149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[13:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni hlý orð í garð málsins, mín og okkar allra. Hvað fyrri spurninguna varðar þá veit ég ekki hvernig þetta fór í gegnum ríkisstjórn, sit því miður ekki þar enn. En sjálfur, hvað varðar þingflokk Vinstri grænna, hef ég trú á því að það sé betra að koma að málum einfaldlega þannig að sé hægt að vinna saman að breytingum sem við nú höfum gert, frekar en að frysta mál einhvers staðar af því að fólk er ósátt við eitthvert eitt atriði í því. Þess vegna er ég mjög ánægður með að við höfum komið þessu í gegn og komið þarna inn fulltrúa umhverfisráðuneytis.

Hvað varðar nefndina og áhættumatið kom ég aðeins inn á það í framsögu minni að ég skil þessa hugsun vel og finnst hún einhverju leyti falleg, að það sé vettvangur til að ræða þessi stóru mál í fiskeldi. Þar er náttúrlega áhættumatið stærsta málið. Ímyndum okkur ef við hefðum haft vettvang þar sem við hefðum getað rætt t.d. kvótakerfið frá 1983. Kannski værum við með aðra skoðun á því. En ég ítreka að það er síðan Hafrannsóknastofnunar (Forseti hringir.) að leggja fram tillögu og (Forseti hringir.) ráðherra getur aðeins staðfest eða hafnað þeirri tillögu.