Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[18:29]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi kerfisvæðinguna er rétt að taka skýrt fram að ef kerfisvæðingin fæli það í sér að kerfið færi að virka þannig að raunverulega drægi úr losun gróðurhúsalofttegunda væri það jákvæð kerfisvæðing. En sú kerfisvæðingu sem við horfum hins vegar upp á núna er öll, eða a.m.k. að allt of miklu leyti, á þeim forsendum sem ég gat um áðan. Það eru stofnaðar nefndir og samráðshópar og búin til markmið án þess að menn hafi í rauninni lausnirnar til að ná þeim markmiðum, eins og Parísarsamkomulagið er því miður allt of gott dæmi um.

En af því að hv. þingmaður spyr hvaðan ég hafi tölurnar hef ég þær m.a. frá Sameinuðu þjóðunum og Orkustofnun Bandaríkjanna. Auðvitað er þetta mjög mismunandi á milli Evrópulanda, enda nefndi ég að þetta ætti við um sum Evrópulönd, en til að mynda Þýskaland, sem leggur mikla áherslu á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, hefur ekki náð þeim árangri sem að hefur verið stefnt. Þrátt fyrir gríðarlega og dýra fjárfestingu í ekki hvað síst vindmyllugörðum gengur Þjóðverjum erfiðlega að draga úr kolabruna, m.a. reyndar vegna þess að tekin var upp sú stefna í Þýskalandi að loka kjarnorkuverum landsins, hverju einasta kjarnorkuveri í Þýskalandi. Á sama tíma kaupa menn svo til Þýskalands raforku úr kjarnorkuverum í Frakklandi, sem sýnir hvað þetta eru oft miklar sýndaraðgerðir. Og á sama tíma: Þegar Þýskaland gerir upp loftslagsbókhald sitt lítur það ekki til áhrifanna sem verða annars staðar, til að mynda í Kína, vegna framleiðslu þar á stálinu sem fer í vindmyllurnar og er framleitt nánast eingöngu með kolabruna.

(Forseti (JÞÓ): Forseta láðist að nefna að þar sem þrír hv. þingmenn óska eftir að veita andsvör styttist andsvar í eina mínútu í síðara andsvari.)