149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[18:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að við hefðum ágætistækifæri til að vera a.m.k. leiðandi þjóð á því sviði, þó ekki væri nema í ljósi þess að við höfum á undan öllum öðrum þjóðum, svo að segja, náð að færa orkuframleiðslu okkar alfarið yfir í endurnýjanlega orkugjafa. Sú reynsla og þekking sem hefur byggst upp hér á Íslandi á því sviði getur að sjálfsögðu nýst þjóðum um allan heim og er byrjuð að gera það. Ýmis verkefni á sviði jarðvarma hafa til að mynda verið sett af stað með íslenskri aðstoð í Afríku og ekki hvað síst í Kína.

En eins og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir nefndi áðan losa Kínverjar núna umtalsvert meira af gróðurhúsalofttegundum en nokkur önnur þjóð. Það er mjög ískyggilegt, eiginlega óhugnanlegt að líta á gröf og línurit sem sýna vöxt slíkrar losunar í Kína. Langt umfram allar væntingar eða vonir manna frá því að farið var að gera þetta að alþjóðlegu viðfangsefni með samningum, til að mynda Kyoto, hefur Kína skotist langt umfram, ég held að mér sé óhætt að segja mestu svartsýnisspár hvað varðar losunina. En það er sérstaklega vegna gegndarlauss kolabruna við orkuframleiðslu í Kína, kolabruna sem er nýttur til framleiðslu í heimalandinu. Auðvitað er gífurleg uppbygging í þessu stóra landi en einnig er verið að framleiða varning sem er svo fluttur til Vesturlanda og þá fer kolabruninn og orkuframleiðslan ekki í loftslagsbókhald þeirra landa sem taka við varningnum heldur Kína sem framleiðir hann.