149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[16:26]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Til að byrja með langar mig að segja að ég mun ekki geta greitt atkvæði með þessu máli. Þótt ég get greitt atkvæði með ákveðnum greinum innan málsins get ég ekki greitt atkvæði með málinu í heild. Þetta er í raun mjög einfalt fyrir mig. Það er stefna sem Píratar hafa samþykkt í sínu opna og lýðræðislega, rafræna kerfi sem heimilar mér það ekki og þá eru það aðallega tvö atriði, varðandi varúðarregluna og greiðsluregluna. Það segir í stefnu okkar, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld skulu byggja á varúðarreglunni og greiðslureglunni við allar ákvarðanir sem varða náttúru Íslands.“

Í þessu frumvarpi er í stórum dráttum verið að gera tvennt: Annars vegar að heimila miklu víðtækara fiskeldi en á sama tíma er verið að setja miklu öflugri ramma um umhverfisvernd hvað það varðar, ekki nógu góðan ramma en samt sem áður í rétt átt. Það er því farið bil beggja hvað þetta varðar og eins og aðrir ræðumenn hafa sagt, svo sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, ef ég skildi hana rétt, er gengið lengra en maður hefði getað búist við.

Varúðarreglan er bara það að ef hætta er á alvarlegum eða óafturkræfum afleiðingum af einhvers konar athöfnum, í þessu tilfelli fiskeldinu, er skorti á vísindalegri fullvissu ekki beitt sem rökum til að fresta. Það verður að fara eftir því sem bestu upplýsingar segja. Ef upplýsingar eru ekki nægar lætur maður náttúruna njóta vafans, þegar kemur að t.d. líffræðilegum fjölbreytileika, þ.e. ef frjór eldislax sleppur úr þessum opnu kvíum, fer upp í ána og hrygnir og stofnar blandast saman. Það er ekki verið að tryggja að svo sé ekki í frumvarpinu. Það á að gerast einhvern tímann í framhaldinu. Þá á að setja upp einhvers konar stíflur eða fiskistiga eða eitthvað sem laxarnir þurfa að fara í gegnum ef þeir ætla að komast upp í ána, það er eitt af því sem ég spurði að í nefndinni. Þar er hægt að mynda þá og sjá hvort þetta sé eldislax eða ekki út frá myndunum. Mér er sagt að í Noregi elti menn laxinn uppi. En það eru aðrar leiðir. Það er hægt að drepa fiskinn í þessum stiga. Það er eitt sem væri hægt að gera.

Ef notuð væri fullkomnasta tækni, eins og mikið er talað um í frumvarpinu, gætum við komið í veg fyrir að eldislax sem sleppur komist upp í árnar til að hrygna. Tæknin er til staðar, er mér sagt. Það að hún sé aftur á móti ekki komin upp og verið sé að samþykkja frumvarpið áður en hún er komin upp felur í sér að varúðarreglunni er ekki fylgt og m.a. þess vegna get ég ekki samþykkt þetta frumvarp.

Varðandi greiðsluregluna er hún einfaldlega þannig að sá sem mengar greiðir. Ef einhver veldur skaða á umhverfinu með athöfnum sínum, fiskeldi í þessu tilfelli, skal hann greiða fyrir þann skaða. Ég sé það ekki gerast ef það sleppur eldislax sem fer upp stiga og það er kominn búnaður til að taka mynd af laxinum og greina hvort þetta sé eldislax. Ég sé það ekki í frumvarpinu að fiskeldisfyrirtækin eigi að borga fyrir það að senda menn á staðinn og ná í fiskinn.

En það er ýmislegt annað gert til að minnka hættuna. Það eru sett net í kringum kvíarnar eða 200 metra út frá þeim. Það er ýmislegt gert sem er í áttina en uppfyllir hvorki varúðarregluna né greiðsluregluna.

Ég kom sjálfur seint inn í þetta mál. Ég var settur inn í atvinnuveganefnd þar sem aðalmaður okkar í nefndinni, hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þurfti að vera mikið erlendis. Ég kom seint inn til að klára þetta þannig að ég nálgaðist málið svolítið í stóra samhenginu og hugsaði: Hvað er það sem þetta mál gerir í raun? Jú, fiskeldi er til staðar og það er verið að auka það og auka umhverfisverndina og minnka áhættu í eldinu. En hvers vegna erum við að gera þetta til að byrja með? Við viljum að það sé blómlegur iðnaður í landinu. Við viljum fá þá verðmætasköpun sem fiskeldið skapar, þau störf sem það skapar. Verðmætin skila sér bæði til nærsamfélagsins og ríkisins.

