149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[18:35]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ræðuna. Hann fór vítt og breitt yfir þetta stóra mál sem er náttúrlega það stórt að það er að mörgu leyti ofar mínum skilningi, enda erum við að tala um lofthjúp jarðar.

Ég hef lýst því að ég hef verið svolítið í tregur í taumi í þessu máli hvað varðar það í fyrsta lagi að kyngja þeirri staðreynd, sem er orðin viðurkennd á alheimsvísu, að við eigum við vanda að stríða og hvernig við getum brugðist við henni. Maður hefur svolítið vera að bíða eftir einhverri aðgerðaáætlun sem er að hluta til í þessu frumvarpi. Gott og vel.

Nú hafa margar þjóðir heimsins tekið sig saman um aðgerðir gegn loftslagsvánni og félög hér heima og aðilar hafa líka fjallað um hvernig við getum gert okkur gildandi, jafnvel tekið forystu í loftslagsmálum til að koma okkur betur á kortið í sambandi við það hver við erum og fyrir hvað við stöndum. Mig langar að spyrja hvort þingmaðurinn sjái fyrir sér og hafi leitt að því huga, í einföldu og stuttu máli, hvernig við getum staðið að þeirri sérstöðu að skapa okkur forystu í loftslagsmálum á alheimsvísu.