149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[15:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég ætla byrja á því að endurtaka þakkir mínar og hrós til hv. þingmanna sem á þessu minnihlutaáliti standa og eru, að ég hygg, samþykkir, en líka til þeirra sem ekki skrifa undir, sérstaklega til hv. þm. og framsögumanns minni hluta, Albertínu Friðbjargar Elíasdóttur.

Ég fór ágætlega yfir það áðan hvernig við höfum unnið að þessu máli í sameiningu. Ég ítreka að það er ekki oft sem við hrósum hvert öðru eða fögnum mikilli samvinnu í þessum ræðustól svo mér finnst engin ofgnótt í því að endurtaka það hól og þakka um leið falleg orð hv. þingmanns þar um.

Ég verð að segja að mér finnst nefndarálit minni hluta mjög gott, margt þar af góðum hugmyndum sem vert er að skoða og faglega staðið að bæði umfjöllun um málið og þeim tillögum sem þar eru lagðar til. Þess vegna langar bara að spyrja hv. þingmann nánar út í einstaka tillögur.

Í 2. breytingartillögu er lagt til að við frumvarpið bætist nýjar málsgreinar. Ein er í þá veru að Hafrannsóknastofnun geri tillögu að skiptingu fjarða eða hafsvæða í eldissvæði og þegar hún er tilbúin og áður en ráðherra staðfestir hana skuli hún kynnt með áberandi hætti og veittur þriggja vikna frestur til að skila inn athugasemdum. Þetta finnst mér fínasta hugmynd. En eins og þetta er lagt fram í minnihlutaálitinu er búið að færa valdið yfir skiptingu fjarða eða hafsvæða í eldissvæði frá Hafrannsóknastofnun og til ráðherra. Ráðherra ákveður skiptingu fjarða eða hafsvæða í eldissvæði. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í það. Er það viljandi hugsun að það sé ráðherra (Forseti hringir.) sem hafi þetta vald en ekki Hafrannsóknastofnun?