149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[20:39]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að óska okkur öllum, og landsliðinu sérstaklega, til hamingju með sigurinn í leiknum. Mér sýndist við öll í salnum kippast við svona nokkurn veginn í takt — nema ræðumaður sem talaði akkúrat jafn lengi og hún þurfti að gera til að leikurinn kláraðist.

Loftslagsmál eru auðvitað það sem er hér til umræðu. Ég vil kannski aðeins koma inn á fyrri ræður í kvöld, bara til að ramma inn málið. Við finnum okkur á stað þar sem ég held að allir eða flestir séu sammála um að það sé til mikils að vinna að ramma inn aðgerðir sem virka, aðgerðir þar sem orkunni sem víða fer er veitt á þá staði þar sem árangur getur náðst en minna sé sett í verkefni sem eru meira upp á punt og ljósmyndatækifæri, eins og það er stundum kallað, „photo op“ á ensku, með leyfi forseta, sem ég leyfi mér að þýða sem ljósmyndatækifæri. Það hefur verið fylgst með þessu hérna heima undanfarin ár þar sem hefur verið sérstakur áhugi á því að leggja til atlögu við einkabílinn þrátt fyrir að rannsóknir sýni — og þarf svo sem ekki miklar rannsóknir, þetta er að hluta til bara samlagning á undirliggjandi þáttum — að losun einkabílsins sé mjög hóflegur hluti af því heildarvandamáli sem við er að glíma. Nýlegt áhugaefni er að moka ofan í skurði þar sem mönnum virðist vera fullkomlega óljóst hvaða árangur er líklegur til að nást af slíkum aðgerðum. Það gekk meira að segja svo langt að hæstv. umhverfisráðherra hefur farið yfir það hér í pontu að slíkar upplýsingar liggi ekki fyrir en að það sé verið að vinna að því að ná betur utan um það hvaða áhrif það að moka ofan í skurði hafi með tilliti til aldurs skurða og þar fram eftir götunum. Á sama tíma horfum við upp á aðra puntaðgerð, sem ég leyfi mér að kalla svo, sem er hið svokallaða kolefnisgjald. Eitt væri nú ef stjórnvöld reiknuðu með því að kolefnisgjaldið hefði þau áhrif sem því er ætlað að hafa, þ.e. að stýra hegðun. Markmiðið er nefnilega ekki að láta menn borga fyrir þau óskilgreindu nyt sem það er að setja mengun út í andrúmsloftið. Markmiðið er að stýra hegðun. Og þar er, svo vægt sé til orða tekið, veik tilfinning fyrir því hvort árangur sé að nást. Það er annar hlutur sem hæstv. umhverfisráðherra svaraði heiðarlega og opinskátt hér í pontu fyrir ekki löngu síðan, að það lægi ekki fyrir hver eiginlegu áhrifin af kolefnisgjöldunum væru. En á sama tíma og þeim er ætlað að breyta hegðun þeirra sem nota jarðefnaeldsneyti gera spár ráð fyrir því að notkun aukist. Þá er tekið tillit til þróunar rafmagnsbíla og þess háttar inni í því. Það er gert ráð fyrir því að eldsneytisnotkun aukist þrátt fyrir þessa skatta og þrátt fyrir að þótt hægt gangi sé innleiðing tvinnbíla eða rafmagnsbíla búin að slíta barnsskónum. Það blandast saman einhver sérstakur áhugi á aukinni skattheimtu og þeirri hugarhægð að það sé hægt að gera það undir hatti grænna skatta.

Ég held að þarna séum við á rangri vegferð og ég held að best hvað þetta varðar sé að menn stígi nokkur skref til baka og reyni að átta sig á hvað í þessum efnum geti skilað árangri og hvað sé meira til sýnis.

