149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[13:58]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég undirstrika að mér finnst það skringilegt að þetta hafi farið í gegnum ríkisstjórnina svona en þakka um leið hv. þingmanni fyrir að hafa lagað þetta og komið með fulltrúa umhverfisráðherra inn í nefndina. Það hljóta að hafa verið gerðar athugasemdir við hæstv. sjávarútvegsráðherra að koma með nefnd þar sem umhverfisráðherra á ekki einu sinni sæti við borðið. Auðvitað er það þá þingsins og meiri hluta sem minni hluta að laga svona agnúa og ég undirstrika þakkir til hv. þingmanns hvað það varðar.

Ég get ekki að því gert að mér finnst utanumhaldið um áhættumat erfðablöndunar linkulegt. Það er ekki haldið eins vel utan um það og hægt er. Áhættumatið var lykillinn að því að það náðist samkomulag með niðurstöðu sem kom í skýrslu Landssambands veiðifélaga, fiskeldisfyrirtækja, umhverfisráðherra, fulltrúa þeirra, og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á sínum tíma, allra hagaðila sem koma að þessu. Það verður að hampa áhættumatinu af því að í gegnum það er líklegra að við náum frið um þessa mikilvægu atvinnugreinar sem við ætlum að byggja upp af varfærni til framtíðar.