149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[11:06]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við þurfum öll að nálgast loftslagsmálin ekki sem sérstakan málefnaflokk sem stundum er hampað en oftar en ekki verður út undan heldur með áherslu á sjálfbæra þróun sem byggir á samþættingu umhverfislegra, efnahagslegra og félagslegra þátta. Þetta tiltekna frumvarp er skref í þá átt.

Mig langar að vekja athygli á því sérstaklega að það kemur fram í 3. mgr. 3. gr. að tryggt skuli að í loftslagsráði eigi sæti fulltrúar atvinnulífsins ásamt fulltrúum háskólasamfélagsins, sveitarfélaga og umhverfisverndarsamtaka. Þar er lögð áhersla á að bæði sé um að ræða launþega og atvinnurekendur. Þetta mál er klárlega skref í rétta átt vegna þess að þegar litið er til þess sem við vitum nú þegar um áhrif loftslagsbreytinga á náttúruauðlindir, á fæðuöryggi, á atvinnuhætti, á búsetu og á líf okkar liggur hin ískalda staðreynd fyrir, að ef við náum ekki árangri í þessum málum skiptir ekkert annað máli.

Í ljósi þess að þetta er skref í rétta átt segi ég já.