Það er annar angi af umræðunni sem mér hefur þótt vanta mikið upp á að sé reynt að kafa aðeins ofan í. Það er: Skiptir máli hvar útblásturinn verður til annars vegar og hins vegar hvar til að mynda flugvélarnar eru skráðar? Nú gef ég mér, án þess að ég hafi rannsakað það sérstaklega að fullu, að kaupskipafloti landsmanna, íslenskra fyrirtækja, sé, alla vega hefur hann verið það lengstum, skráður erlendis. Útblástur þeirra skipa fer þá væntanlega í bókhald einhverra þeirra þjóða sem eru með haganlega löggjöf hvað slíkt varðar. Á sama tíma leyfi ég mér að segja að við séum að berja á okkur sjálfum fyrir að vera með mikinn útblástur á hvern einstakling, þann mesta í heimi, og það eru fluttar innblásnar ræður og sett fram í sjónvarpsþáttum að útblástur per einstakling sé langmestur á Íslandi af öllum þeim þjóðum sem við þekkjum og berum okkur saman við.

Ég nefndi það í svari eða andsvari fyrr í dag við hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur við framsöguræðu hennar hvort þingmanninum, sem er framsögumaður nefndar í málinu, þætti skipta máli hvar til að mynda útblástur flugvélar væri skráður. Ef það eru rökin og mælikvarðinn hefur meiri háttar árangur náðst í umhverfismálum á Íslandi með gjaldþroti WOW air. Dettur einhverjum í hug að það sé vit í að nálgast málið þannig? Ég get ekki ímyndað mér það. Það dettur engum í hug að gjaldþrot flugfélags sé samfélaginu til heilla af því að þá er einhver útblásturstala í excel-skjali færð yfir á eitthvert erlent félag eða innlent eftir atvikum. Það breytir auðvitað ekki því að þetta fólk sem er verið að flytja þarf að langmestu leyti að komast leiðar sinnar, hvort sem það er yfir Atlantshafið eða hvort það ætlar að stoppa hér á leiðinni. Það er bara tilfærsla. Ég er nú ekki langskólagenginn í þessum fræðum en samkvæmt því sem ég þekki skiptir ekki öllu máli, og raunar mjög litlu í þessu samhengi, hvar útblásturinn á sér stað. Þetta er sem sagt, með leyfi forseta, „glóbalt“, sem sagt vandamál á heimsvísu. Á meðan það er þannig eigum við að nálgast það þannig. Við eigum að leggja fram þær lausnir sem geta raunverulega skilað árangri inn í heimspottinn, ef við köllum það svo, en við eigum ekki að vera upptekin af því með einhverjum puntaðgerðum að setja hvern plásturinn á fætur öðrum á þetta heimatilbúna sár okkar. Það er virkilega verk að vinna en það er verið að setja orkuna, að ég held, á ranga staði. Fókusinn er rangur. Ég held að við þurfum bara eftir þetta dæmi hér um að það dettur ekki nokkrum manni í hug að gjaldþrot heils flugfélags sé heilladrjúgt í þessu samhengi að taka hugsunina enn þá lengra: Hvað ef það væru engin íslensk flugfélög, það væru bara einhver flugfélög skráð hvar sem er í heiminum, bara ekki hér? Þá væri bara aldeilis frábær árangur að nást í umhverfismálum, útblásturinn færi niður sem aldrei fyrr. Við verðum að koma okkur út úr þessum hluta umræðunnar því að hann er auðvitað húmbúkk og hjálpar okkur ekkert áfram.

