149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[15:57]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Við ræðum ótrúlega mikilvægt og spennandi mál sem tengist fiskeldi. Við stöndum frammi fyrir einstöku tækifæri til að móta regluverk fyrir atvinnugrein sem hefur farið í gegnum alls konar öldurót í gegnum tíðina. Á síðustu sjö árum hefur fiskeldi hægt og sígandi vaxið á Íslandi.

Ég verð að viðurkenna að þann skamma tíma sem ég var í ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála var fiskeldi eitt allra skemmtilegasta viðfangsefnið sem maður kom að, ekki síst út af því að þar eru ótal tækifæri fyrir íslenskt samfélag til að stuðla að verðmætaaukningu, en um leið líka ákveðin áskorun fyrir okkur í stjórnmálum að móta lagaumhverfi, atvinnu-, samfélags- og náttúruumhverfi þannig að atvinnugreinin haldi til lengri tíma. Við þurfum að þora að velta upp spurningum, ögrandi spurningum, standa frammi fyrir því að leita að svörum og fyrstu svörin eru ekkert endilega þau réttu þegar að er gáð.

Við í atvinnuveganefnd fórum, eins og getið hefur verið um, í mjög mikilvæga ferð til Noregs, Ég vil þakka sérstaklega bæði formanni nefndarinnar og framsögumanni og líka forseta. En um leið vil ég, svo ég haldi nú ekki alveg lofsamlegu rullunni áfram, segja að það var afskaplega kúnstugt þegar við vorum úti í þessari mikilvægu ferð, sem var mjög vel skipulögð og við vorum einmitt að heimsækja þá staði þar sem við gátum leitað eftir upplýsingum sem við þurftum og svörum við krítískum spurningum, var þingskipulag þannig að fiskeldismálin voru sett á dagskrá án aðkomu nefndarinnar og án viðveru nefndarinnar hér heima. Það er algjörlega með ólíkindum. Það undirstrikar að mínu mati að vissu leyti þá dagskrárstjórn sem hefur verið á þinginu og blasir núna við öllum á þessum síðustu tímum. En það er önnur saga.

Við erum að tala um fiskeldið og ég vil geta þess að það er margt í þessu máli sem er ágætt. Það hefur tekið mjög jákvæðum breytingum, þó ekki eins og ég hefði viljað sjá þær, en það eru mjög mikilvægar breytingar þarna. Auðvitað er það freistandi fyrir stjórnarandstöðu, og ég ætla að lýsa því að það er fullt af sóknarfærum, ef hægt er að tala um sóknarfæri, fyrir stjórnarandstöðu að koma hingað og hakka ákveðna þætti í sig en ég ætla ekki að fara þangað. Það er svo mikilvægt að við reynum að nota þau tækifæri sem við höfum til þess að byggja upp þá öflugu atvinnugrein sem fiskeldið getur orðið. En þá verða allir, líka þeir sem standa að fiskeldi, líka samfélögin sem eru í kringum fiskeldið, að hlusta á eðlilegar kröfur sem er verið að setja fram í þágu umhverfisverndar og náttúruverndar hér um allt land.

Margt er hægt að segja um pólitíkina en við tókum mjög skynsamleg skref á sínum tíma, ætli það hafi ekki verið 2005 eða 2006, þegar ráðherrar Framsóknarflokksins og allur þingheimur, minnir mig, studdi það að takmarka fiskeldi við Ísland. Við þekkjum þessa sögu. Það var ákveðið að segja: Ísland er að stórum hluta til lokað fyrir fiskeldi nema á tilteknum stöðum, á Vestfjörðum, í Eyjafirðinum — og vel að merkja, þar hefur enn ekki verið úthlutað, burðarþolsmetið og áhættumetið — og síðan fyrir austan. Ég held að þetta hafi verið farsæl ákvörðun. Menn voru að reyna að þróa þetta áfram og mættum við taka það til fyrirmyndar að vissu leyti á fleiri stöðum.

