149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[13:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Það verður gaman fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar að lesa upphaf þessarar ræðu minnar en ég ætla að segja í upphafi að þrátt fyrir að það hljómi kannski ankannalega í ljósi umræðna hér rétt áður en þessi umræða hófst hefur átt sér stað einstaklega góð vinna í mikilli samstöðu innan nefndarinnar um þetta mál, reyndar innan jafnt sem utan. Mig langar að hefja ræðu mína á því að þakka kærlega fyrir þá góðu vinnu öllum fulltrúum, hvort sem eru í stjórnarmeirihluta eða minni hluta, hvort sem þeir voru með á nefndaráliti meiri hlutans eða ekki eða leggja fram sérálit. Mér hefur þótt þetta mál vera dæmi um það hvernig við getum unnið saman þegar við leggjum okkur fram. Þess vegna fagna ég því að geta rætt, þó að ég taki eftir að enginn sé að hlusta, þetta mál hér í salnum því að umræðan á heima hér. Og til að ég taki það líka sérstaklega fram í upphafi máls míns, forseti, er það ætlan okkar að taka málið inn til nefndar á milli 2. og 3. umr. til að halda áfram þeirri góðu samvinnu nefndarfólks, hvaðan úr flokki sem það kemur, til að reyna að ná enn frekari samstöðu um málið og gera breytingar sem er nauðsynlegt að gera á því. Og mun ég nú byrja — eða byrja, ég held að það séu komnar tvær eða þrjár byrjanir á þessari ræðu hjá mér — en ég vil taka það fram hér samt í upphafi í hverju þær felast að einhverju leyti, þ.e. ég vil að það sé fært til bókar að meiri hlutinn dregur til baka eina breytingartillögu. Það er breytingartillaga sem merkt er 18. b í skjali um breytingartillögur og hljóðar svo:

„B-liður (II.) orðist svo:

Um meðferð umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum sem hafa verið metin til burðarþols, sem bárust fyrir gildistöku laga þessara og uppfylla skilyrði 8. gr. laganna eins og þau voru fyrir gildistökuna, fer eftir ákvæðum laga þessara fyrir gildistökuna hvað snertir meðferð og afgreiðslu umsókna.“

Hér með dreg ég þessa tillögu til baka og upplýsi um það, eins og ég er reyndar búinn að gera við einstaka nefndarmenn, að fundin verði á þessu sameiginleg lausn og lögð fram tillaga, vonandi í sátt og samlyndi, á milli 2. og 3. umr.

Það er ágætt að dvelja aðeins við það sem jákvætt er og vel er gert. Mér hefur orðið tíðrætt um þá miklu samstöðu sem ríkt hefur í nefndinni um þetta mál. Það er þannig að sjö af níu fulltrúum í hv. atvinnuveganefnd standa saman að breytingartillögum og nefndaráliti, sá sem hér stendur auk hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, Ásmundar Friðrikssonar, Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, Jóns Þórs Þorvaldssonar, Ólafs Ísleifssonar og Njáls Trausta Friðbertssonar. Minni hlutinn hefur lagt fram eigið nefndarálit og breytingartillögur þar. Að því standa hv. þingmenn Albertína Friðbjörg Elíasdóttir og Jón Þór Ólafsson, en þar er, með leyfi forseta, sagt líka:

„Meiri hlutinn leggur til að gerðar verði nokkrar nauðsynlegar breytingar á frumvarpinu. Minni hlutinn tekur undir þær flestar, en í nokkrum veigamiklum atriðum er þó ástæða til að ganga lengra til að tryggja að hér verði í gildi framsækin fiskeldislöggjöf sem tryggir hagsmuni náttúrunnar og taki mið af hagsmunum nærsamfélagsins og atvinnugreinarinnar.“

Þessi vinnubrögð finnast mér til fyrirmyndar, að taka undir þar sem fólk er sammála en boða breytingartillögur um eitthvað sem það vill að gangi lengra. Ég mun ræða þegar að því kemur, hvenær sem það verður, við framsögumann þess nefndarálits og ítreka að það er mín von að við getum á milli 2. og 3. umr. í nefndarvinnunni náð einfaldlega saman um það sem við teljum að þurfi að gera enn betur í þessum málum.

