149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[13:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að kjósa að eyða mínum tíma í að ræða málið eins og það er núna en ekki eins og það var þegar það kom inn í þingið. Hins vegar verð ég einfaldlega að hafna því að áhættumatinu sé ekki hampað. Þvert á móti er það kristaltært í breytingartillögum og nefndaráliti meiri hluta hv. atvinnuveganefndar að áhættumatið er grunnurinn að því hvar fiskeldi getur farið fram.

Tillaga Hafrannsóknastofnunar er að segja má bindandi að því leyti að ráðherra getur annaðhvort hafnað henni eða staðfest hana, ráðherra mun ekki geta breytt henni. Þannig að hér er þvert á móti verið að lyfta upp vísindalegri nálgun á þennan atvinnuveg. Ég verð sannast sagna að hrósa öllum þeim sem hafa komið að því að nálgast málið á þennan hátt, fyrst og fremst út frá vísindum.