149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[21:43]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ræðuna og þá miklu yfirferð sem fólst í hans máli. Hann vék að þætti sem virðist vera athyglisverður, í mínum huga a.m.k., en það er aðgerðaáætlun og tímasetningar og mikilvægi þess. Þar á meðal nefndi hv. þingmaður ártalið 2020. Það er ekki langt í það. Það væri mjög áhugavert ef hv. þingmaður gæti reifað nánar sín sjónarmið í þessum efnum. Það er mjög mikilvægt að staðið sé tryggilega að öllum undirbúningi ákvarðana og framkvæmda á þeirri stefnu sem er mótuð í frumvarpinu og sem lýtur að atvinnustefnu á þessu þýðingarmikla svæði, helgireit Íslendinga. Þess vegna tel ég að það sé mikilvægt, vegna þess að hann vék að þessu sérstaklega í sinni ræðu, að hann myndi fjalla eilítið nánar um það hver hans sjónarmið eru í þessu og hvað í málinu það er sem gefur sérstakt tilefni til athugasemda um þessa þætti málsins.