Þetta er stórt og mikið mál, frú forseti, og breytingartillögur meiri hlutans eru settar fram í sérskjali í 22 töluliðum og enn fleiri stafliðum þar undir. Nefndarálitið er langt og ítarlegt og með fylgir nefndarálit hv. umhverfis- og samgöngunefndar því að hv. atvinnuveganefnd sendi málið þangað til umsagnar. Augljóslega ætla ég ekki að lesa öll þessi gögn hér. Ég veit ekki hvort mér entist tími til þess. En ég ætla að fara yfir stóru línurnar í þessu máli og vísa svo áhugasömum, innan þings sem utan, á skjölin sem undir liggja.

Við erum sem sagt hér að fjalla um frumvarp sjávarútvegsráðherra um fiskeldismál og þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta kemur til kasta hér á þingi. Það var í það minnsta reynt að gera þetta í fyrra. Hér hefur verið unnið að þessum máli nokkuð lengi. Það var endurskoðað síðast árið 2014 á Alþingi en lögin um fiskeldi eru í grunninn frá árinu 2008. Skipaður var starfshópur árið 2017, ef mér skjöplast ekki, sem náði ákveðinni sátt um að í fiskeldi yrði farið eftir áhættumati erfðablöndunar og síðan hefur þetta, eins og ég segi, komið til kasta þingsins í það minnsta tvö ár í röð. Það er því að mínu viti, forseti, gríðarlega mikilvægt að þetta mál nái fram að ganga. Ef þetta verður af einhverjum orsökum ekki að lögum í vor erum við að horfa til þess að áfram gildi löggjöf um fiskeldi frá árinu 2008, löggjöf sem flestir, ef ekki allir, eru sammála um að sé gölluð og þurfi að laga. Nú er lag að laga það sem laga verður, bæta málið og gera það eins vel úr garði og mögulegt er.

Í frumvarpi hæstv. ráðherra er lagt til að heildarframleiðslumagn frjórra laxa verði byggt á áhættumati erfðablöndunar, að hafsvæðum verði skipt í eldissvæði og heimiluð verði úthlutun með auglýsingu, að stjórnsýsla verði efld og eftirlit aukið með fiskeldi, að umsóknir um rekstrarleyfi á svæðum sem ekki eru burðarþolsmetin falli niður, að mælt verði fyrir um vöktun og heimild til aðgerða vegna laxalúsar, að aukið gegnsæi verði um starfsemi fiskeldisfyrirtækja, að umhverfissjóður sjókvíaeldis verði efldur, að rekstrarleyfi fyrir ófrjóan lax verði háð nýtingu þeirra og að tekin verði upp heimild til álagningar stjórnvaldssekta.

Megintilgangur frumvarps hæstv. ráðherra er sá að styrkja lagaumgjörð og stjórnsýslu fiskeldismála með það að markmiði að fiskeldi gangi á grundvelli sjálfbærni. Í frumvarpinu er mótuð sú stefna að það sé skilyrðislaus krafa að fiskeldi verði byggt upp á ráðgjöf vísindamanna.

Þetta var um frumvarpið, forseti. Úr þessu vil ég draga nokkur atriði og vekja sérstaka athygli á, þ.e. það að atvinnugreinin verði sjálfbær og umhverfisvæn og þeirri stefnu að það sé skilyrðislaus krafa að fiskeldi verði byggt upp á ráðgjöf vísindamanna. Þessi atriði má segja að hafi verið leiðarhnoða nefndarinnar í vinnu sinni, vinnu sem var umtalsverð, tekið fyrir á fjölmörgum fundum og mér er til efs, forseti, að um fleiri ferðir hafi verið rætt á nefndarfundum Alþingis en ferð hv. atvinnuveganefndar til Noregs þar sem nefndin kynnti sér fiskeldi af eigin raun, hitti fulltrúa umhverfissamtaka, andstæðinga fiskeldis, fiskeldisfyrirtækja og fjölda rannsóknastofnana sem sinna umhverfis- og náttúruvísindum í tengslum við fiskeldi. Mig langar að nýta tækifærið til að þakka sérstaklega fyrir þessa ferð. Hún var líka til fyrirmyndar og mætti vera gert oftar eitthvað í þessa veru þegar nefndir taka mjög flókin og umfangsmikil mál til umfjöllunar. Það er nefnilega gott að horfa til þess hvernig farið hefur verið með mál í öðrum löndum og læra af því.