Annar angi af þessum hluta umræðunnar er mikil andúð þeirra sem mestar áhyggjur hafa. Vissulega hafa flestir eðlilega áhyggjur en sá hópur sem hæst lætur hefur, leyfi ég mér að segja, haft mesta andúð á álframleiðslu innan lands svo lengi sem ég man og þá sérstaklega kannski á seinustu 15 árum, eitthvað svoleiðis, þó að ég treysti mér ekki til að negla það niður í tíma hvenær hún fór að formast með þeim hætti sem síðar varð. Ef við tökum út úr myndinni þær óláns upprunavottanir rafmagns sem orkufyrirtækin eru að selja, svokölluð aflátsbréf, og horfum á það með hvernig orku ál á Íslandi er framleitt held ég að enginn þurfi að velkjast í vafa um að á Íslandi framleiðum við umhverfisvænasta ál í heimi, grænasta ál í heimi. Enginn stenst okkur snúning í þeim efnum á meðan við erum ekki svo skammsýn að selja frá okkur þessi upprunavottorð þannig að innlendir framleiðendur þurfi, þar sem þörf er á slíku, að gefa upp að ál eða aðrar vörur hér heima séu framleiddar með orku sem er búin til úr kolum eða kjarnorku. Eins og ég segi er fókusinn of mikið á puntaðgerðum. Við erum að setja allt of litla orku í það að setja áhersluna þar sem raunverulegur árangur næst. Eitt skref að því er að æskilegt væri að við létum af þeirri áralöngu andúð sem hér hefur grasserað í garð þeirra ágætu álframleiðenda sem hér eru með starfsstöðvar.

Ef við skoðum áltonn framleitt á Íslandi, sama kolefnisspor tonns af áli sem framleitt á Íslandi, samanborið við tonn af áli framleitt annars staðar, svo ekki sé nú talað um tonn af áli sem er framleitt í Kína þar sem mengunin er mest á bak við hverja framleidda einingu, er augljóst að við höfum lagt býsna gott til í heimsbókhaldinu hvað losun gróðurhúsalofttegunda varðar. Ef engin framleiðsla væri möguleg á grundvelli orkuframleiðslu eins og hér er stunduð væri heimsbókhaldið í verri stöðu en núna er og við eigum að þora að ræða þetta á þessum forsendum. Við eigum ekki að skammast okkar fyrir hreinu orkuna okkar og þá orkuöflun sem við stöndum fyrir. Við eigum ekki að skammast okkar fyrir þessa góðu vöru, grænasta ál sem framleitt er í heimi, við eigum ekki að skammast okkar fyrir það. Við eigum ekki að skammast okkar eða setja okkur í þá stöðu að allt sé ómögulegt af því að við áttum til skamms tíma tvö stór alþjóðleg flugfélög. Nú eigum við því miður bara eitt. Bókhaldið fyrir Ísland lagaðist við það en fyrir heiminn lagaðist það ekki neitt. Ég gef mér að fólk sé almennt ekki að ferðast til þess eins að sitja í flugsætinu sem þar stendur til boða þannig að þeir sem ætluðu að koma til Íslands reyna að koma hingað áfram þó að eflaust sé eitthvað örlítið þrengra um til skamms tíma, en þeir sem þurftu að fara yfir Atlantshafið, hvort sem það var frá Ameríku til Evrópu eða öfugt, finna sér bara aðra leið, eins og vatnið, og menga alveg jafn mikið og annars hefði verið. Eina breytingin er sú að þeir koma ekki hingað sem túristar.