Og hvað hefur gerst? Þetta eru ákveðin skilaboð til þeirra sem vilja fara í nýsköpun, í frumkvöðlastarfsemi. Ríkið er búið að setja ákveðinn ramma. Þá skiptir máli að hægt sé að treysta slíkum ráðum og byggja þannig upp að hægt sé að halda áfram. Þróunin hefur verið brokkgeng en á síðustu sex, sjö árum hefur fiskeldið þróast þannig að hægt er að segja að það sé komið til að vera og til þess að byggja upp. Ætlum við að gefa eftir kröfur til fiskeldisins? Nei. Þýða auknar kröfur ógn við mikilvægt samfélag í tengslum við fiskeldi eins og á suðurhluta Vestfjörðum? Nei. Miklu heldur er ég sannfærð um að ef við þorum að setja fram kröfur sem búa í haginn fyrir að við Íslendingar stöndum í fararbroddi þegar kemur að fiskeldi, verðum með ströngustu kröfurnar í umhverfismálum í fiskeldi, verðum með ströngustu kröfur um dýravernd, um upplýsingar, uppbyggingu, strúktúr og allt í kringum fiskeldið, kröfur til fyrirtækja, skattspor fyrirtækjanna, þá munum við fá hærra verð fyrir hvert laxakíló sem kemur úr íslensku fiskeldi heldur en annars staðar fæst.

Við þurfum að fá líka meira. Ég hef farið áður yfir það í þessum stól hvað við þurfum að gera til þess að við Íslendingar séum samkeppnishæfir við stórar fiskeldisþjóðir eins og Noreg, sem er núna með ríflega 1,1 milljón tonn og ætlar að fara upp í 5 milljónir tonna árið 2050, og Chile sem eru með í kringum 500.000 og ætla að fara a.m.k. upp í 700.000 tonn. Færeyingar eru orðnir mjög öflugir og fastir fyrir á markaði og komnir með mjög sterka markaðsstöðu af því að þeir sögðu: Við ætlum að setja okkur ströngustu reglurnar. Þeir eru með 75.000 tonn núna. Hvernig ætlum við þá að keppa á svona markaði? Það gerum við á grundvelli gæða og með því að allir viti að við umgöngumst íslenska náttúru af varfærni, með sjálfbærni og vísindaleg viðmið að leiðarljósi. Við erum með ábyrga atvinnugrein. Þó að strangar kröfur núna kunni að vera svolítið óþægilegar, kunni að skapa ákveðið óöryggi í viðkvæmum samfélögum, er ég samt sannfærð um að það muni skila okkur varanlegum styrk fyrir atvinnugreinina til lengri tíma litið. Við munum ekki enda með fiskeldi eins og minkabúskapinn. Við munum byggja upp til lengri tíma og við þurfum að gera það.

Við tölum um sjálfbærni í þessu sambandi, umhverfislega sjálfbærni, en það er líka til samfélagsleg sjálfbærni. Við verðum að horfa til samfélagsins í kringum fiskeldið. En það samfélag verður líka að skilja eðlilegar kröfur þeirra sem hafa áhyggjur af umhverfismálum og þær kröfur sem við gerum til fiskeldis. Þetta var viðkvæmt og er enn þá viðkvæmt og það kom alveg í ljós í umsögnum með málinu. Það kom líka í ljós í niðurstöðu þeirrar nefndar sem var skipuð á sínum tíma og skilaði fyrir rúmu einu og hálfu ári. Þar voru fulltrúar fiskeldis, veiðifélaga, þeirra sem standa að villta laxinum og uppbyggingu á laxveiðiám, og síðan ráðuneytisins. Það var líka fulltrúi umhverfisráðherra, vel að merkja. Það var gríðarlega mikilvægt eftir á, upp á að gera þetta trúverðugt. Það var afgerandi niðurstaða og einróma samkomulag um að byggja í kringum áhættumatið. Ég ætla að hrósa ríkisstjórninni fyrir að hún er að reyna að byggja í kringum áhættumatið. Mér fannst það kannski ekki til að byrja með, mér fannst hún ekki gera það af nægilega miklum metnaði. Mér finnst nefndin hafa öll reynt að reyna að styrkja áhættumatið. Það er lykillinn að því að það náist sátt til lengri tíma um uppbyggingu fiskeldisins.

