149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[22:21]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns fagna þessu frumvarpi sem er um breytingu á lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum, nr. 47/2004, með síðari breytingum og fjallar einkanlega um samning við þjónustuaðila eins og það heitir.

Um meginefni frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Óheimilt er að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án samnings um slíka starfsemi við Þingvallanefnd. Í slíkum samningum skal setja þau skilyrði fyrir starfseminni sem talin er þörf á, m.a. vegna verndarmarkmiða þjóðgarðsins.“

Og þarna eru þau sérstaklega dregin fram í væntanlegum lagatexta.

Síðan, herra forseti, er lögð sú skylda á Þingvallanefnd að móta atvinnustefnu vegna reksturs innan þjóðgarðsins og Þingvallanefnd er m.a. ætlað að móta skilyrði fyrir því að aðilar megi stunda atvinnu innan þjóðgarðsins, m.a. með tilliti til verndarmarkmiða þjóðgarðsins, sem þarna eru nefnd öðru sinni, og samninga þar um.

Síðan er heimildarákvæði þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þingvallanefnd er heimilt að setja reglugerð þar sem mælt er nánar fyrir um skilyrði fyrir rekstri, málsmeðferð og gerð samninga samkvæmt ákvæði þessu sem ráðherra staðfestir.“

Þá er mikilvægt ákvæði þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ákvæði þetta gengur framar ákvæðum laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.“

Í annan stað er í frumvarpinu fjallað um heimild til að taka gjöld vegna samninga eins og hér hefur verið lýst og er tekið fram að þau gjöld skuli standa undir kostnaði við veitingu leyfa, umsjón og eftirlit vegna hinnar leyfisskyldu starfsemi. Þarna er fjallað um ýmis verkefni sem munu fara fram í tengslum við þá leyfisskyldu atvinnustarfsemi sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Það er rétt að árétta að þarna er fjallað um veitingu leyfa, umsjón og eftirlit.

Herra forseti. Í greinargerð er rakið að gildandi lög um þjóðgarðinn á Þingvöllum, nr. 47/2004, tóku gildi 1. júní það ár og síðan eru raktar breytingar sem gerðar hafa verið á lögunum. Það er t.d. athyglisvert að í 3. gr. laganna er mælt fyrir um markmið með friðun landsvæðis innan staðarmarka þjóðgarðsins, en þar kemur fram að land þjóðgarðsins skuli vera friðað í því skyni, með leyfi forseta:

„… að varðveita ásýnd þess sem helgistaðar þjóðarinnar og til að viðhalda eins og kostur er hinu upprunalega náttúrufari.“

Þetta eru auðvitað afar mikilvæg markmið sem ég ætla að flestir geti tekið undir.

Það er öllum ljóst og alkunna að ferðamönnum hefur fjölgað mjög á Þingvöllum á undanförnum árum. Það er sama hvenær ársins þangað er komið, jafnan eru þar ferðamenn í allstórum hópum, misstórum auðvitað eftir því á hvaða árstíma er komið, en óhætt er að segja, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, að þjóðgarðurinn sé einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. En fjölgun ferðamanna hefur ýmislegt í för með sér eins og gefur að skilja. Eins og kemur fram í greinargerð hefur færst í aukana að gestir þjóðgarðsins, ferðamenn, sæki í að njóta afþreyingar innan þjóðgarðsins. Þarna er eðlilegt að staldrað sé við. Þingvellir eru helgistaður íslensku þjóðarinnar þannig að afþreying á þessum stað hlýtur að taka mið af þeirri staðreynd.

Tekið er fram í greinargerðinni að til þess að geta fullnægt verndarmarkmiðum þjóðgarðsins þyki flutningsmönnum, sem eru hv. nefndarmenn í Þingvallanefnd, nauðsynlegt að mæla fyrir um að atvinnustarfsemi geti einvörðungu farið fram innan þjóðgarðsins á Þingvöllum á grundvelli samnings við Þingvallanefnd. Þarna er með öðrum orðum verið að taka þessi mál, e.t.v. mætti orða það svo, fastari tökum en til þessa hefur verið gert. Og til nánari skýringar er þess getið að með þessum hætti geti þjóðgarðsyfirvöld — þá er væntanlega átt við Þingvallanefnd og eftir atvikum þjóðgarðsvörð — stuðlað að því að atvinnurekstur innan þjóðgarðsins sé á hverjum tíma samrýmanlegur verndarmarkmiðum hans.

