149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[20:22]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Í þessu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál sem við ræðum er m.a. lagt til að bætt verði við lögin skilgreiningu á kolefnisjöfnun. Hugtakið skiptir máli, m.a. í sambandi við framkvæmd loftslagsstefnu stjórnvalda. Lagt er til að uppfylla markmið Parísarsamningsins eða eins og segir í 3. kafla greinargerðarinnar sem nefnist Meginefni frumvarps, með leyfi forseta:

„Aðgerðaáætlun er helsta tæki stjórnvalda til að tryggja að Ísland nái markmiðum Parísarsamningsins og öðrum fjölþjóðlegum skuldbindingum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auk markmiða íslenskra stjórnvalda um kolefnishlutleysi. Gert er ráð fyrir að aðgerðaáætlun verði uppfærð ekki sjaldnar en á fjögurra ára fresti, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga og yfirlýstra markmiða stjórnvalda. Mögulega telja stjórnvöld þó rétt að endurskoða áætlunina örar. Í 2. mgr. 5. gr. laga um loftslagsmál, nr. 70/2012, er vísað til samráðs við hagsmunaaðila án þess að það sé nánar útfært. Tryggt skal að þeir sem leitað er samráðs við hafi raunverulegan möguleika á því að kynna sér málið sem um ræðir og gera við það athugasemdir. Gæta þarf þess að tímafrestir séu hæfilegir. Meta verður í hverju tilviki hverjir teljist hagsmunaaðilar í skilningi ákvæðisins. Félagasamtök á vettvangi umhverfismála og samtök fyrirtækja í atvinnulífi yrðu væntanlega ávallt talin hagsmunaaðilar svo dæmi séu tekin en margir fleiri aðilar geta komið til.“

Þetta virðist allt vera í ágætisfarvegi en svo er haldið áfram því að lagt er til nýtt ákvæði sem kveður á um aðlögun að þessum loftslagsbreytingum. Það er nú fest í lög virk áætlun um aðlögun og þetta er nokkuð stór ákvörðun þannig að segja má að um aðgerðaáætlun verði að ræða þar sem það þykir ástæða til að setja niður ramma, aðlögun svo stjórnvöld og samfélagið allt geti búið sig undir þessar loftslagsbreytingar.

Það segir í frumvarpinu að skýrslur hafi verið settar fram sem fjalli um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi og það tel ég vera mjög gott mál. Þar voru einmitt ábendingar sem fjalla um aðlögun íslensks samfélags að fyrirsjáanlegum breytingum ef ég les þetta rétt. Talið er mikilvægt að útbúa slíka áætlun og með leyfi forseta segir:

„Rétt er talið í ljósi ákvæða Parísarsamningsins og áframhaldandi breytinga á loftslagi að vinna slíka áætlun til að búa íslenskt samfélag betur undir væntanlegar breytingar og grípa til mótvægisaðgerða þar sem slíkt er hægt, svo sem með því að hanna hafnir og önnur mannvirki við strendur með tilliti til hækkandi sjávarborðs. Ekki er kveðið nákvæmlega á um vinnulag og efni áætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum en loftslagsráð hyggst koma með ábendingar um það efni. Ljóst er þó að áætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum þarf að byggja á nýjustu og bestu vísindalegu þekkingu og þarf að vera unnin með aðkomu fjölmargra aðila innan og utan stjórnkerfisins.“

Ég les í frumvarpinu að lagt sé til að sett verði í lög ákvæði um loftslagsstefnu hins opinbera, þ.e. Stjórnarráðsins, ríkisstofnana og fyrirtækja þar sem ríkið er meirihlutaeigandi, Stjórnarráðið verði fyrirmynd annarra með því að innleiða loftslagsstefnu og kolefnisjafna starfsemi sína. Það verður því fróðlegt að sjá hvernig stefnan mun birtast og hvaða línu hún leggur og þá hvaða aðgerðir. Þetta er enn nokkuð opið þar sem sérstaki stýrihópurinn sem skipaður er ráðuneytisstjórum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, forsætisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins á að koma með tillögur eftir atvikum, eins og það er orðað í frumvarpinu. Það segir einnig að Umhverfisstofnun muni veita ráðgjöf og við þingmenn hér innan húss verðum vör við leiðir Umhverfisstofnunar sem kallast Græn skref í ríkisrekstri og eru fínar leiðir sem hægt er að kalla raunverulegar aðgerðir. Það er sú nálgun sem við eigum að færa í stjórnsýsluna. Það er ekki gáfulegt eða vænlegt að ætla að skipa enn eina nefndina eða ráðið. Fara þarf í raunverulegar aðgerðir sem eru t.d. aukin plöntun trjáa. Það er leið sem raunverulega skilar árangri og mér sýnist á öllu að fólk sé tilbúið að fara í þær aðgerðir.

