149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[21:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Einhvern veginn slær það mann undarlega að vera að samþykkja mál eins og þetta á sama tíma og annað mál er til umfjöllunar. Þó svo að það kannski klárist ekki núna geri ég ráð fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir vilji halda því til streitu að klára það mál. Ef ég skildi þetta rétt þá er verið að fresta gildistökunni. Ég er að rifja þetta upp, mér fannst eins og fresta ætti gildistökunni, en ef svo er ekki þá er undarlegt að vera með tvenns konar mál í gangi í þinginu sem mögulega taka á því sama, þó svo að hitt tefjist að einhverju leyti. En ég dreg ekki úr mikilvægi þess að einhverjum böndum sé komið á skipulag og annað þarna.

En sú spurning sem ég vil kasta fram hér að lokum er hvort þingmaðurinn kannist við það af einhverri umræðu að hugmyndir eða vætningar séu um það að einhver starfsemi verði klárlega bönnuð innan þjóðgarðsins, þ.e. hafa menn gert sér grein fyrir hvers konar starfsemi menn vilja þarna? Eða verður það bara nefndin sem mun gera það með stefnumótun sinni og slíkt að ákveða hvers konar starfsemi á heima innan þjóðgarðsins? Þá velta menn fyrir sér hvort það sé öruggt að sanngirni eða jafnræðis sé gætt. Nú kann að vera að menn sjái tækifæri í því að starfa innan þjóðgarðsins, borga tilskilin leyfi og það allt saman. Er þá líka einhver hámarksfjöldi á leyfum, t.d. varðandi greiðasölu eða slíkt? Ætla menn að leyfa gistingu, verður miðað við einhvern hámarksfjölda og slíkt, eða hve margar rútur megi fara um garðinn á ári og þess háttar?