149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[16:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu og vinnu í þessu máli. Þetta er mál af því tagi að það er ofboðslega auðvelt að vera ómálefnalegur eða finna sér leið til að gagnrýna bara og vilja einhvern veginn ekki vinna með heldur kannski skemma fyrir. Því hefur ekki verið fyrir að fara í þessum efnum. Ég skynja raunverulega vilja í þá átt sem hv. þingmaður kom inn á, að við náum sátt um þessa mjög umdeildu atvinnugrein.

Það er hárrétt sem hv. þingmaður segir að til að ná sátt þarf fólk að gefa eftir af þeirra ýtrustu kröfum. Það þarf að hlusta á önnur sjónarmið og ná saman — en aldrei að gefa eftir þegar kemur að grunnkröfum er varðar umhverfi og náttúru.

Mig langar að spyrja hv. þingmann fyrst út í það sem hún kom inn á síðast í ræðu sinni um breytingartillögurnar sem við drógum til baka, varðandi leyfin. Ástæða þess að ég spurði hv. framsögumann minnihlutaálitsins, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, um lögmætið, er eingöngu hugsunin með dagsetningunni. Ég efast ekki um að við höfum vald til þess að ákveða að umsóknir falli niður. Ég er eingöngu að velta fyrir mér hvort dagsetning sé heppilegasta leiðin til þess.

Ég held að vilji okkar sé skýr. Við höfum talað fyrir honum og hann kemur skýrt fram í nefndarálitinu. Við viljum loka dyrunum á eftir gamla kerfinu og færa umhverfið inn í nýja kerfið.

Síðan lít ég svo á að það sé úrlausnarefni okkar saman að finna hvaða leið sé best til þess. Þess vegna spyr ég af einlægri forvitni um þessar dagsetningarleið.