149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[22:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanni fyrir ákaflega skemmtilega ræðu. Ég bý svo vel að hafa heyrt einn fyrrverandi þingmann tala um Þingvelli og nágrennið af mikilli innlifun. Ég verð að segja að náttúrulýsingar hv. þingmanns stóðu honum hvergi að baki. Það er helst á svona stundum sem maður saknar Össurar Skarphéðinssonar, að hafa hann ekki hér til að lýsa Þingvöllum, urriðanum og himbrimanum og því sem þar fer fram. Ég sakna Össurar náttúrlega oft, en hann gat teiknað upp gríðarlega fallegar myndir af Þingvöllum fyrir mann.

Hv. þingmaður. Ég velti upp þeim reglum sem þarna á að setja. Annars vegar á að móta atvinnustefnu þar sem á að skilgreina hvers konar starfsemi mun fara fram innan þjóðgarðsins eða geti farið fram og ákveða hvernig gjaldtöku skuli háttað og er ágætlega skilgreint hverju gjaldtakan á að standa straum af.

En ég velti fyrir mér hvort ekki sé einfaldara eða betra að vera með almennar reglur um þjóðgarða á Íslandi í stað þess að vera með eina reglu fyrir Vatnajökul og aðra fyrir Þingvelli, jafnvel þó að þar api hver eftir öðrum, heldur að almennar reglur gildi um þá starfsemi sem þarna á að vera.

Í öðru lagi sá ég í umsögn Samtaka aðila í ferðaþjónustu væntingar um að þeir sem þegar stunda atvinnustarfsemi innan þjóðgarðsins hafi einhvers konar forskot eða forgjöf þegar þetta nýja system verður tekið upp á aðra sem myndu vilja koma þarna inn og vera með starfsemi. Hefur þingmaðurinn einhverja skoðun á því, hvort eðlilegt sé að taka tillit til þess?