Til þess að fá heildarmyndina af þeim verðmætum sem eru skilin eftir í samfélaginu af fiskeldinu spurði ég ráðuneytið og bað það að gefa mér upplýsingar sem ég skal fara yfir á eftir. En ég fór líka að spyrja: Hver er skaðinn sem fiskeldið veldur og skilur eftir í landinu? Hvernig lítur hann út?

Ég byrja fyrst á verðmætasköpuninni til að maður geti vegið og metið hvað manni finnst um málefnin á upplýstum forsendum, hvað manni finnst um þetta mál.

Aftur segi ég: Ég verð náttúrlega að fylgja því sem segir í samþykktri stefnu Pírata og get ekki greitt atkvæði með málinu en mér fannst mikilvægt samt sem áður að geta nálgast það málefnalega og á upplýstan hátt og bað þess vegna um upplýsingar.

Ég spurði um byggðarleg áhrif af fiskeldi almennt út frá verðmætasköpun. Þetta eru upplýsingar beint frá Hagstofunni. Fiskeldi hefur vaxið mikið frá 2012–2017 — þetta eru tölurnar sem ég fékk frá ráðuneytinu og voru teknar saman af Hagstofunni — rekstrartekjurnar eru orðnar tæpir 19 milljarðar, þannig að þetta er sæmilegt umfang. Framleiðsluverðmæti rúmir 20 milljarðar. 2 milljarðar þarna eru vergur rekstrarafgangur, heildarkaup á vöru og þjónustu 15 milljarðar, launakostnaður 3 milljarðar, kostnaður vegna almannatrygginga rúmur hálfur milljarður. Fjöldi starfsmanna hefur farið á þessu fimm ára tímabili, 2012–2017, úr 250 í tæplega 440.

Þá vil ég spyrja: Hversu mikið af því verður eftir? Starfsmönnum hefur fjölgað mjög mikið og svo eru menn líka að hugsa um afleidd störf, það að vinna fiskinn o.s.frv. Það var einn hv. þingmaður í nefndinni sem benti á að þau störf myndu kannski ekki verða eftir í landinu. Þau verðmæti sem skapast og umsvifin í kringum vinnslu fisksins hér á landi munu ekki endilega verða eftir vegna þess að í dag eru fiskiskip eða flutningaskip sem sigla upp til Norður-Noregs að ryksuga fiskinn upp úr kvíunum og sigla með hann til Danmerkur þar sem hann er verkaður.

Það er því ekki endilega þannig, sem skiptir máli fyrir landsmenn að vita, að störf í tengslum við að vinna fiskinn skili sér og haldist á Íslandi. Það er eitthvað sem væri hægt að ryksuga upp. Þá erum við í rauninni bara að leigja út sjávarpláss fyrir kvíarnar með þeim ytri umhverfisáhrifum sem þau kosta en við skiljum hitt ekki eftir í landinu, þ.e. þau auknu störf sem gætu annars verið og margir halda að verði til og horfa til sem ein af ástæðunum fyrir því að vera tilbúnir til að taka á sig umhverfiskostnaðinn vegna þess að við fáum störf.

Ef kostnaðurinn við starfsfólk er, eins og var nefnt í nefndinni, kannski sjö sinnum minni í einhverjum löndum sem er hægt að sigla til, inni í Eystrasalti, en hér á Íslandi er það eitthvað sem gæti verið mjög arðbært að gera. En við skulum horfa til þess að störfum og afleiddum störfum er ekki endilega til að dreifa.

Varðandi fjármagn sýnist mér ekki vera nógu vel skotið loku fyrir þunna eiginfjármögnun. Svo að fólk skilji hvað það þýðir þá þýðir það að þau verðmæti sem eru sköpuð af laxeldisfyrirtækjum, tekjuskatturinn sem langflest fyrirtæki þurfa að greiða til ríkisins skilar sér ekki til ríkisins ef það er eitthvert móðurfélag erlendis sem lánar fiskeldisfyrirtækjum á Íslandi fjármagn, ræður vöxtum og stillir vextina þannig að fyrirtæki hérna heima þurfa að greiða kostnað af láninu til móðurfélagsins sem skilar sér þannig upp í það að það greiðir ekki tekjuskatt. Það kallast þunn eiginfjármögnun. Flest vestræn ríki eru búin að skjóta loku fyrir þetta. Á Íslandi hefur það gengið eitthvað brösulega, m.a. vegna þess að álfyrirtækin á Íslandi stunda nákvæmlega þá iðju, hafa alla vega gert mjög lengi, sem þýðir að tekjuskatturinn af þeirri framleiðslu skilar sér ekki til Íslands. Þetta er líka mikilvægt að horfa á ef við horfum á heildarhagsmuni af því að hafa fiskeldi á Íslandi, annars vegar hvað við skiljum eftir af verðmætum og störfum og hins vegar hvað er skilið eftir í formi umhverfisspjalla.

