149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrra atriðið, hvort þetta sé hjá ráðherra eða Hafró, held ég, eins og hv. þingmaður nefndi, að það sé okkur að meinalausu að skoða það. Ef það þýðir að við getum náð saman um að tryggja aðgengi almennings að þessu held ég að það sé hið besta mál.

Varðandi hitt fengum við auðvitað álit prófessors í skaðabótarétti við Háskóla Íslands á því hvað myndi gerast, þá vorum við reyndar með allar umsóknir undir, ef þær myndu falla úr gildi og það var ekki talin vera skaðabótaskylda þar á.

Ég fór reyndar að velta því fyrir mér eftir á hvort skynsamlegt hefði verið í ferli málsins ef við hefðum fryst stöðuna eins og hún var þegar málið var lagt fram. Það hefði verið eins og gert er þegar fjallað er um t.d. viðkvæm málefni á mörkuðum eða annað slíkt. Ráðherra hefði bara lagt til að staðan yrði fryst. Ég held að það hefði verið mjög skynsamlegt af því að eins og kerfið er byggt upp núna, eins og núverandi leyfisumsóknarkerfi er þá byggir það á því að fyrstur kemur, fyrstur fær. Við erum að leggja til breytingu og það er grundvallaratriðið, held ég.

Það er mín einarða trú að með þeim breytingum sem við leggjum til í nýja frumvarpinu um hvernig verður fjallað um umsóknirnar verði það einmitt sterkara fyrir byggðirnar, fyrir náttúruna á allan hátt, að fjallað verði um umsóknirnar samkvæmt þeim skilyrðum sem settar eru fram í nýju löggjöfinni, af því að þar verður einmitt horft til þeirra hagsmuna, ekki hvort einhver var á undan að ýta á senda til Matvælastofnunar og Skipulagsstofnunar.