149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[21:20]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það að við skulum vera að fjalla um þetta mál og samhliða sé stærra mál hér til umfjöllunar endurspeglar bara áskoranir sem eru í þessum málaflokki akkúrat núna. Það er mikilvægt að vinna á mörgum stöðum. Það sem kallar kannski mest á að þetta frumvarp verði samþykkt núna, þó að gildistakan sé ekki fyrr en eftir ár, er einmitt þessi tími sem þarf til að móta atvinnustefnuna.

Í 1. gr. segir:

„Þingvallanefnd skal móta atvinnustefnu vegna reksturs innan þjóðgarðsins, þ.m.t. móta skilyrði fyrir því að aðilar megi stunda atvinnu innan þjóðgarðsins, m.a. með tilliti til verndarmarkmiða þjóðgarðsins, og samninga þar um.“

Í verndarmarkmiðunum er ýmislegt sett niður sem takmarkar kannski hvaða starfsemi er möguleg í þjóðgarðinum. Þarna er vatnasvið sem er viðkvæmt og nýtur verndar. Um þetta er Þingvallanefnd heimilt að setja reglugerð þar sem nánar er mælt fyrir um skilyrði fyrir rekstri, málsmeðferð og gerð samninga samkvæmt ákvæðum þessum þegar atvinnustefnan hefur verið sett niður og ráðherra skal staðfesta þá reglugerð.

Varðandi kröfurnar þá geta þær verið á marga vegu. Í einhverjum tilfellum er þetta mjög einfalt. Þú þarft bara að staðfesta það að t.d. farartæki sem komið er með inn í þjóðgarðinn uppfylli öryggiskröfur, bæði varðandi öryggi farþega en eins varðandi áhættu fyrir umhverfið. Í öðrum tilfellum kunna kröfurnar að vera flóknari eins og um þekkingu leiðsögumanna eða annað slíkt.