Varðandi umhverfisspjöllin er hægt að stunda fiskeldi með mjög lítilli áhættu fyrir umhverfið. Eitt er að það er hægt að vera með það uppi á landi. Það kostar miklu meira rafmagn þannig að við horfum til gróðurhúsaáhrifa o.s.frv. eða að nota rafmagnið í aðra framleiðslu og þarf að horfa á það í samhengi við hlutina. Ef það er gert í sjó er hægt að minnka verulega umhverfiskostnaðinn eða ytri áhrifin, slæm ytri áhrif á umhverfið. Í dag er víst á tveggja vikna fresti kafað niður á hafsbotninn, bæði undir kvíum og annars staðar í firðinum þar sem fiskeldið er, og hann skoðaður hvað þetta varðar.

Þá eru það lyf og slík atriði en mikil lyfjaframleiðsla getur valdið sýklalyfjaónæmi og þessar laxalýs sem lyfin eru m.a. notuð gegn geta náttúrlega smitast í villtan lax líka. Þetta skiptir máli. Það var tillaga okkar í minni hlutanum að það skyldi merkt ef lyf væru notuð og að sjálfsögðu ætti fremur nota aðrar aðferðir en lyf. Það eru til aðrar aðferðir eins og að nota heitt og kalt vatn og aðrar aðferðir sem hægt er að beita til þess að losna við laxalúsina.

Ef notuð er besta hugsanlega tækni, sem er talað mikið um í frumvarpinu, er hægt að gera hlutina á miklu umhverfisvænni hátt og jafnvel myndi maður geta sagt mjög umhverfisvænan hátt ef það er t.d. hægt að koma í veg fyrir erfðablöndun með þeim hætti að setja upp stíflur með götum sem fiskarnir þurfa að fara í gegnum og drepa þá ef þeir eru ljósmyndaðir og tölvutæknin metur af uggastærð og slíku hvort um eldislax sé að ræða. Það er hægt að gera þetta á miklu umhverfisvænni hátt þannig að varúðarreglunni sé miklu betur fylgt og náttúran látin njóta vafans, meira en er gert núna.

Ef maður horfir á heildarhagsmuni í málinu er verið að gera það miklu betur í þessu frumvarpi en gert er núna.

Þegar kemur að því að greiða atkvæði í málinu munum við þingmenn Pírata, ég alla vega og ég hef talað við þingflokkinn um það, þó án efa ekki samþykkja það í ljósi samþykktrar stefnu Pírata. Við munum samt greiða atkvæði með ákveðnum góðum þáttum um umhverfisvernd sem er klárlega verið að setja inn í frumvarpið.

Ég hef skoðað og rannsakað kosti og galla við frumvarpið og hagsmunina, það sem er skilið eftir í formi einhvers konar umhverfisspjalla og síðan verðmætasköpunar, og í heildina myndi ég segja að hægt væri að gera þetta miklu betur varðandi þá þætti. Í framhaldinu myndi ég vilja sjá, í rauninni tengt þessu en líka tengt miklu fleiri atriðum, að þunn eiginfjármögnun væri bönnuð með lögum á Íslandi, eins og flestar aðrar vestrænar þjóðir hafa gert, þannig að fyrirtæki geti ekki komist hjá því að greiða tekjuskatt á Íslandi.

Hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir skrifaði nefndarálit minni hlutans mestu og ég kom síðan að því með henni og það er tengt máli sem er samhliða þessu, en þar er lagt til að lagt sé á auðlindagjald. Þetta sé auðlindanýting, sem er nákvæmlega það sem það er. Það er verið að nýta sameiginlega auðlind allra landsmanna sem er þetta sjávarpláss í því skyni að skapa verðmæti og þá væri mjög eðlilegt að setja á auðlindagjöld, rétt eins og þegar útgerðin á Íslandi nýtir sameiginlega auðlind með því að sækja á miðin og veiða villta stofna í kringum landið. Okkur finnst ekkert nema eðlilegt að byggja á þeim grunni að lágmarki til að fá inn auðlindagjöld. Síðan er það sjálfsögðu stefna Pírata að bjóða eigi upp nýtingarrétt hvað varðar sjávarauðlindina okkar. En við viljum að lágmarki að farin verði sú leið sem er farin í dag þannig að þeir sem nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar greiði fyrir það auðlindagjald. Það er í tillögu okkar. Við skulum sjá hvernig atkvæðagreiðslan um hana fer í þingsal.

