149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[22:44]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Það er sannarlega vert þegar talað er um Þingvelli og lífríki Þingvalla að Össurar Skarphéðinssonar sé getið. Hann er eins og kunnugt er, eins og hann segir sjálfur, með doktorsgráðu í samlífi laxfiska, kannski urriðans ekki síst. Svo er náttúrlega hin merka og ágæta bók hans um Þingvallaurriðann til á mörgum menningarheimilum landsmanna og áhugamanna um þau mikilsverðu mál. Það er ein náttúrusýn sem ber fyrir augu og það er í október þegar urriðann má sjá undir Þingvallabrúnni í hópum og sést hversu sér á þeim eftir öll átökin um hrygnurnar og baráttuna sem ríkir í heimi þeirra.

En varðandi það málefni sem hv. þingmaður gat um sérstaklega, þ.e. hvort aðilar eigi að njóta forskots eða forgjafar, þá má út af fyrir sig segja að slíkt geti komið til skoðunar en þar geta engin sjónarmið vegið þyngra í mínum huga en þau verndarmarkmið sem eru margáréttuð í lögunum um þjóðgarðinn á Þingvöllum og eru enn áréttuð með þessu frumvarpi sem er greinilega ætlað að styrkja í framkvæmd þau verndarmarkmið. Ég styð þau markmið. Þess vegna fagna ég frumvarpinu og tel það vel úr garði gert og mikilsverðan áfanga í þeim efnum.