149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[18:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð að lýsa því að ég er sammála því hjá hv. þingmanni að Parísarsamkomulagið hefði mátt vera róttækara en það náðist þó sögulegt samkomulag allra þeirra þjóða sem stóðu að því.

Ég er líka sammála hv. þingmanni með að líklega er ofuráhersla lögð á endurheimt votlendis þegar kemur að loftslagsbreytingum og aðgerðum gegn þeim þegar meira mætti tala um og leggja til aðgerðir til að draga beint úr losun lofttegunda.

En hv. þingmanninum talað um kerfisvæðingu loftslagsmálanna. Við þurfum einmitt á kerfislægum viðbrögðum að halda. Við þurfum á kerfisbreytingum að halda til að sporna við afleiðingum loftslagsbreytinganna.

Mig langar að heyra aðeins frá hv. þingmanni vegna þess að hann staðhæfði að útblástur koltvísýrings, sem er ein mest mengandi lofttegundin og mesti skaðvaldurinn þegar kemur að loftslagsbreytingum, hafi minnkað meira í Bandaríkjunum en í Evrópu. Mig langar að fræðast um það hvaða gögn hv. þingmaður hefur undir höndum til að kasta þeirri staðhæfingu fram.