Nefndin hefur við umfjöllun sína lagt mikla áherslu á að fá öll sjónarmið um málið upp á borðið og vega þau og meta. Eins og segir í nefndarálitinu, forseti:

„Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem mikilvægt er að setja skýrt og sanngjarnt regluverk um með það að markmiði að greinin verði sterk og öflug og sjálfbær þróun og vernd lífríkisins sé höfð að leiðarljósi. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að frumvarpið væri mikil bót á lagaumgjörð fiskeldis og styrki það verulega og mikil þörf væri á að frumvarpið verði að lögum.“

Það var nefnilega gegnumgangandi í gestakomu og umfjöllun nefndarinnar að allir telja mikla þörf á að þetta frumvarp verði að lögum. Síðan viljum við að sjálfsögðu sjá ólíkar breytingar verða á því til að gera það að enn betri lögum en undirliggjandi er að allir vilji að það verði að lögum.

Svo ég vitni aftur í nefndarálitið, forseti:

„Eldi á frjóum laxi í opnum sjókvíum við Ísland hefur aukist umtalsvert á síðustu árum. Fyrst og fremst er notast við norskan lax, sem er framandi tegund í íslenskri náttúru. Því ber að gæta ýtrustu varkárni við framleiðsluna og að gera kröfu um að rekstrarleyfishafar beri ábyrgð á því að ekki verði erfðablöndun við villta íslenska laxastofna. Mikilvægt er að vernda villta nytjastofna í ám landsins. Ítrekar meiri hlutinn að megintilgangur áhættumats erfðablöndunar sé að koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum með því að meta við hvaða mark sjálfbærri nýtingu villtra stofna sé stefnt í hættu. Með frumvarpinu sé skerpt á skyldum rekstrarleyfishafa, m.a. til að bregðast við stroki, ásamt því að efla eftirlit og veita Matvælastofnun ríka heimild til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota rekstrarleyfishafa. Rekstrarleyfishafar notist þar að auki við mótvægisaðgerðir, t.d. ljósastýringu og notkun stærri seiða, sem miði að því að seinka kynþroska frjólaxa.“

Hér er aftur vikið að vísindalega grunninum. Það eru stóru línurnar sem við fórum yfir í 1. umr. málsins og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir, að grunnstefið í fiskeldismálum er áhættumat erfðablöndunar og að þessi atvinnugrein byggi á vísindalegri ráðgjöf. Þess vegna er hér treyst í sessi það hlutverk vísindamanna innan Hafró að leggja til áhættumat, að skipta svæðum í eldissvæði o.s.frv. Við treystum vísindamönnum Hafró fyrir ýmsu, t.d. rannsóknum á fiskveiðistofnum. Hvað mig varðar er ég svo einfaldur að annaðhvort treystum við vísindamönnum eða ekki og ef vísindamenn segja okkur að eitthvað sé í lagi hvað varðar áhættumat eigum við einfaldlega ekki annarra kosta völ en að trúa því og styrkja lagaumgjörðina um áhættumat.

Nú langar mig, forseti, að gera grein fyrir helstu breytingartillögum meiri hluta hv. atvinnuveganefndar. Þær eru fjölmargar eins og ég fór yfir áðan, en ég ætla að stikla á stóru og vísa svo aftur í skjölin sem undir liggja.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir samráðsnefnd um fiskeldi sem verði stjórnvöldum til ráðgjafar vegna málefna fiskeldis og taki til umfjöllunar hvaðeina sem málaflokkinn snertir, leggi m.a. mat á forsendur og úrvinnslu þeirra gagna sem áhættumat erfðablöndunar byggist á. Meiri hluti hv. atvinnuveganefndar leggur til að í stað fimm fulltrúa í þessari nefnd, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, eigi sæti þar sex fulltrúar og sjötti fulltrúinn sem við bætist verði samkvæmt tilnefningu umhverfis- og auðlindaráðherra. Þá sitji í nefndinni einn fulltrúi skipaður án tilnefningar og sé hann formaður, einn samkvæmt tilnefningu Hafrannsóknastofnunar, einn samkvæmt tilnefningu Samtaka fiskeldisfyrirtækja, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga, einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og loks sá sem meiri hluti nefndar leggur til að bætt verði við, einn samkvæmt tilnefningu umhverfis- og auðlindaráðherra.