Varðandi framtíðina eru komin tvö frumvörp inn í samráðsgátt stjórnvalda um breytingar á stjórnarskránni. Annars vegar er komið inn frumvarp um breytingu á stjórnarskránni hvað varðar auðlindir í náttúru Íslands og hins vegar um umhverfisvernd. Þá væri áhugavert að sjá hvernig þetta frumvarp samrýmdist þeim ákvæðum ef þau yrðu samþykkt eins og þau hafa verið sett inn í samráðsgáttina. Þar kemur fram, með leyfi forseta, um umhverfisvernd:

„Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Ábyrgð á vernd náttúru og umhverfis hvílir sameiginlega á öllum og skal verndin grundvallast á varúðar- og langtímasjónarmiðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Stuðlað skal að því að fjölbreytni náttúrunnar sé viðhaldið og vöxtur lífríkis og viðgangur tryggður.

Allir skulu njóta heilnæms umhverfis. Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi.“ — Það skiptir nú ekki máli hér. — „Ganga skal vel um náttúruna og virða hagsmuni landeigenda og annarra rétthafa.“

Það er greinilega ekki verið tryggja rétthafa að þeim ám og nýtingarrétt í þeim ám þar sem villti laxinn er til staðar. Þetta er ekki tryggt nógu vel með frumvarpinu.

En áfram held ég, með leyfi forseta:

„Mælt skal nánar fyrir í lögum um inntak og afmörkun almannaréttar.

Í lögum skal mælt fyrir um rétt almennings til upplýsinga um umhverfið og áhrif framkvæmda á það svo og til þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið.“

Hérna eru varúðar- og langtímasjónarmið en varúðarsjónarmiðum er ekki nógu vel fylgt. Það er ekki staðinn vörður um hagsmuni landeigenda eða annarra rétthafa þegar kemur að þeim ám þar sem villti laxinn gengur upp og það er ekki verið að setja upp þann tæknibúnað sem raunverulega þarf til að koma í veg fyrir erfðablöndun, þ.e. að frjór eldislax sem sleppur úr kvíum gangi ekki upp í ár og hrygni. Það er ekki komið í veg fyrir það.

Þessi lög myndu að mínu mati ekki standast ákvæði frumvarps um breytingar á stjórnarskrá um umhverfisvernd sem er nú í samráðsgátt stjórnvalda.

Varðandi frumvarp um auðlindir í náttúru Íslands segir þar, með leyfi forseta:

„Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni.

Nýting auðlinda skal grundvallast á sjálfbærri þróun. Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota.“

Ég stíg aðeins út fyrir textann. Í frumvarpinu er talað um að nýtingarrétturinn sé til 16 ára sem skapar ekki nein séreignarréttindi þannig að mér sýnist það alla vega að því leytinu til uppfylla sjónarmiðin í frumvarpi til breytingar á stjórnarskránni um auðlindir í náttúru Ísland sem er í samráðsgátt stjórnvalda.

Ég held áfram:

„Handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds fara með forræði og ráðstöfunarrétt þeirra í umboði þjóðarinnar.

Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.“

Með lögum er í þessu tilfelli verið að nefna einhverja gjaldtöku. Það er ekki gengið jafn langt, sem er þó mjög skammt gengið, þegar kemur að nýtingu á sameiginlegri fiskveiðiauðlind okkar í þessu frumvarpi, það er gengið skemur en það þannig að landsmenn fá minna í sameiginlega sjóði fyrir nýtingu á hinni sameiginlegu auðlind sem er þetta sjávarpláss undir kvíarnar en þegar útgerðin fær að nýta fiskveiðiauðlindina.

Svo eru mismunandi aðilar búnir að taka saman efni um þann hag sem af því hlýst, þ.e. verðmætasköpun og hag fyrir nærsamfélagið og störf. Það er m.a. byggt á skýrslu Byggðastofnunar, sem ég er að vísa í, og svo eru tölur úr skýrslu KPMG sem var gerð fyrir Fjórðungssamband Vestfjarða. Ég mæli með að fólk kynni sér það en skoði það líka í samhengi við hver óskar eftir þessum upplýsingum.