149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[21:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er frumvarp frá umhverfis- og auðlindaráðherra um Þjóðgarðastofnun í umhverfis- og samgöngunefnd. Það kom fram í andsvari fyrr í upphafi þessarar umræðu að gert er ráð fyrir að verði þessi stofnun að veruleika þá taki hún í rauninni yfir þá starfsemi sem hér er. Í ljósi þess að lögin eiga ekki að taka gildi fyrr en 2020, verði frumvarpið samþykkt, veltir maður fyrir sér hvort það séu engar væntingar um að þessi svokallaða Þjóðgarðastofnun verði að veruleika, sem ég held reyndar að sé óþarfastofnun.

Hins vegar spyr hv. þingmaður út í atvinnustefnu. Mér finnst eins og þetta eigi frekar að heita þjónustustefna eða eitthvað slíkt, alla vega held ég að atvinnustefna sé eitthvað annað, menn tala t.d. gjarnan um atvinnustefnu sveitarfélaga o.s.frv. Ef menn ætla að taka sér heilt ár í að móta þessa atvinnustefnu, semja reglugerð um gjaldtöku, þá er það býsna rúmur tími og vonandi gefst flestum tækifæri til að koma að þeirri vinnu. En ég vakti athygli á þessu í ljósi þess að það á að samþykkja lög um innflutning á fersku kjöti frá Evrópusambandinu, taka stóra áhættu með íslenskan búfénað og heilsu manna. Mótvægisaðgerðir eru nefndar tengt við það í 15 eða 17 liðum. En það er engin tímasett áætlun varðandi þær mótvægisaðgerðir. Þær eru ekki fjármagnaðar eða neitt slíkt. En hér virðist vera tímasett áætlun. Það á að taka eitt ár að ganga frá þessu. Því spyr maður sig hvort ekki sé hægt að gera það á styttri tíma í ljósi þess sem áður hefur sagt.