149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

beiðni um frestun umræðu.

[13:17]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Getu- og viljaleysi meiri hlutans til að ná einhverju samkomulagi um þingstörfin er með miklum eindæmum. Þrátt fyrir að stærstur hluti minni hlutans á þingi hafi sýnt mikla ábyrgð og mikinn vilja til að ná fram lausn varðandi þingstörfin hefur ekkert útspil komið af hálfu meiri hlutans. Nú er verið að misnota þá stöðu sem er í þinginu þar sem óskað er eftir eðlilegum, kurteislegum þingstörfum hér undir heimsókn Þýskalandsforseta til að setja umdeilt mál á dagskrá sem þarfnast mikillar umræðu og sem gengur þvert á það þó eina samkomulag sem náðst hefur milli meiri hluta og minni hluta, að umdeild mál yrðu ekki tekin á dagskrá fyrr en tekist hefði að semja um þingstörfin og þinglok. Þetta veldur miklum vonbrigðum.