149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[11:07]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Sem flutningsmaður nefndarálits málsins úr umhverfis- og samgöngunefnd fagna ég því að við greiðum atkvæði um þetta mál í dag. Það voru gerðar ýmsar breytingar á málinu sem komu inn í nefndina og voru málinu til bóta og ég fagna þeim árangri sem náðist í umhverfis- og samgöngunefnd. Má þar nefna þær helstu breytingartillögur að umhverfisráðherra verði skylt að flytja Alþingi reglulega skýrslu í þessum þingsal um stöðu loftslagsmála. Fulltrúi fjölmennustu samtaka launafólks mun sitja í loftslagsráði. Skilgreining á hugtakinu kolefnisjöfnun er samræmd við loftslagsstefnu Stjórnarráðsins og síðast en ekki síst náðist sátt um að skylda sveitarfélög landsins til að setja sér loftslagsstefnu. Það er framfaraskref og jákvætt skref til að við leggjumst öll sem eitt á þær árar að sporna við mestu vá sem að okkur steðjar, sem eru loftslagsbreytingar.

Ég fagna þessu máli og segi að sjálfsögðu já.