Ég vil leyfa mér að nota þetta tækifæri, herra forseti, og undirstrika mikilvægi þessa atriðis, að þess sé ætíð gætt til hins ýtrasta að sú starfsemi sem þarna fer fram sé á hverjum tíma samrýmanleg þeim verndarmarkmiðum sem kveðið er á um í lögum og sem ég hygg að öllum beri saman um að séu nauðsynleg.

Herra forseti. Í greinargerð segir nánar um þau atriði sem ég hef gert hér að umtalsefni:

„Með hliðsjón af verndarmarkmiðum þjóðgarðsins kann að vera nauðsynlegt að setja rekstraraðilum skilyrði og mögulega takmarka þann fjölda aðila sem fær að nýta gæðin hverju sinni þar sem svæðið ber ekki ótakmarkaðan fjölda ferðamanna og átroðningur rýrir verndargildi svæðisins.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Almenn sjónarmið sem gilda við úthlutun takmarkaðra gæða koma þar til skoðunar, svo sem um opinbera auglýsingu þannig að áhugasömum aðilum sé kunnugt um að úthlutun standi fyrir dyrum. Þá verða að liggja fyrir þau sjónarmið sem hafa vægi við ákvörðunartöku um úthlutun, m.a. með tilliti til verndarmarkmiða þjóðgarðsins, og gæta þarf þess að ákvörðun sé tekin á málefnalegum grundvelli.“

Eins og áður segir er gert er ráð fyrir því að Þingvallanefnd fái heimild til að setja reglugerð þar sem gerð verði nánari grein fyrir málsmeðferð.

Það eru fleiri atriði sem eru rakin í greinargerðinni sem er mikilvægt að gætt sé að. Þar segir til að mynda, með leyfi forseta:

„Önnur atriði sem gætu komið til skoðunar eru m.a. ákvæði um tímalengd samnings, endurgjald, umgengni og aðrar skyldur þjónustuaðila.“

Allt eru þetta þýðingarmiklir þættir.

Varðandi þá starfsemi sem fer fram á Þingvöllum er kannski rétt að víkja að nokkrum þáttum. Hv. þingmenn, sem hér hafa tekið til máls, hafa sumir hverjir nefnt Silfru þar sem allumfangsmikil starfsemi er stunduð. Gestir kafa í ánni og er sagt af þeim sem kunnugir eru að það sé mikil og einstök reynsla og þar beri fyrir augu mikla náttúrufegurð. Þarna hafa orðið hryggileg dauðsföll, herra forseti, en það er jákvætt að kröfur hafi verið hertar til starfsemi og gagnvart þeim sem fá leyfi til að leggja fyrir sig köfun í ánni og var það að sjálfsögðu algjörlega nauðsynleg ráðstöfun.

Þá vil ég leyfa mér að nefna, herra forseti, að mikið er um útsýnisflug yfir þjóðgarðinn. Það er varla svo að þangað sé komið öðruvísi en að heyra megi gný frá loftförum, þá ekki síst frá hreyflum þyrilvængja, sem svo voru eitt sinn kallaðar, og veltir maður því stundum fyrir sér hvort ferðamenn, sem komnir eru um langan veg frá fjarlægum heimshornum, hafi í raun lagt á sig ferðina til að njóta staðarins við slíkar aðstæður. Oft hefur hvarflað að mér að e.t.v. mætti huga nánar að reglum varðandi flugstarfsemi af þessu tagi, útsýnisflug, og þá sérstaklega með tilliti til þess að varðveita þá kyrrð sem ætti að ríkja á þessum stað í meira mæli en stundum gætir þegar rammast kveður að þessu útsýnisflugi með þyrlum og eftir atvikum flugvélum.

Ekki er fráleitt að maður gæti spurt hvernig tekið yrði á umleitan af hálfu fyrirtækis sem vildi koma til móts við þörf vel klifrandi gesta sem sæju fyrir sér vesturvegg Almannagjár sem eftirsóknarverðan til að stunda íþróttaklifur. Ég leyfi mér að segja að menn verða að fara með gát þegar hugmyndir af því tagi eru uppi. Sú hugmynd er ekkert fjarri hugmyndinni um að leggja fyrir sig köfun í Silfru og ég myndi fyrir mitt leyti ekki mæla með því að slík starfsemi yrði samþykkt. Ég nefni þetta sem dæmi um þær ógöngur sem menn gætu ratað í ef menn hafa ekki fulla aðgát og fulla stjórn á atvinnustarfsemi á þessum stað.

