149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[15:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég vil segja að ég er efnislega alveg sammála tillögunni og sammála lokaorðum hv. þingmanns um mikilvægi þess að fólk hafi færi á að koma skoðunum sínum á framfæri þar um.

Ég ætla samt að taka fram að ég set ákveðið spurningarmerki við að færa þetta vald frá Hafrannsóknastofnun til ráðherra en vona innilega að við getum rætt þetta í nefndinni. Ég sé ekki flöt á öðru en að við ættum getað fundið sameiginlega lausn á því, því að mér sýnist viljinn vera hinn sami.

Í því ljósi vil ég einnig spyrja út í tillögu varðandi b-lið 23. gr., sem er bráðabirgðaákvæði, þar sem bæði ég og hv. þingmaður höfum talað um að við vitum að við munum endurskoða þá tillögu. Ég dró í rauninni til baka tillögu meiri hlutans.

Lagt er til í áliti minni hlutans að miða við staðfesta móttöku umsóknar fyrir ákveðna dagsetningu, 1. mars 2019. Var það skoðað í vinnunni við þessar breytingartillögur og nefndarálit hvernig sú leið að miða við ákveðna dagsetningu stæðist lögformlega? Ég hef pínulitlar áhyggjur af því að það að miða við dagsetningu geti myndað lögformleg vandamál, að það standi ekki alveg nógu vel, en þetta er að sjálfsögðu eitthvað sem maður er tilbúinn að setjast yfir og skoða. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það hefði verið skoðað almennilega fyrir þessa breytingartillögu hvort þetta stæðist fullkomlega.