149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[22:16]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég veiti því sérstaka athygli að hann útilokar ekki þann möguleika að gjaldtöku sé beitt til að ná fram þeim markmiðum sem er lýst í frumvarpinu, þeim verndarmarkmiðum þjóðgarðsins sem þar er fjallað um. Ég vil þess vegna kannski inna þingmanninn hv. heldur nánar eftir því hvaða viðhorf eru almennt uppi um það hversu fýsandi til að mynda nefnd á borð við Þingvallanefnd er um að það verði umtalsverð aukning á atvinnustarfsemi á svæðinu miðað við það sem nú er.

Ég ætla leyfa mér að nota þann örstutta tíma sem ég hef til þess að nefna í framhaldi af ræðu hv. þingmanns sem nefndi kristnitökuna, sem oftast er sögð hafa verið árið 1000. En það er ekki úr vegi, herra forseti, að nefna hér doktorsritgerð Ólafíu Einarsdóttur, ritgerð sem hún varði við Uppsalaháskóla á fyrri hluta sjöunda áratugar liðinnar aldar, þar sem hún beitti aðferðum tímatalsfræða í miðaldafræðum til að renna stoðum undir þá kenningu sína að kristnitakan hafi farið fram árið 999 en ekki árið 1000 eins og oftast er sagt.