149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[18:48]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar rýna aðeins í frumvarpið. Þar er fyrst rætt um aðgerðaáætlun og það er hið besta mál. Eins og við þekkjum eru loftslagsmálin orðin mjög stór málaflokkur og mikilvægur, bæði á landsvísu og almennt í alþjóðasamfélaginu. Við erum svo sannarlega minnt á loftslagsbreytingar og þær miklu afleiðingar sem þær hafa haft. Þannig að þetta mál er gott mál að mínu mati.

En það eru ýmis önnur atriði sem ég vil kannski koma inn á sem tengjast því. Eins og t.d. skattalega hlutverkið sem er ansi víðtækt að mínu mati og snýr að landsmönnum öllum og sérstaklega landsbyggðinni. Ég ætla að koma aðeins inn á það nánar á eftir, herra forseti.

Hér er sem sagt rætt um að ráðherra láti gera aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og tillögur í þeim efnum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu hér á landi. Eins og ég sagði er náttúrlega mjög mikilvægt að menn hafi aðgerðaáætlun. Hins vegar er jafnmikilvægt að sú áætlun sé raunhæf, henni sé fylgt eftir og hún beri árangur. Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga. Fögur fyrirheit duga ekki í þessum efnum. Það verður að vera markviss áætlanagerð um hvernig við ætlum að ná þessum markmiðum eins og t.d. hvað varðar Parísarsamkomulagið. Ég hjó eftir því að það segir hér, með leyfi forseta:

„Aðgerðaáætlunina skal endurskoða eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga og yfirlýstra markmiða stjórnvalda.“

Það er gott og vel að endurskoða þessa áætlun, fara yfir það hversu vel hafi til tekist, hvað megi bæta o.s.frv. Við gerð hennar, segir hérna jafnframt, „skal hafa samráð við hagsmunaaðila.“ Það er ekki tiltekið nánar hvað í þessu felst en ég held einmitt að það sé afar mikilvægt að það sé haft samráð við t.d. launþegahreyfinguna í landinu, hagsmunasamtök þegar kemur að húsnæðismálum og þessum þáttum sem varða vísitöluna. Vegna þess að skattlagning af þessu tagi kemur náttúrlega til með að hafa áhrif á vísitölu neysluverðs o.s.frv., ráðstöfunartekjur heimilanna. Þess vegna er að mínu mati t.d. afar mikilvægt að hafa samráð við Alþýðusamband Íslands, svo dæmi sé tekið. Hver eru áhrif þessarar skattlagningar sem birtist í kolefnisgjaldinu — sem ég fer nánar yfir á eftir — á heimilin í landinu? Það verður að meta, t.d. í ljósi þess hvaða árangri við erum að ná með þessum aðgerðum. Hverju er kolefnisskatturinn að skila? Er hann að skila þeim árangri í loftslagsmálum sem til er ætlast? Náum við að draga úr losuninni? Hefur skattlagningin þau áhrif að losunin minnkar?

Þetta eru allt mjög áleitnar spurningar sem þarf að svara. Mig minnir, herra forseti, að hér hafi verið fyrirspurn frá hv. þm. Ólafi Ísleifssyni þess efnis hvort væri hægt að segja til um hversu árangursrík þessi skattlagning er þegar kemur að losuninni. Ef ég man þetta rétt, er ekki hægt að slá því föstu hver árangurinn er. Það er í sjálfu sér eitthvað sem við þurfum að fara vel yfir því það er ekki forsvaranlegt að vera með skattheimtu af þessu tagi sem síðan er ekki hægt að segja fyllilega til um hvaða árangri skilar.

En þetta frumvarp er að mörgu leyti ágætt og það er gott að hafa aðgerðaáætlun, eins og ég segi. Við höfum ekki staðið okkur nægilega vel í þessum málaflokki, því miður. Við þurfum einnig að velta fyrir okkur hvaða væntingar við höfum til þessa frumvarps. Hér er þess getið að það eigi að skipa loftslagsráð sem hafi það hlutverk að veita stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir og markmið Íslands sem tengjast loftslagsmálum og síðan eru verkefnin talin upp í frumvarpinu. Enn er hér talað um að tryggja skuli að í ráðinu eigi sæti fulltrúar atvinnulífsins, háskólasamfélagsins, sveitarfélaganna og umhverfissamtaka, auk annarra fulltrúa sem nauðsynlegt er talið að eigi sæti í ráðinu á hverjum tíma. Ég tel, herra forseti, eins og ég nefndi áðan, að það sé mikilvægt að þarna komi komi launþegahreyfingin að, einfaldlega vegna þess sem ég rakti hér áðan.

Síðan er fjallað um loftslagsstefnu ríkisins og að Stjórnarráðið skuli setja sér loftslagsstefnu og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins. Talað er um að stefna skuli innihalda skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun. Þetta er allt gott og blessað og er ég fylgjandi þessu. Þetta er ágætlega skilgreint. Fyrir utan það sem ég nefndi, að nauðsynlegt er, að mínu mati, að launþegahreyfingin eigi þarna sæti.

