149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[14:00]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að taka undir það sem hefur komið fram um að það sé að mörgu leyti til fyrirmyndar hvernig þetta mál var unnið í nefndinni. Nefndin hefur, þótt að við höfum að lokum ekki verið með sameiginlegt nefndarálit í málinu, unnið gríðarlega þétt saman og það hefur verið mjög dýrmætt og mikilvægt fyrir málið og að ég tel fyrir atvinnugreinina til framtíðar að það hafi tekist.

En það eru nokkur atriði sem mig langar að spyrja hv. framsögumann út í. Annars vegar er talað um að stjórnsýslan verði efld og eftirlit aukið með fiskeldi. Mig langar að spyrja hv. framsögumann hvernig hann sjái fyrir sér að fylgja því eftir. Hvernig verður það tryggt? Það eru áhyggjur af því að ekki sé samhliða verið að auka framlög til þessara stofnanna.

Sömuleiðis langar mig að spyrja hann út í skoðun hans á staðsetningu eftirlitsins. Það hefur verið mjög kallað eftir því að eftirlitið sé staðsett þar sem fiskeldið fer fram svo ekki komi upp vandamál eins og hefur verið, því miður, að eftirlitsmenn séu í marga daga að koma sér á staðinn þegar eitthvað kemur upp.