149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[14:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Við erum að einhverju leyti komin inn í næsta mál, þ.e. gjaldtöku í fiskeldi, og það er hið besta mál. Þetta er nátengt. Akkúrat þar er að finna svarið við því hvernig stjórnsýslan verði efld og eftirlit aukið þar sem hluti af því gjaldi sem þar er lagt til að lagt verði á leyfi á að standa undir stjórnsýslu og eftirliti.

Í mínum huga er það mikilvægasta atriðið þegar kemur að næsta máli. Ég er mjög áfram um að við ræðum uppbyggingu stofnana og starfa víða um land og ég er sannfærður um að í framtíðinni verði eftirlit sem næst eldinu. En fyrir mér erum við á þeim stað núna að aðalatriðið er að eftirlitið verði sem best, virki sem best. Það er atriði númer eitt í mínum huga. Hvar það er er atriði númer tvö.

Það getur vel verið að það fari saman og það verði eflt og sem best á staðnum en í því mun ég hlusta á þær stofnanir sem sinna eftirlitinu.