149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[16:24]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf þetta með pólitíkina, hvenær við náum að fara yfir það að gæta sannmælis en ekki bara djöflast og djöflast og fara í gömlu retóríkina að vera á móti bara til að vera á móti. Þegar eitthvað sem var ekki tiltölulega gott er búið að skána og eiginlega bara orðið mun betra en maður innst inni þorði að vona, þá ber að segja það — og ekki að nota málið sem slíkt til að æsa alla upp í samfélaginu, þó að slík tækifæri gefist. Það eru pólitísk tækifæri fyrir stjórnarandstöðuna að gera það.

Ég ítreka aftur: Mér finnst metnaðinn til lengri tíma litið, umhverfislegar kröfur, heilbrigðar og eðlilegar kröfur til fiskeldisfyrirtækja vanta pínulítið. Mér finnst líka vanta skýru skilaboðin um að við viljum halda áfram að byggja upp samfélagið, þó að ég viti að sá hugur er hjá öllum nefndarmönnum að byggja upp m.a. samfélögin fyrir vestan og austan, og að greiðslur sem við fáum fyrir gjöld vegna fiskeldismála renni inn í nærsamfélagið. Því að miklar álögur eru á sveitarfélögin varðandi uppbyggingu innviða á þessum svæðum í tengslum við fiskeldi. Við getum ekki litið fram hjá því. Ég hefði viljað sjá enn ákveðnari skref til að taka á því.

Ég hefði líka viljað sjá, og ég gat um það í ræðunni, skýrari kröfur varðandi lokaðan eldisbúnað eða lokaðar kvíar, ófrjóan lax. Ég gæti kannski eytt einni ræðu í ófrjóan lax og þær kröfur, en við getum farið þessa leið, þetta er svo einstakt tækifæri.

Þess vegna var svo gaman að fá að taka þátt í þessu ferli, og þó að það séu meiri- og minnihlutaálit og við munum sitja hjá, jafnvel vera á móti einhverju en með í flestum tilvikum, þá er það samt þannig að við sjáum samtalið skila sér í meirihlutaálit og ég er þakklát fyrir það. Mér finnst það skipta máli. Mér finnst einnig áhugavert að sjá að það skiptir máli að fá gesti til okkar í nefndinni og hlustað var á skynsemina. Fyrir það vil ég þakka.