149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

beiðni um frestun umræðu.

[13:18]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég kem hér upp til að taka undir með kollegum mínum sem töluðu á undan. Það er ekki vilji okkar að vera með einhver leiðindi endilega en ég vil benda á að það er ekki búið að semja við, ja, það sem ég myndi kalla málefnalega minni hlutann um þinglok. Fiskeldið er eitt af þeim málum sem þarfnast mikillar umræðu, sem hefur verið nefnt svokallað ágreiningsmál og það eru nokkur mál þar undir sem var okkar skilningur að yrðu ekki tekin á dagskrá fyrr en búið væri að semja um þinglok. Þess vegna þykir mér þetta á skjön við það samtal sem við höfum átt um að þetta mál, fiskeldi, og önnur mál verði geymd þar til við erum búin að ræða við forsætisráðherra og komast að einhvers konar samningum um þinglok. Mér finnst það mikilvægt. En núna á að setja það mál á dagskrá þrátt fyrir að ég og aðrir hafi beðið um að það yrði ekki sett á dagskrá. Það verður augljósara og augljósara (Forseti hringir.) að það á ekki að hafa neitt samráð við okkur um dagskrána. (Forseti hringir.) Forseti þingsins gerir bara það sem honum sýnist. Þess vegna erum við í fundarstjórnarumræðu.