Mér leiddist það hins vegar óskaplega að fá gesti, ég ætla ekki að nafngreina þá, sem þurftu að leggja lykkju á leið sína til þess að hnýta í Hafró. Mér finnst enginn bragur á því. Ég tel mikilvægt að við leggjum áherslu á vísindalega ráðgjöf. Áhættumatið styðst við vísindaleg viðmið, áhættumat erfðablöndunar sem við eigum að styðjast við. Er það fullkomið í dag? Nei, en við höfum séð hvernig fiskveiðiráðgjöf Hafró hefur þróast í gegnum tíðina. Var hún fullkomin 1983? 1990? Nei, en við höfum séð að við tókum skynsamlegar ákvarðanir, að hið pólitíska vald hreyfir ekki á endanum við því sem ráðgjöf Hafró segir hverju sinni vegna fiskveiðilöggjafar. Það hefur verið til farsældar fyrir okkur. Þess vegna skiptir svo miklu máli að löggjafinn gefi strax út þau merki að við ætlum ekki að hrófla við áhættumati erfðablöndunar.

Ég er mjög hugsi yfir því um leið og ég er sammála því að það eigi að skipa samráðsnefnd um fiskeldi til fjögurra ára í senn. Það er nefnd sem við eigum að hafa þar sem hagaðilar eru og jafnvel fleiri til að byggja upp ábyrgt fiskeldi, m.a. á þeim forsendum sem við hér, löggjafarvaldið í þinginu, setjum þeim. Hvernig fylgjum við því eftir? Hvernig getum við bætt okkur? Hvar eru agnúarnir? En það að sú nefnd hafi heimild til að fara m.a. yfir áhættumat erfðablöndunar, fara yfir vísindalega ráðgjöf Hafró, veikir að mínu mati grunninn. Ég veit að innan meiri hlutans eru aðilar sem eru innst inni sammála mér hvað þetta varðar. En í ljósi þess að það þarf náttúrlega að ná ákveðinni samhygð meðal meiri hluta á þingi, var þetta ákveðin málamiðlun.

Málamiðlunin felst í því að það er bætt inn fulltrúa frá umhverfis- og auðlindaráðherra. Þó fyrr hefði verið. Ég ætla ekki að álasa hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé því að hann er að laga þetta en mér finnst með ólíkindum að ríkisstjórnin og forystuaflið í ríkisstjórninni skuli hafa hleypt þessu máli í gegn án þess að gera athugasemd við nákvæmlega þetta atriði. Um áhættumatið á virkilega að spyrja spurninga. Voru þær spurningar settar fram innan ríkisstjórnar af hálfu Vinstri grænna? Á að endurskoða áhættumat erfðablöndunar? Er það virkilega þannig? Ætlum við að hafa samráðsnefnd um fiskeldi og þar er enginn frá umhverfisráðuneytinu eða fulltrúar þess? Auðvitað gengur það ekki. Það er náttúrlega hluti af meðferð þingsins að þarna er þingið að laga mjög mikla agnúa, fer þó ekki alla leið, mér finnst það miður, en lagar mjög mikilvæga agnúa. Það er bara nútímastjórnsýsla að við tengjum umhverfismálin inn sem best við getum.