Næsta breytingartillaga sem ég vildi koma örlítið inn á, forseti, lýtur að 3. gr. frumvarpsins um skiptingu hafsvæða í eldissvæði, auglýsingu og úthlutun þeirra. Í frumvarpi hæstv. ráðherra um þetta mál sagði — og segir enn — að Hafrannsóknastofnun ákveði þá skiptingu á grundvelli burðarþols og bestu heildarnýtingar mögulegra eldissvæða að höfðu samráði við Skipulagsstofnun. Hv. atvinnuveganefnd eða meiri hluti hennar leggur til að einnig verði haft samráð við Umhverfisstofnun og svæðisráð samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018, þar sem við á. Hér er hugsunin að tengja þetta enn frekar lögum um náttúruvernd en einnig að horfa til skipulags haf- og strandsvæða og þá sveitarfélaga á hverjum svæðum.

Þá er það áhættumatið sem er, eins og ég kom inn á, leiðarhnoðað í þessu öllu. Gerðar eru tillögur um breytingar á þeirri grein er fjallar um það og eftir þeirri grein komi ný málsgrein. Ég ætla samt fyrst að segja, forseti, að þegar rætt er um áhættumatið leggjum við til að það verði skýrt markmið þessa, þ.e. áhættumatsins, að koma í veg fyrir hugsanleg spjöll af villtum nytjastofnum. Það er tækið sem við notum til þess, áhættumatið.

Síðan leggjum við til þessa viðbót:

„Í áhættumati erfðablöndunar skal tekið tillit til mótvægisaðgerða sem draga úr mögulegri erfðablöndun, m.a. ljósastýringar og stærðar seiða og netpoka. Hafrannsóknastofnun skal leita eftir tillögum eldisfyrirtækja að slíkum mótvægisaðgerðum. Áhættumatið skal byggt á þáttum eins og áætlun um fjölda strokufiska og endurkomuhlutfalli þeirra, áhrifum hafstrauma og dreifingu fiska, fjarlægð áa frá sjókvíaeldissvæðum, stofnstærð laxa í ám og öðru sem þýðingu kann að hafa.“

Hér er sem sagt listað upp sérstaklega til hvaða mótvægisaðgerða er hægt að grípa sem mögulega hefðu áhrif á áhættumat. Með þessu er verið að beina fiskeldisfyrirtækjum í umhverfisvænni átt, þ.e. að grípa til enn frekari aðgerða en þau sjálf gera, þ.e. hvati í þá átt sem dragi úr líkum á erfðablöndun.

Þá er bætt við örlítið neðar tveimur nýjum málsliðum er tengjast áhættumatinu, annars vegar að kveðið verði nánar á um ákvæði um meðferð, útgáfu og breytingu áhættumats, þ.e. hvernig verði farið með það ef aukið verður við það. Verður dregið úr því? Hvernig verður farið með það? Ráðherra er falið að setja reglugerð um það, Svo segir, með leyfi forseta:

„Reglugerðin skal taka tillit til bestu fáanlegrar tækni og þess hvernig best verði stuðlað að sem umhverfisvænstum rekstri.“

Hér er aftur komið inn á það sem er nú, eins og ég segi, yfir og allt um kring í þessu nefndaráliti: Við erum að reyna að hvetja fólk og fyrirtæki, bæði með hvötum og eins með reglugerðum, til að fara í sem umhverfisvænastan rekstur.