Síðan er hér kafli þar sem fjallað er um skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga og þar kemur fram að ráðherra láti reglulega vinna vísindalegar skýrslur um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag á Íslandi. Það er að sjálfsögðu mjög gott að þessar skýrslur séu unnar, sérstaklega til að fylgjast með árangrinum og hvað viðkomandi aðilar eru að gera í þessum efnum. Vísindalegar skýrslur eru að sjálfsögðu mjög mikilvægar í þessu sambandi. En mig langar aðeins að staldra við skýrslurnar er varða samfélag á Íslandi. Hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir rakti það áðan ágætlega í andsvari að þetta væri t.d. landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn og ýmsar greinar atvinnuvegarins. En þegar kemur að samfélaginu hugsar maður með sér að íbúarnir, landsbyggðin, fólkið sem býr á höfuðborgarsvæðinu o.s.frv., hafi aðkomu að þessu.

Ég held að það sé nauðsynlegt, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, að þetta verði metið, þ.e. hvaða áhrif loftslagsbreytingar hafi og aðgerðir sem tengjast þeim hafi á landsbyggðina. Ég tel að við höfum sýnt fram á það í Miðflokknum að skattlagningunni er ekki jafnað sanngjarnt niður á landsmenn þegar kemur að kolefnisskattinum. Þetta þurfum við allt að ræða og hafa gögn um þessi mál til þess að reyna að haga því þannig til að árangurinn verði sem mestur en jafnframt verði horft til þess að landsmenn sitji allir við sama borð.

Gleymum því ekki, eins og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir nefndi, að það hafa ekki allir efni á því að kaupa sér rafmagnsbifreið. Þess vegna eru almenningssamgöngur mjög mikilvægar í þessum efnum. En til þess að árangur náist í því að við verðum kolefnishlutlaus 2040 verða almenningssamgöngurnar að vera þannig úr garði gerðar að þeir sem hafa ekki efni á því að eignast rafmagnsbifreið geti nýtt sér þær. Auðvitað á að hvetja sem flesta til að nýta almenningssamgöngur.

Í 4. gr. er fjallað um að Umhverfisstofnun sé heimilt að krefja stjórnvöld, stofnanir ríkisins, fyrirtæki og einstaklinga í atvinnurekstri, um gögn og upplýsingar sem varða sögulega og framreiknaða losun ásamt upplýsingum um stefnu og aðgerðir í loftslagsmálum í starfsemi þeirra. Svo segir hér neðar að þessi gögn sé skylt að afhenda Umhverfisstofnun og án þess að gjald komi fyrir.

Þetta rakti ég hér aðeins í andsvari við hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur. Mér finnst þetta vera svolítið óskýrt, herra forseti. Er hugsanlegt að það sé hægt að leggja með þessu þær kvaðir á lítil fyrirtæki með kannski tvo, þrjá, fjóra starfsmenn, að þau skili einhvers konar aðgerðaáætlun til Umhverfisstofnunar ef þess er óskað? Ég geri nú ráð fyrir að það sé ekki vilji löggjafans. Þetta þarf að koma skýrt fram og það kom fram í máli hv. þingmanns hér fyrr, framsögumanns, að þetta væri hugsað fyrir stærri fyrirtæki og ríkisfyrirtæki og ég geri ráð fyrir því að svo sé. Þetta finnst mér vera óskýrt í lögunum og ég varð ekki var við að þess sé neitt sérstaklega getið í greinargerðinni við hvað sé átt. Þar segir bara að hægt sé að breyta ábyrgð á gagnaskilum í reglugerð sem ráðherra setur. Þetta er að mínu mati eitthvað sem þarf að setjast betur yfir. Það er þannig í lagasetningu og lög verða ávallt að vera skýr og þess vegna er mikilvægt að setjast aðeins betur yfir þetta mál, að ég tel.

Síðan er rétt að minnast á hina svokölluðu grænu skatta sem eru alla vega mikilvæg leið til þess að draga úr losuninni. Í þeim efnum er mikilvægt að þeir skili árangri. Hér var t.d. rætt sérstaklega um að flugvélarekstur, þ.e. flugsamgöngur, mengi verulega mikið og hafi veruleg áhrif í loftslagsmálum. En að sama skapi tel ég að það ætti að setja þær kröfur á flugfélögin eða flugvélaframleiðendur að þeir bæti þá bæta ráð sitt og bæti hreyfla og annað slíkt í þeim tilgangi að mengun verði sem minnst. Það á ekki að vera, að mínu mati, alltaf sú lausn að skattlagningin leggist fyrst og fremst á almenning heldur verða fyrirtækin að taka sig á í þessum efnum, eins og flugfélög og flugvélaframleiðendur.

