149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Hún kom í fyrri ræðu sinni inn á mikilvægi þess að tengja aftur við umhverfisráðuneytið og samráðsnefndina. Ég er alveg sammála hvað það varðar og bendi á að í raun erum við að leggja til á fleiri stöðum í frumvarpinu tengingu m.a. með því að Hafrannsóknastofnun þurfi líka að leita umsagnar Náttúrustofnunar þegar kemur að skiptingu í eldissvæði. — Nú er ég örugglega að rugla saman stofnunum, er ekki með plöggin fyrir framan mig.

Í það minnsta er búið að tengja það aftur náttúruverndarlögum.

En í ljósi þess sem hv. þingmaður sagði, bæði í svari við andsvari mínu og eins í ræðu sinni, ætla ég bara að leyfa mér að vera áfram fullur bjartsýni á að við náum góðri niðurstöðu sem flestir geti sætt sig við í þessu máli. Ég fór að skrifa um fiskeldismál fyrir margt löngu af því að ég þóttist skynja að bæði greinin sjálf sem og gagnrýnendur, umhverfissinnar og stjórnmálamenn vildu skýrari reglur, vildu að staðinn yrði vörður um ákveðna hluti.

Ég skynjaði að möguleiki væri á að ná meiri sátt um þessa umdeildu grein en þá ríkti. Ég trúi því enn að það sé hægt og ég trúi því að nefndarálit meiri hlutans sé skref í þá átt. Ég trúi því að nefndarálit minni hlutans sé líka skref í þá átt.

Nú er ljóst að við munum kalla málið inn á milli 2. og 3. umr. og vinna aðeins betur að því. Ég vona innilega að við getum einfaldlega sameinað þessi nefndarálit, tekið úr tillögum hvert annars í eitt álit, og staðið saman að því. Ég held að það muni verða bestu skilaboð sem við getum gefið út í samfélagið hvað fiskeldi varðar og að standa vörð um umhverfisþættina í tengslum við það.