149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[16:19]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Já, við fórum nokkuð yfir þetta og tilefnið var m.a. fréttir sem voru tengdar leyfisveitingum og umsóknum sem voru inni. Menn vissu af því að þar varð fjölgun í umsóknum eftir að málið var lagt fram. Einhverra hluta vegna vilja fiskeldisfyrirtækin frekar vera innan gamla kerfisins heldur en hins nýja.

Ég held hins vegar að við þurfum að sýna ákveðið meðalhóf og skilning. Við töldum eftir að hafa farið yfir þetta að það væri sanngjarnt að þær umsóknir sem voru komnar inn í kerfið fyrir framlagninguna héldu sér samkvæmt gamla kerfinu en síðan færu þær sem komu síðar inn í hið nýja kerfi.

Auðvitað er hægt að reyna að finna einhverjar aðrar leiðir og ég er að sjálfsögðu reiðubúin til þess. Við þurfum að finna þá leið sem er mest trúverðug fyrir greinina, ekki þá leið sem er best fyrir — ég ætla ekki að segja vini og vandamenn, en ég held að hv. þingmaður skilji hvað ég á við. Ábyrgðin er okkar sem erum hér inni.

Þess vegna vil ég sérstaklega hæla hv. þingmanni sem augljóslega skynjar ábyrgð sína í þá veru að við erum að byggja upp grein sem er viðkvæm og hún er umdeild. Við þurfum að reyna að draga einhverja línu sem sættir fólk og fær það saman af því að við erum með markmiðin og forsendurnar á hreinu.

Allt sem verður til þess að vekja tortryggni er ekki gott fyrir greinina sem slíka, ekki gott fyrir samfélögin, hvort sem þau eru fyrir vestan eða austan eða aðra þá sem koma að uppbyggingu fiskeldis.