Til að nefna örlítil dæmi langar mig að minnast á verkefni sem verið er að vinna á Glerárdal fyrir ofan Akureyri en þar er samstarfsverkefni á milli félagasamtaka og fyrirtækja. Lionsklúbburinn Hængur er í samstarfi við Isavia og Sólskóga og þeir kalla þetta verkefni Kolefnisjöfnun Hængsskógar. Á Facebook-síðu verkefnisins segir, með leyfi forseta:

„Nokkrar gildar ástæður liggja fyrir því að Lionsklúbburinn Hængur réðst í þetta verkefni. Í fyrsta lagi hefur verið mikil umræða um að græða svokallaðan grænan trefil umhverfis Akureyrarbæ, sem gefur bænum skjól fyrir sterkum vindáttum niður Glerárdalinn. Í öðru lagi leggja lið í því starfi sem felst í því að græða upp landið, auka kolefnisjöfnuð og draga með þeim hætti úr kolefnisfótspori okkar Íslendinga.“

Eins og ég sagði áðan var Hængsskógur verkefni hjá Lionsklúbbnum Hæng á Akureyri og það er byrjað að planta trjám í Glerárdal þar fyrir ofan Akureyri og þeir bjóða samfélaginu að taka þátt í því verkefni með því að koma með tré eða kaupa tré og kolefnisjafna kolefnisspor sitt. Öll þau tré sem plantað er þarna eru ræktuð af Sólskógum í Kjarnalundi, þau eru sem sagt öll úr heimabyggð og það er verið að planta fjölmörgum tegundum, eins og ösp, lerki, birki, reyni, greni og furu. Þetta eru eins til tveggja ára bakkaplöntur og því er haganlega komið fyrir hvaða planta fer niður á hvaða svæði. Þetta er dæmi um mjög lítið verkefni sem unnið er að fullu í sjálfboðavinnu og mér finnst það vera eitt af þeim verkefnum sem ég vil segja að séu raunverulegar aðgerðir.

Annað verkefni sem mig langar að vekja athygli á er verkefni sem SAMFOK fer fyrir. Á fésbókarsíðu þess verkefnis segir, með leyfi forseta:

„Í gær og í dag var foreldrum sem sitja í stjórnum foreldrafélaga og skólaráðum í yfir 30 skólum í Reykjavík færð birkiplanta frá SAMFOK. Með þessu viljum við þakka foreldrum fyrir að gefa af tíma sínum í foreldrastarf. SAMFOK hefur fengið úthlutað landnemareit í Heiðmörk þar sem hægt verður að gróðursetja plöntuna ef fólk kýs.“

Þarna er komið annað lítið verkefni, ef svo má segja, sem verður á endanum nokkuð stórt og það sem meira er, það er hugsað til framtíðar sem er svo ofsalega mikilvægt í þeirri stöðu sem við erum í í dag.

Mig langar líka aðeins að fjalla um samning stjórnvalda og atvinnulífs um samstarfsvettvang og loftslagsmál, að setja þetta allt í samhengi. Það er sem sagt samstarfsvettvangur um loftslagsmál og grænar lausnir þar sem Bændasamtökin eru stofnaðilar ásamt 23 öðrum aðilum. Með því vil ég benda á að ég tel að samfélagið allt sé tilbúið til raunverulegra aðgerða en umfjöllun um þennan samning og þann samstarfsvettvang og hvernig hann á að virka má finna í Bændablaðinu sem kom út 29. maí sl. Í samningnum kemur fram að markmið samstarfsvettvangsins sé í fyrsta lagi að bæta árangur landsins í loftslagsmálum og miðla fjölbreyttu framlagi landsins til þeirra, bæði sem árangri sem hefur náðst en líka hvað er fram undan. Þá er talað um að íslenskar lausnir er varða nýtingu endurnýjanlegrar orku verði þannig miðlað til annarra og unnið verði að útflutningi þessarar vöru sem og hugvits og lausna sem byggi á íslenskri orkuþekkingu og þá að sjálfsögðu á grænum lausnum. Þannig á að vera hægt að auka virði útflutnings. Seinna markmið vettvangsins er að stjórnvöld og atvinnulíf vinni í sameiningu að metnaðarfullum, eins og það er orðað, aðgerðum í loftslagsmálum í samræmi við markmiðin sem stjórnvöld hafa sett sér. Þá eru líka tiltekin fjögur verkefni sem samstarfsvettvangnum er ætlað að sinna og það eru, með leyfi forseta:

