149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[11:08]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér er um að ræða frumvarp hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sem ætlað er að styrkja umgjörð og stjórnsýslu loftslagsmála og skerpa á ýmsum ákvæðum laganna en málið hefur verið í vinnslu hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Loftslagsmálin eru stærsta mál samtímans, langstærsta mál samtímans, og þau verða ekki afgreidd á einu augabragði með einum lagabókstaf heldur er um að ræða slíkt mál að það þarf að vera í stöðugri þróun.

Frumvarpið olli nokkrum vonbrigðum, verður að segjast. Einhverjir töldu jafnvel að betur væri heima setið, en sú sem hér stendur telur þó að það sé betra að aðhafast eitthvað en gera ekki neitt og bíða stærri skrefa. Ég tel a.m.k. meiri líkur á að hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem á köflum birtist eingöngu sem samgöngunefnd vegna forgangsröðunar nefndarinnar taki nokkur viðlíka skref og nú er verið að taka — en stærri skref sem nauðsynleg eru; það sé þó betra að samþykkja þetta og standa með þessu en hafna alfarið vegna þess að maður vill stærri skref.

Þess vegna mun ég greiða atkvæði með þessu.