Næsta breyting sem ég vil koma inn á lýtur að því að Matvælastofnun verði heimilt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að hefta útbreiðslu smitsjúkdóma eða sníkjudýra, svo sem kveðið er á um í 10. gr. laga um varnir gegn fisksjúkdómum. Stofnunin getur m.a. skilgreint smitsjúkdómasvæði og takmarkað flutning lifandi eldisfiska milli slíkra svæða. Þetta teljum við mjög mikilvægt að náist í gegn, að ef upp koma smitsjúkdómar og jafnvel í forvarnaskyni sé hægt að skilgreina smitsjúkdómasvæði. Við þekkjum þetta í búfjárvarnagirðingum og fleira.

Hvað varðar lengd leyfa er lagt til að þau verði ekki ótímabundin heldur verði þau til 16 ára. Ég ræddi áðan um mótvægisaðgerðir á eldisstað sem lúta að því að búnaðurinn sé hvað bestur. Oft hefur verið talað um aðrar mótvægisaðgerðir, þ.e. ef til slysanna komi og fiskur sleppi. Hér er sett inn heimild sem hljóðar svo:

„Fiskistofu er heimilt, að fengnu samþykki stjórnar veiðifélags eða veiðiréttarhafa, þar sem veiðifélag hefur ekki verið stofnað, að mæla fyrir um að leitað verði að slíkum fiski í nærliggjandi veiðiám eða vötnum og hann fjarlægður.“

Hér er ekki síst verið að horfa til norskar fyrirmyndar, að sleppi fiskur sé heimilt að fara einfaldlega og ná í hann, að sjálfsögðu með leyfi eiganda viðkomandi áa eða vatna.

Næsta breytingartillaga sem mig langar að vekja athygli á lýtur að gjaldi í umhverfissjóð sjókvíaeldis. Í frumvarpi hæstv. ráðherra var lagt til að þar væru tveir gjaldflokkar en hv. atvinnuveganefnd leggur til að þeir verði þrír, þ.e. að rekstrarleyfishafar sem ali ófrjóan lax eða regnbogasilung í opnum kvíum skuli greiða árlegt gjald að upphæð — nei, afsakið, fyrir frjóan lax í opnum kvíum verði greidd 20 SDR fyrir hvert tonn, fyrir ófrjóan lax eða regnbogasilung verði það 10 SDR en þau fyrirtæki sem séu með lokaðan eldisbúnað skuli greiða árlegt gjald að upphæð 5 SDR. Með öðrum orðum er fjórfalt hærra gjald fyrir frjóan fisk í opnum kvíum en fisk í lokuðum kvíum. Ég vek athygli á því, forseti, að þetta á aðeins við um gjald í umhverfissjóð sjókvíaeldis.

Ég held að næsta mál á dagskrá, hvenær sem það verður rætt, sé gjaldtaka í fiskeldi þannig að það er mikilvægt að fólk átti sig á að þetta er ekki eina gjaldtakan sem rætt er um hér.

Enn ein viðbótin sem ég vil koma inn á, forseti, varðar breytingartillögu um áhættumatið. Það er, eins og ég segi, grunnstefið í öllu þessu máli og fólk hefur haft mjög mismunandi skoðanir á áhættumati erfðablöndunar. Þar sem þetta á að vera grunnurinn telur meiri hlutinn nefndarinnar mikilvægt að um hann ríki sem mest sátt. Þess vegna er lögð til eftirfarandi breytingartillaga:

„Ráðherra skal skipa nefnd þriggja vísindamanna á sviði fiskifræði, stofnerfðafræði og/eða vistfræði til að rýna aðferðafræði sem Hafrannsóknastofnun notar við mat á burðarþoli og við gerð áhættumats. Skal nefndin skila áliti sínu og tillögum til ráðherra fyrir 1. maí 2020. Ráðherra skal í kjölfarið skila Alþingi skýrslu um niðurstöður nefndarinnar og viðbrögð við þeim.“

Hér er með öðrum orðum reynt að ná meiri sátt um áhættumatið, að það sé sem best — (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé til í að gera hlé á ræðu sinni augnablik.)

Komandi frá Þýskalandi er það sjálfsagt.

(Forseti (SJS): Þá gerir hv. þingmaður hlé á ræðu sinni.)