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því, úr því að ég er á annað borð að fjalla hér um þjóðgarðinn á Þingvöllum, að nefna náttúruna og lífríkið. Við búum svo vel að miklir og góðir fræðimenn hafa fjallað um það í ritum. Ég leyfi mér að nefna bók Péturs M. Jónassonar, Þingvallavatn. Sömuleiðis vil ég nefna bók sama höfundar og Páls Hersteinssonar, Þingvallavatn. Undraheimur í mótun. Það er nú einu sinni þannig að lífríkið í Þingvallavatni er mikið rannsóknarefni, lífríkið í og við vatnið að sjálfsögðu. Vatnið þar sem dýpst er er einir 114 m eftir því sem ég kemst næst, en yfirborð vatnsins er í sem næst 100 m yfir sjávarmáli, þannig að þar sem vatnið er dýpst þar er komið niður fyrir sjávarmál. Menn geta ímyndað sér allan þann fjölbreytileika sem er að finna í þessu vatni, í lífríki þess. Kannski eru rannsóknir á því ekki nema bara nýhafnar og margt eigi eftir að koma í ljós. Það er alþekkt að þarna eru fjórir bleikjustofnar, einstakt náttúrufyrirbæri. Þá langar mig sömuleiðis að nefna fuglalífið. Himbriminn kemur ár hvert vestan um haf. Hann er einkennisfugl Þingvallavatns og konungur vatnsins og fögur eru hljóð himbrimans. Hann býr yfir tign og fegurð og er fullkomlega meðvitaður um það hvílíka stöðu hann hefur þegar hann er á eða við vatnið. Ekki er hægt annað en að nefna fjallahringinn, eða a.m.k. að grípa þar niður. Austan vatnsins er Tindaskagi, Hrafnabjörg og Kálfstindar. Það merkilega er að Kálfstindarnir, þeir sem hæstir eru, sjást alla leið héðan frá Reykjavík. Þeir sjást til að mynda úti í Örfirisey. Þeir sjást vel frá útsýnisskífunni á Seltjarnarnesi, svo að ég nefni sem dæmi.

Herra forseti. Í ferðamálafræðum samtímans þarf að hafa í huga lykilhugtök ekki síst þegar svæði eins og þjóðgarðurinn á Þingvöllum á í hlut. Það er alveg nauðsynlegt að á hverjum tíma sé gætt að þolmörkum Þingvalla. Ég legg á það mikla áherslu og sömuleiðis legg ég áherslu á það hugtak sem orðið hefur mjög mikilsvert í þessum fræðum, sem er um sjálfbærni og sjálfbæra ferðamennsku. Þegar viðkvæm svæði með viðkvæmum gróðri sem getur eðlilega fordjarfast með þeim hætti að það taki áratugi að endurheimta gróðurinn, þá er auðvitað alveg nauðsynlegt að farið sé með allra ýtrustu gát og á það vil ég leggja mikla og þunga áherslu.

Herra forseti. Ég á nokkrar sekúndur eftir af ræðutíma mínum og vil nota þær til að leiðrétta missögn sem mér varð á í fyrri ræðu um annað málefni, þar sem ég var að fjalla um fræðilegt framlag Arnars Þórs Jónssonar héraðsdómara. Mér varð á að segja a.m.k. einu sinni að hann væri héraðsdómslögmaður, hann er auðvitað héraðsdómari. Ég tel að mér hafi sömuleiðis orðið það á að nefna hann a.m.k. einu sinni Arnar Má Jónsson, en hann er auðvitað Arnar Þór Jónsson. Og nú þegar ég er búinn að nefna þetta í ræðustól Alþingis þá leyfi ég mér að vænta þess að ég megi eiga von á því að hið rétta og sanna í þessu efni standi í þingtíðindum. En ég hlýt að nefna að ég þakka honum hans mikilsverða framlag til þjóðmálaumræðu á síðustu vikum; eftir því hefur verið tekið og það er mikilsvert.