149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[14:03]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég hef reyndar svolitlar áhyggjur af því að fjármagnið komi ekki inn fyrr en seinna og tel að við þurfum að efla stjórnsýsluna og eftirlitið strax. Við þurfum að vinna að því og ég veit að það er vilji til þess að gera það í sameiningu.

Það er talað um aukið gegnsæi. Mig langar að spyrja um starfsemi fiskeldisfyrirtækja. Þetta markmið er sérstaklega nefnt í nefndarálitinu. Gott væri ef hv. framsögumaður málsins gæti gert aðeins grein fyrir því hvernig hann sjái fyrir sér að það verði gert.

Sömuleiðis er talað um að greinin stuðli að því að mennta starfsfólk í fiskeldi svo hægt sé að byggja upp öfluga þekkingu í greininni á hverju svæði. Hvernig sér hv. framsögumaður fyrir sér að það verði gert? Á að setja t.d. aukið fjármagn í Háskólann á Hólum, sem hefur verið svolítið að sérhæfa sig í kennslu í fiskeldi? Eða hvernig sér hv. framsögumaður fyrir sér að það gerist?