Ég ætla næst, herra forseti, að víkja að kolefnisskattinum. Ég tel að hann sé ekki nægilega ígrundaður. Nú var það hluti af stjórnarsáttmálanum að koma á laggirnar loftslagsráði og aðgerðaáætlun. Gott og vel. Það sem líka hefur birst okkur frá þessari ríkisstjórn er verulega aukin skattheimta á þessu sviði, þ.e. kolefnisgjaldið. Þetta er nýr skattur á Íslandi og í frumvarpi til fjárlaga núna fyrir 2019 kemur fram að tekjur af kolefnisgjaldi séu áætlaðar um 5,9 milljarðar á þessu ári. Gjaldið hefur hækkað hjá þessari ríkisstjórn á mjög skömmum tíma um 50%, frá 2017. Þessar skatttekjur eru ekki allar eyrnamerktar aðgerðum í loftslagsmálum með beinum hætti. Í raun og veru rennur aðeins hluti þeirra til aðgerða í loftslagsmálum. Það er náttúrlega ekki forsvaranlegt, að vera skattleggja almenning svona þegar aðeins hluti af skatttekjunum rennur í þann málaflokk sem þeim er í raun og veru ætlað að renna í.

Eins og ég nefndi áðan hefur það komið fram hjá hæstv. umhverfisráðherra að það sé ekki hægt að segja til um það fyllilega hvort þessar aðgerðir í loftslagsmálum, skattheimtan, skili árangri. Það er eitthvað sem hefur ekki verið hægt að sýna nákvæmlega fram á. Ég hef talið, herra forseti, og við reyndar í Miðflokknum öllum, að hækkun kolefnisgjaldsins sé úr hófi. Við leggjum að sjálfsögðu áherslu á að þetta er mjög mikilvægur málaflokkur og mjög mikilvægt að sinna honum. Við verðum hins vegar að reyna að finna lausn sem skilar mestum árangri. Þar er ekki alltaf skattheimtan aðalatriðið. Það verður að horfast í augu við það.

Síðan er gert ráð fyrir enn frekari hækkun skattsins á næsta ári og að hann skili þá orðið 550 millj. kr. í tekjur að meðtöldum hliðaráhrifum virðisaukaskatts, þ.e. þessi hækkun. Kolefnisgjaldið nemur u.þ.b. 11 kr. á hvern lítra af bensíni og tæpum 13 kr. á hvern lítra af dísilolíu. Þessar álögur á eldsneyti koma sérstaklega illa niður á landsbyggðinni. Það er staðreynd. Það má því færa rök fyrir því að með kolefnisgjaldinu sé verið að skattleggja landsbyggðarfólk umfram aðra. Enda á rafbílavæðingin eins og við þekkjum hana mun auðveldara um vik hér á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni þar sem innviðir eins og hleðslustöðvar eru mun fleiri á höfuðborgarsvæðinu. Engu að síður hafa rafbílaeigendur kvartað yfir því að innviðir fyrir rafbíla séu engan veginn fullnægjandi í höfuðborginni. Hvað þá á landsbyggðinni. Innviðauppbyggingin er einfaldlega of skammt á veg komin.

Auk þess nota íbúar á landsbyggðinni í mun ríkara mæli bifreiðar knúnar með jarðefnaeldsneyti, þ.e. dísilolíu og bensíni, og aka meira vegna fjarlægðar og kaupa þar af leiðandi meira eldsneyti. Það má þannig færa góð rök fyrir því að þessi skattheimta, eins og ég lýsti henni hér, hækkun á lítra af bensíni og hækkun á lítra á dísilolíu, komi verr niður á landsbyggðinni en öðrum landsmönnum. Það er hins vegar alveg ljóst að það er eðlilegt að samfara hækkun á kolefnisgjaldinu eigi gjöld og skattar á umhverfisvænni starfsemi að lækka, ef markmiðið er að draga úr mengun. Svo er ekki, herra forseti. Það er rétt að halda því til haga.

Meginmarkmið kolefnisgjaldsins, eins og við þekkjum það, er að hvetja bæði heimili og fyrirtæki til að draga úr losun með því að skipta yfir í hreinni orku. Þetta þekkjum við. En í fyrsta lagi er alls ekki á færi allra að skipta yfir í rafmagnsbifreiðar, eins og ég nefndi áðan, einfaldlega vegna þess að það hafa ekki allir fjárráð til þess. Í öðru lagi henta rafmagnsbifreiðar síður á landsbyggðinni enn sem komið er, eins og t.d. í landbúnaði. Þá lýtur það sérstaklega t.d. að drægni bifreiðanna og fjölda hleðslustöðva. Kolefnisgjaldið leggst því með ólíkum hætti á íbúa höfuðborgarsvæðisins annars vegar og íbúa landsbyggðarinnar hins vegar.

Ég sé það, herra forseti, að tími minn er liðinn og ég hef ekki náð að klára þessa yfirferð mína og óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.