ég gat um áðan, að fylgjast með því hvað umræðan, oft og tíðum frá umhverfisverndarsinnum eða fólki sem skilgreinir sig sem umhverfisverndarsinna, hefur verið neikvæð í garð íslenskrar orkuframleiðslu. Það sama á auðvitað við um álframleiðsluna. Mikið af þeirri orku sem við framleiðum hér á landi fer í að framleiða ál sem svo er flutt út. Ál er einstaklega umhverfisvænn málmur á ýmsan hátt, léttur málmur, til að mynda eyða farartæki sem framleidd eru úr áli frekar en þyngri málum umtalsvert minna af eldsneyti fyrir vikið og losa þannig minna af gróðurhúsalofttegundum. En ál er líka hægt að endurvinna nánast endalaust og það skilar sér mjög vel til endurvinnslu. Þegar það hefur lokið hlutverki sínu á einum stað er það jafnan endurunnið og fær nýtt hlutverk í framhaldinu. Álframleiðsla á Íslandi losar líklega um einn tíunda af því sem sams konar framleiðsla myndi losa í Kína, enda eru álver í Kína, og þeim fer fjölgandi, keyrð áfram af orku sem yfirleitt og jafnvel nánast alltaf er framleidd með kolabruna. Þess vegna er sú staðreynd að við skulum framleiða tiltölulega mikið ál á Íslandi um leið áminning um að við leggjum raunverulega mikið af mörkum til að fást við þá vá sem kann að stafa af loftslagsbreytingum.

En til að ná raunverulegum árangri þurfum við að gera betur. Þess vegna væri eða hefði verið gagnlegt að ræða meira um raunverulegar lausnir en það sem birtist í þessu frumvarpi, sem eru nýjar nefndir og jafnvel ný heiti hlutanna. Lausnin mun m.a. felast í því, eins og ég gat um í upphafi, að heimurinn færi sig í auknum mæli frá kolabruna en einnig í tækniframförum.

Í því samhengi er mjög áhugavert að líta til þeirra framfara sem hafa orðið við framleiðslu orku með sorpbrennslu. Nú er mikið talað um plast og margir sjá ofsjónum yfir plasti og virðast telja að allt það plast sem notað er hér á Íslandi endi í hafinu. Það er nú ekki svo. Reyndar er yfir 90%, jafnvel allt að 95%, af því plasti sem flýtur um heimshöfin komið úr aðeins tíu ám, tíu fljótum heimsins, og ekki mikið um að plast sem notað er hér á Íslandi endi í hafinu, sem betur fer. Með tækniframförum er nú hægt að brenna plast á jafnvel umhverfisvænni hátt en gas. Í slíkum lausnum kann að felast gríðarlegt tækifæri, til að mynda í þeim löndum sem ég nefndi áðan, þar sem þessi tíu stórfljót eru, þar sem plast hrúgast upp og losunin eykst ár frá ári vegna fólksfjölgunar og aukinna efnahagslegra umsvifa í þessum löndum, ef menn nýta tæknina til að einfaldlega brenna þetta plast, breyta því fyrst í eldsneyti, í nokkurs konar gas, og brenna það svo á jafn umhverfisvænan hátt og jafnvel umhverfisvænni hátt en jarðgasið.

Það má auðvitað fylgja sögunni að það er alls konar annað sorp sem mætti brenna í leiðinni. En plastið hefur verið það sem er mest mengandi og losar mest af gróðurhúsalofttegundum. Með því að innleiða þessa nýju tækni við sorpbrennslu væri hámarkslosunin vegna plastbrennslu en allt hitt sorpið losar umtalsvert minna af gróðurhúsalofttegundum á hverja orkueiningu en meira að segja gas. Raunar er að jafnaði heimilissorp umhverfisvænasti orkugjafinn þegar menn brenna það í nútímasorpbrennslum og framleiða með því orku eða rafmagn. Það er til að mynda nýlega búið að reisa mjög stóra sorpbrennslu í Ósló sem sér þeirri borg fyrir miklu af orkuþörf borgaranna þar. Þó að Norðmenn skorti ekki orku almennt, eins og menn þekkja vel, og eigi hana á ýmsu formi hafa þeir með því að nýta tæknina, nýta framfarir í tækni, séð tækifærin í því að brenna sorpi og framleiða með því tiltölulega umhverfisvæna orku.

Hvers vegna líta menn ekki til slíkra lausna? Hvers vegna líta menn ekki til þess sem vísindalega og raunverulega virkar og skilar árangri en halda sig í staðinn við sýndaraðgerðir og nýjar nefndir og starfshópa? Ég óttast að það sé einmitt af þeirri ástæðu sem ég gat um í upphafi ræðu minnar, að það sé eðli stjórnmála nútímans að þeim mun stærra sem viðfangsefnið er, þeim mun meiri athygli sem viðfangsefnið fær í fjölmiðlum, þeim mun mikilvægara telji menn að þær aðgerðir sem þeir boða eða vilja ráðast í séu til þess fallnar að vekja athygli, vera sýnilegar, sýna fram á dyggðir viðkomandi stjórnmálamanna eða -hreyfinga. Þar af leiðandi henti mun verr inn í þessa pólitísku umræðu, henti verr en að fljóta með straumnum eða jafnvel sigla á straumnum sem felst í umræðu um þessi mál, að leita hinna vísindalegu og raunverulegu lausna, enda geta þær verið flóknar. Þær geta tekið tíma og oft á tíðum auðvitað orkað tvímælis. En ef okkur er alvara með að takast á við þann vanda sem aukin losun gróðurhúsalofttegunda er, þá mun það ekki takast nema við leyfum okkur að leita lausna sem raunverulega virka.

Ég ætla að nefna í lok þessarar fyrstu ræðu minnar um þetta mál, og vil taka að fram að ég mun fara betur í margt af tæknilegum hliðum málanna í seinni ræðum, að ég ætla að nefna sérstaklega þá miklu umræðu sem hefur orðið hér á landi um aðgerðir í loftslagsmálum sem felast í því að moka ofan í skurði. Það hefur ekki verið sýnt fram á að þetta virki og raunar hafa margir vísindamenn lýst miklum efasemdum um að þetta geri tilætlað gagn. En þetta er sýnilegt. Það er hægt að láta taka myndir af sér að moka ofan í skurð og halda því fram að með því sé verið að leggja sitt af mörkum til að fást við loftslagsvána. Í raun kann vel að vera að þetta hafi öfug áhrif. Auðvitað losar votlendi metan, sem er 23 sinnum áhrifaríkari loftslagstegund en koltvísýringur, svoleiðis að það eru talsverðar líkur á því að í a.m.k. einhverjum tilvikum séu menn með þessum aðgerðum að auka losunina.

Þetta er eitt dæmi af mörgum um hið sama, allt of margir vilja aðgerðir sem hægt er að fá mynd af, hægt er að haka við að verið sé að bregðast við loftslagsvánni, án þess að þær skili endilega tilætluðum árangri og geti jafnvel haft öfug áhrif við það sem að er stefnt.

Það er hins vegar alveg ljóst að landgræðsla og trjárækt er eitt af mikilvægustu tækjunum sem við höfum í því að fást við losun gróðurhúsalofttegunda. Það ætti að vera eitthvað sem menn gætu náð góðri samstöðu um, að auka verulega við landgræðslu og trjárækt á Íslandi. (Forseti hringir.)

Ég held að ég sé ekki hálfnaður með þessa ræðu mína, herra forseti, og bið um að verða settur aftur á mælendaskrá.