149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[21:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég tek undir að það verður snúið að sýna fram á það. Maður veltir líka fyrir sér hvernig þetta bókhald allt saman er. Nú höfum við reyndar fyrir framan okkur þá staðreynd að það er, ef ég man rétt, til sjóður sem heitir Votlendissjóður, sem myndi styrkja það að mokað sé ofan í skurði. Auðvitað er það mjög gott ef hægt er að sýna fram á að það skipti máli, að það hafi einhver áhrif. Kannast hv. þingmaður t.d. við að slík gögn hafi verið lögð fyrir í nefndinni, að svo og svo mikið vinnist til baka með því að fara þá leið að moka ofan í skurðina? Einhver nefndi í þessari umræðu, hafi ég tekið rétt eftir, að það gæti haft einhver hliðaráhrif, þ.e. að ekki sé endilega víst að útkoman sé í plús, að það hafi hreinlega ekki verið rannsakað. Ég hef fyrirvara á því en spurningin snýr að því hvort slík gögn hafi verið lögð fyrir nefndina.

Það er engan veginn verið að gera lítið úr vandanum þó að maður hafi efasemdir um ákveðnar leiðir í þessu. Er það t.d. raunhæft að ætla að draga úr flugi ef við horfum á heiminn allan þegar æ fleira fólk, jafnvel tugmilljónir manna í hverjum mánuði, komast á þann stað að geta ferðast? Við sjáum stóru löndin í Asíu, hvort sem það er Kína, Indland eða önnur fjölmenn ríki, þar sem svokallaðri millistétt, eða þeim sem hafa það betra, fjölgar gríðarlega. Þetta fólk mun að sjálfsögðu vilja ferðast eins og við hin sem höfum getað gert það. Eiga Íslendingar þá með einhverjum hætti að draga úr neyslu sinni eða úr ferðalögum sínum með því að leggja á sérstaka skatta sem draga úr getu fólks til að ferðast? Erum við þá ekki að stéttskipta samfélaginu enn meira? Mér finnst einhverjir þingmenn vera að gæla við þær hugmyndir.