149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[22:48]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni, a.m.k. hlýtur frumvarp þegar það er lagt fram og er til skoðunar að verða greint mjög nákvæmlega, m.a. með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður lýsti svona laust og bundið í sinni stuttu ræðu og hvort það er þörf á nýrri stofnun, hvort það er rétta leiðin eða hvort þau markmið sem slíku frumvarpi er ætlað að ná yrði mögulega náð með öðrum og hagkvæmari hætti.

Það er þarna atriði sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni, það er sem sagt málsgrein sem gerð er tillaga um í hinni nýju grein sem á að bera númerið 5. a, þar sem síðasta málsgreinin kveður á um að lagaákvæði sem hér er ætlunin að lögfesta gangi framar ákvæðum laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Það er skýrt með þeim hætti að ekki þurfi að fá leyfi sveitarstjórna vegna nýtingar lands og landsréttinda innan þjóðgarðsins heldur sé fullnægjandi að fá til þess leyfi Þingvallanefndar.

Þetta leyfi ég mér að skilja á þann veg, herra forseti, að með því sé ætlunin að styrkja stjórnsýslu á svæðinu í því tilliti sem frumvarpið fjallar um. Ég ætla að leyfa mér að segja að ég tel það vel. En ég er ekki í vafa um að (Forseti hringir.) Þingvallanefnd mun kappkosta að eiga gott samstarf við Bláskógabyggð.