Eru gerðar nægilegar kröfur í þessu máli? Nei. Ég hefði viljað sjá miklu meiri hvata og ýtt sé undir það að við förum miklu fyrr en síðar í lokað eldi. Ég hefði viljað sjá til að mynda hvatningu til þess að fiskeldisfyrirtækin verði með myndavélar í beinni frá kvíunum. Sum eru til í það og eru meira að segja byrjuð á því. Önnur hafa ekki gert það. Ég held að það skipti máli upp á gagnsæi og trúverðugleika.

Mér hefur verið bent á það hvernig Skotar fara að. Þeir eru á fleygiferð í sinni þróun en fara mjög varlega og eru mjög stoltir af sínu fiskeldi, eru með fisk sinn á borðum hjá bresku konungsfjölskyldunni og á fleiri fallegum og góðum stöðum til þess að kynna fiskeldið. Þeir segja: Við ræktum hægt. Þeir vilja reyna að útrýma lúsinni sem allra fyrst, minnka hana sem frekast má vera. Við ræktum í kulda og það er ekki troðið of miklu í kvíarnar.

Ég vil að það verði unnið að því að slík mörk verði sett hér. Að hluta til eru þau þarna en það þarf að gera þetta miklu skýrara.

Núna eru Skotar, m.a. Fergus Ewing, ráðherra landsbyggðarmála í Skotlandi, að boða og leggja fram nýjar reglur til að auka upplýsingagjöf vegna laxalúsar og hættunnar af lúsafaraldri meðal eldislaxa. Þar er verið að breyta reglunum þannig að þær verða þrengri. Það verður reglubundið viðmið sem verður upplýst um með ákveðnu tímabili, viðmið um laxalús, sem er nokkuð mikið um í Skotlandi en þó ekki eins mikið og í Noregi, eru lækkuð. Það verða færri lýs leyfðar á hvern fisk.

Þetta eigum við náttúrlega að taka upp og ýkja því að við erum ekki með laxalús í sama mæli. Þess vegna verðum við að fara af miklu meiri krafti í að setja fyrirtækjunum strangari reglur. Þess vegna er komið inn á þetta m.a. í breytingartillögum frá minni hluta nefndarinnar, sem ég styð, og ég vil þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir að hafa komið að samningu þess minnihlutaálits, hefur staðið sig frábærlega í þessu. Við hvetjum til þess að ráðherra setji á aðgerðaáætlun um hvernig unnið verði að því að íslenskt fiskeldi verði laust við lús fyrir árið 2025 og ef íslenskt fiskeldi verði ekki laust við lús árið 2025 verði farið í ákveðnar aðgerðir. Eigi ráðherra þá að kynna aðgerðaáætlun um lúsalaust fiskeldi eigi síðar en á næsta ári.

Við getum farið af miklu meiri krafti og miklu meiri metnaði í það hvernig við ætlum að byggja upp fiskeldi. Ég hef bara tæpt á nokkrum atriðum. Ég vil draga það fram að í allri þessari umræðu núna um þinglok og málefnalok höfum við sagt: Að sjálfsögðu klárum við fiskeldið. Ég held að það skipti mjög miklu máli. Ég finn að það eru ákveðnir aðilar innan stjórnarflokkanna sem vilja núna hægja á, og jafnvel heyri ég það að Miðflokkurinn, sem er reyndar á nefndarálitinu, er allt í einu byrjaður að hökta á þessu. Það er greinilega einhver þrýstingur. En ég tek undir með fólkinu fyrir vestan, sveitarstjórnarfólkinu sem kom á fund nefndarinnar og sagði: Við viljum ekki þessa óvissu lengur. Við viljum bara fá skýrar línur og við viljum að þetta mál verði klárað. Og ég held að við skuldum þeim það. Ég get með góðri samvisku sagt: Það er búið að fara yfir mjög mörg álitaefni í þessu og málsmeðferðin hefur að miklu leyti verið mjög til fyrirmyndar í málinu öllu. Þannig að já, við eigum að klára þetta, en við verðum að gefa okkur tíma. Ég hefði viljað sjá meiri metnað um framtíðarsýnina á fiskeldið. Það eru þrýstihópar, bæði frá náttúruverndarsamtökum, veiðifélögum og síðan frá fiskeldinu og samfélaginu þar í kring. Við á þinginu eigum að sýna fram á að við erum að leita bestu leiða til að byggja upp skynsamlega þessa mikilvægu atvinnugrein með því að taka ríkt tillit til umhverfisþáttanna.

