149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[22:14]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni kærlega fyrir spurningarnar. Hvaða atvinnustarfsemi yrði leyfð? Það yrði að mínu viti alltaf að ákveða í nánum tengslum við markmiðið sem er að vernda þennan stað, vernda Þingvelli

En fyrst hann nefnir starfsemi gleymdi ég því nú í minni ræðu að benda á að fyrsta stórframkvæmd Íslandssögunnar var einmitt á Þingvöllum. Ef menn skyldu ekki átta sig á því var fyrsta stórframkvæmd á Íslandi sú þegar landnámsmenn í upphafi stífluðu Öxará og veittu henni í annan farveg þannig að hún rann eins og hún rennur í dag, niður í gjána á þeim stað sem Öxarárfoss er í dag. Þannig að menn hafa nú breytt náttúrunni á Þingvöllum. Þó að langt sé um liðið gleymist það seint.

En letjandi eða hvetjandi gjaldtaka? Já, ég held einmitt að hv. þingmaður eigi kollgátuna í þessu efni. Ef talið er að álagið sé of mikið, eins og með köfuninni, held ég að það sé hægt að nota slíka gjaldtöku einmitt til að letja, verðleggja þetta þannig að straumnum og ásókninni verði stýrt, einmitt með því móti að hækka gjaldið.