149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[22:12]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir ræðu hans sem spannaði vítt svið eins og vænta mátti. Þingmaðurinn er náttúrlega nefndarmaður í Þingvallanefnd og þingmaður Suðurkjördæmis.

Það er kannski eitt atriði sem ég vildi gjarnan inna hv. þingmann nánar eftir. Hann vék í sinni ræðu að 2. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um að heimilt verði að taka gjöld, eins og það er orðað, vegna samninga um atvinnustarfsemi og þarna segir, með leyfi forseta:

„… sem skulu standa undir kostnaði við veitingu leyfa, umsjón og eftirlit vegna hinnar leyfisskyldu starfsemi.“

Ég vildi kannski inna hv. þingmann eftir því hvaða hugmyndir eru uppi um umfang þessarar gjaldtöku. Og svo kannski líka í víðara samhengi: Hvaða viðhorf eru uppi á vettvangi Þingvallanefndar til atvinnustarfsemi á þessu svæði?

Nú fór hv. þingmaður mjög vel yfir það hvað Þingvellir eru þjóðinni kærir sem helgistaður hennar og sögustaður og náttúrlega þvílíkt náttúruundur sem þeir eru. Þannig að það er mjög viðkvæmt hvaða atvinnustarfsemi er þarna leyfð, sem hér eftir verður einungis gert á grundvelli samninga við Þingvallanefnd. En almennt um þau viðhorf sem eru uppi í þessum efnum og hvort gjaldtaka ætti frekar að vera hvetjandi eða letjandi til þess að slík starfsemi fari fram á þessu svæði.