Ég legg enn og aftur áherslu á áhættumatið, það á ekki hrófla við því. Ekki vera að rugla frekar í því eða draga tennurnar úr áhættumatinu. Ekki bjóða upp á eitthvað sem verður pólitísk hentistefna. Ég vara við því og ætla að leyfa mér að vona að verið sé að reyna að vinda ofan af slíku með breytingartillögum meiri hlutans, sem margar hverjar eru ágætar.

Ég vil einnig draga fram að ég er mjög ánægð með að verið sé að setja fram leyfi til tímabundinna samninga til 16 ára. Í þessu máli öllu er vissulega verið nýta sameiginlegar auðlindir, aðganginn að fiskimiðum, hafsvæðum. Mér finnst slíkt leyfi gríðarlega mikilvægt, samhliða því að við erum bráðum að koma auðlindaákvæði í stjórnarskrá eða það er alla vega byrjað að kynna það. Því sama er hins vegar ekki fyrir að fara þegar við ræðum makrílinn. Það er náttúrlega dálítið skrýtið en um leið tel ég þetta vera grunninn að því að geta náð enn frekari sátt um fiskeldi. Þetta er hluti af því að ég og við í Viðreisn erum reiðubúin til að fara þá leið og tala fyrir þessu máli, þó með gagnrýnum hætti þegar kemur að umhverfismálum því að okkur finnst ekki nóg að gert hvað þann þátt varðar. En leyfi til tímabundinna samninga er gríðarlega mikilvægt og í rauninni að það sé verið að fara ákveðna fegurðarsamkeppnisleið, ef svo má að orði komast. Það er ákveðið uppboð, að teknu tilliti til ákveðinna þátta sem uppboðsaðilar geta sett inn. Ég held að það sé áhugaverð tilraun. Ég er ekkert endilega viss um að þetta sé fullkomið en þetta er þó alla vega tilraun í þá veru að ríkið fái sem mest fyrir leyfin, að teknu tilliti til þess svigrúms sem greinin sjálf hefur og þeirra áhrifa sem þeir, sem eru að bjóða í leyfin, hafa á samfélagið.

Ég vil draga fram að ég er fegin að meiri hluti nefndarinnar er að draga til baka tímann varðandi leyfin í 23. gr., í 18. lið breytingartillögunnar. Það er skringilegt og ég tek undir með framsögumanni minni hluta að við hefðum hugsanlega frekar átt að frysta allar umsóknir við framlagningu frumvarpsins. Ég heyrði áðan að það voru vangaveltur um hvort við í minni hlutanum hefðum velt þessu fyrir okkur. Já, við gerðum það. Við fengum náttúrlega á fund nefndarinnar hæstaréttarlögmann til þess að fara yfir ákveðna þætti. Ég nota líka mína lögfræðikunnáttu og tel að fylgt sé ákveðnu meðalhófi með því að fara þessa leið. Auðvitað er hægt að skoða fleiri þætti en það sem má ekki gerast er að það vakni tortryggni við útgáfu leyfa við það eitt að málið er lagt fram, út af einhverjum tengslum eða einhverju öðru. Við verðum að passa vel upp á að jafnræði (Forseti hringir.) gildi við úthlutun leyfa. Þess vegna setjum við fram þessa breytingartillögu, minni hluti nefndarinnar. (Forseti hringir.) En ég bið hæstv. forseta að setja mig á mælendaskrá að nýju.