Þá komum við á næsta anga þessarar umræðu minnar sem mig langaði til að nota til að ramma málið aðeins inn. Það er túrisminn. Flugið er auðvitað einn angi af því en túristarnir sem hingað koma fara um landið. Sáralítið hlutfall er fótgangandi eða á reiðhjólum en allur massinn ferðast um með annaðhvort einhverju formi af fólksflutningabílum en þó sérstaklega stór hluti núna og vaxandi með bílaleigubílum þar sem einstaklingar eða fjölskyldur ferðast saman. Þetta fer sömuleiðis inn í púllíuna. Ætla menn að standa hér — það er enginn fulltrúi ríkisstjórnarflokkanna í salnum nema hæstv. forseti sem á ekki hægt um vik að koma í samtal í augnablikinu — og halda því fram að þeir væru tilbúnir að þrengja að túrismanum hér á landi með það markmið í huga að minnka gróðurhúsalofttegundir sem til falla í íslenska bókhaldinu, annaðhvort með flugi, siglingu eða innanlandsferðalögum þeirra góðu gesta sem heimsækja okkur hingað, svo ekki sé talað um skemmtiferðaskipin sem skilja eftir sennilega hvað grófustu mengunina miðað við viðkomu í landi? Þessi stóru atriði sem við þurfum að ræða og eigum að ræða og eru forsenda þess að við náum einhverjum árangri eru algjörlega skilin eftir í heildarumræðunni. Flestöll plön sem sett eru fram eru góðra gjalda verð og sú aðgerðaáætlun sem ríkisstjórnin beitir sér nú fyrir er auðvitað ágæt eins langt og hún nær, en í stóra samhenginu nær hún ekkert mjög langt. Það kom fram í ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, fyrr í þessari umræðu, að úr tíu fljótum, sem ég held að séu í Afríku og Asíu, berast, ef ég man rétt, um 85% af öllu því plasti sem fer út í heimsins höf. Auðvitað er það fínt að við reynum að standa okkur vel hérna og við eigum að gera það en þarna liggja stóru tækifærin ef menn ætla með einhverju móti að ná árangri hvað plastvandamálið varðar. Ég lít á það sem hluta af loftslagsvandanum þó að það sé auðvitað annars eðlis en gróðurhúsalofttegundir og annað slíkt, t.d. súrt regn og annað slíkt sem fylgir með beinum hætti þeirri umræðu sem hér á sér stað.

Punkturinn hjá mér með því að nefna þetta með plastið er að víða er hægt að ná svo miklum árangri ef menn ætla sér, ef menn eru tilbúnir að fókusera orkunni þangað sem stóru vandamálin liggja. Á meðan ég stend hérna er ég að reyna að rifja upp grein sem ég las fyrir nokkrum árum og snerist um það hvaða áhrif næðust fram með gróðursetningu plantna á Íslandi samanborið við á frjósömustu svæðum heimsins hvað trjávöxt varðar. Ef við horfum bara á þetta svona væri auðvitað best að senda hverja einustu krónu eitthvað út í heim en við viljum það ekki, við viljum að það sé einhver ballans í þessu. Þess vegna viljum við standa vel að skógrækt og landgræðslu hér heima en vera meðvituð um hitt, rétt eins og í öllum hinum þáttunum, að það er hægt að ná meiri árangri ef það er horft á vandamálin á heimsvísu. Ef það er horft á þessa hluti á heimsvísu liggja stóru lausnirnar og stóru tækifærin að mörgu leyti annars staðar en hér heima en þau liggja sannarlega hér heima hvað orkuframleiðslu og orkunýtingu varðar. Því að hvert tonn af áli, hvert tonn af kísil, hvert tonn af í rauninni hverri þeirri vöru sem framleidd er á Íslandi samanborið við það að hún sé framleidd þar sem orkan kemur úr kolum eða kjarnorku, er bara nokkuð til lagt hverju sinni. Og af þessu eigum við alveg að vera óhrædd við að vera stolt. Við leggjum bara býsna gott til heimsbókhaldsins hvað orkumálin og útblástursmálin varða og þó að reglurnar séu þannig, þótt talningin sé þannig að mikið af þessu sé hengt á íslenska snaga, er miklu mikilvægara að við horfum á hvernig þetta raunverulega er heldur en hvernig einhver misbroguð samlagningarkerfi í þessu heimsbókhaldi halda utan um kerfið.

Ég ítreka það sem ég sagði í byrjun að ekki dettur nokkrum manni í hug að halda því fram að gjaldþrot flugfélagsins WOW hafi verið landinu til heilla af því að þá dró svo úr losun gróðurhúsalofttegunda því að hún færðist bara annað. Ég held að á meðan umræðan er með þeim hætti sem hún er dragi það úr því að við náum raunverulegum árangri. Það er það sem ég vildi segja í byrjun þessarar umræðu.