1. Að kynna fjölbreytt framlag Íslands til loftslagsmála í fortíð sem og markmið og stefnu til framtíðar.

2. Að tryggja virkt samstarf stjórnvalda og atvinnulífs um aðgerðir í loftslagsmálum, þar með talið kolefnishlutleysi árið 2040.

3. Að styðja við markaðs- og viðskiptaþróunarstarf fyrirtækja tengt loftslagsmálum.

4. Að reka kynningarhús fyrir móttöku gesta og sendinefnda þar sem fram fer kynning og fræðsla um áskoranir loftslagsmála, framlag Íslands og tiltækar lausnir.

Þetta eru býsna viðamikil atriði sem ég hef rakið og sem samstarfsvettvangnum er ætlað að sinna. Mér finnst þetta nokkuð bratt nema menn séu nú þegar komnir með einhvers konar aðgerðaáætlun á öllum þeim sviðum. Ég segi að mér finnist þetta bratt vegna þess að 15. september 2019 á vettvangurinn að halda kynningarfund og þá þarf að liggja fyrir hlutverk og verkefni og hvernig tilhögun vettvangsins eigi að vera. Það er líka ágætt að hér komi fram að það verður í höndum Íslandsstofu að halda utan um þann samstarfsvettvang eða þá aðila sem eru frá 24 samtökum. Það er ótrúlega mikið í húfi og nauðsynlegt að vanda vel til verka og ég segi: Það er líka nauðsynlegt að drífa í málum.

Þar sem ég er að vitna í Bændablaðið vil ég að lokum vekja athygli á viðtali við eigendur Garðyrkjustöðvarinnar Kvista í Reykholti sem í dag framleiðir um 1.100.000 trjáplöntur á ári til skógræktar. Þá getum við enn og aftur sagt: Þetta eru raunverulegar aðgerðir.

Það kemur fram í umfjöllun Bændablaðsins að í kjölfar efnahagshrunsins 2008 hafi stjórnvöld ákveðið að draga saman seglin. Þau ákváðu að draga saman framlög til skógræktar í landinu og það hafði mjög neikvæð áhrif á starfsemi Garðyrkjustöðvarinnar Kvista og eigendur neyddust til að draga saman seglin í trjáplönturæktun.

Einhver hefði haldið að árið 2008 hefði einmitt verið viturlegt að gefa í í skógrækt, byrja þá að hugsa til framtíðar, en þessir eigendur þurftu að draga saman seglin í trjáplönturæktuninni. En nú eru þau komin á rétt ról og þau byggja alla starfsemi sína á því að stjórnvöld hafa lofað auknum fjárveitingum í þetta verkefni á næstu árum og þau segja að þau séu komin í svipaða trjáplöntuframleiðslu og fyrir hrun. Ég er nokkuð viss um að fleiri garðyrkjustöðvar hér á landi hafi verið í nákvæmlega þeim sporum á nákvæmlega þeim tíma. Ég vona að við berum gæfu til að hugsa til framtíðar. Ég held að skógrækt sé stór áhrifaþáttur í kolefnisbindingu. Það er á svo margan máta, það snertir atvinnumöguleika og margt annað.

Þetta virðist lofa góðu og ég vona og veit að flestir vona að loforðum stjórnvalda verði fylgt eftir vegna þess að þetta er liður í kolefnisbindingu til framtíðar.

Ég hef rakið í þessari ræðu það sem snýr að stjórnvöldum og samstarfsvettvangi við atvinnulífið. Mér finnst jafn mikilvægt að koma inn á litlu verkefnin sem þó skipta svo gríðarlega miklu máli. Ég nefndi skógræktarátak hjá Lionsklúbbnum Hæng og ekki síst það að við erum með heildarsamtök skóla sem hafa fengið úthlutað landnemareit í Heiðmörk og eru það samtök foreldra og skóla sem standa að því að gróðursetja þar plöntur. Ég læt þetta duga í bili.