149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[13:08]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér fiskeldismálið, þ.e. frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Það var þegar ljóst þegar þetta mál kom fram að það yrði með allra stærstu málunum á þessu þingi. Ég vil í upphafi ræðu minnar þakka það starf sem hefur farið fram á vettvangi hv. atvinnuveganefndar og þá sérstaklega formanni nefndarinnar sem hefur stýrt því starfi af festu og lipurð. Þá vil ég sömuleiðis þakka hv. framsögumanni þessa máls, Kolbeini Óttarssyni Proppé, sem hefur sýnt mikinn metnað í því. Ég þakka öllum nefndarmönnum fyrir ánægjulegt samstarf. Það er ekki hægt að fjalla um starf þessarar nefndar öðruvísi en að bætast í hóp þeirra sem hafa fjallað um ferðina til Noregs. (Gripið fram í.) Sú ferð var afar vel heppnuð og kannski má segja að ef einhver þingnefnd skyldi einhvern tímann rata í vanda gætum við mælt með því að fara til Noregs og kynna sér fiskeldi. Það myndi a.m.k. ekki spilla.

Mjög stór atriði eru uppi í þessu máli. Eins og síðasti ræðumaður, hv. þm. Ásmundur Friðriksson, rakti er þetta auðvitað mikið landsbyggðarmál, þetta snertir atvinnu á landsbyggðinni, snertir samfélögin á þeim svæðum þar sem atvinnustarfsemi af þessu tagi á annað borð kemur til greina. Um leið eru hér undir mjög miklir hagsmunir sem snúa að náttúru landsins og lífríki og þessi atriði fara ekki saman í öllum tilvikum þannig að það þarf að finna leið. Leiðin sem hér er farin er að reisa þessa starfsemi á vísindalegum grunni og ég mun víkja nánar að því í minni ræðu hér.

Markmið sem ég álít verðugt er að greinin verði sterk og öflug og einkennist af sjálfbærri þróun um leið og vernd lífríkisins og náttúrunnar sé höfð að leiðarljósi. Það er mjög mikilvægt að þessi unga atvinnugrein sem gæti, ef rétt er á málum haldið átt framtíðina fyrir sér, orðið mikil uppspretta atvinnu og tekna og haft jákvæð áhrif á þjóðarbúskap Íslendinga, búi við traust og sanngjarnt laga- og regluverk. Það er rakið í nefndaráliti að þau atriði sem fengu hvað mesta umfjöllun í meðferð nefndarinnar voru áhættumat erfðablöndunar, sem svo er kallað, rekstrarleyfi, gildi þeirra og umsóknir, sjókvíaeldi í opnum og lokuðum kerfum, kostir, gallar og áhættur eins og það heitir, og mikilvægi þess að regluverk sé endurskoðað og fylgi þróun í atvinnugreininni, auk náttúruverndar- og umhverfissjónarmiða.

Herra forseti. Það er mjög þýðingarmikill þáttur í því frumvarpi sem hér liggur fyrir að hér er lögð til lögfesting á áhættumati erfðablöndunar og það er Hafrannsóknastofnun sem fær það verkefni að vinna slíkt áhættumat. Þetta áhættumat felur í sér mat á því hversu mikið magn frjórra laxa sé óhætt að ala í sjókvíum hverju sinni en til samanburðar er rétt að geta burðarþolsmats sem er mat á heildarframleiðslu á hverju svæði. Það kann að vera að orðið áhættumat sé ekki nægilega vel valið. Það er ekki verið að meta út af fyrir sig áhættu heldur er verið að meta magn sem álitið er óhætt að ala. En gott og vel, meginatriðið er að þetta mat fari fram á vísindalegum grundvelli og eftir bestu þekkingu á hverjum tíma sem færustu vísindamenn sem við eigum hafi með höndum. Það er líka mjög nauðsynlegt að það starf sé metið og sæti mati af því tagi sem tíðkast um vísindastörf, það er svokallaðri ritrýni, og auðvitað mjög mikilvægt að Hafrannsóknastofnun haldi áfram öflugu sambandi við sambærilegar stofnanir, ekki síst í Noregi, og að færustu vísindamenn rýni þær niðurstöður sem stofnunin skilar.

Herra forseti. Það er eilítill kliður sem ég mælist til að verði tekið fyrir.

Herra forseti. Áhættumatinu er ætlað að koma í veg fyrir að sá norski lax sem hér er hafður til eldis og er framandi tegund í íslenskri náttúru blandist við villta íslenska laxastofna. Þeir eru mikilvægir og það er mjög þýðingarmikið að þeir séu verndaðir. Í þessu frumvarpi eru stigin margvísleg skref í þá átt að koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum með því að meta, með hinu svonefnda áhættumati, við hvaða mark sjálfbærri nýtingu villtra stofna sé stefnt í hættu. Í þessu sambandi er skerpt á skyldum rekstrarleyfishafa, m.a. til að bregðast við stroki, ásamt því að efla eftirlit og veita Matvælastofnun ríka heimild til að leggja á stjórnvaldssektir. Mótvægisaðgerðir hafa mikla þýðingu, þeim er ætlað að stuðla að því að lágmarka líkur á erfðablöndun. Um þetta er fjallað og ég þarf ekki að fara yfir helstu þætti í því sambandi, þeir eru flestir vel þekktir, en það er ástæða til að vekja athygli á mikilvægu ákvæði um að Fiskistofu er veitt heimild til að mæla fyrir um að leitað verði að strokufiski í nærliggjandi veiðiám og -vötnum og hann fjarlægður, að fengnu samþykki stjórnar veiðifélags eða veiðiréttarhafa þegar veiðifélag hefur ekki verið stofnað.

Herra forseti. Áhersla er lögð á það í áliti meiri hlutans, og ég hygg að það sé enginn ágreiningur um það í hv. nefnd, að mikilvægt sé að áhættumat og burðarþol sé rýnt af sérfræðingum. Þarna er nýmæli þess efnis að ráðherra skipi þriggja manna nefnd vísindamanna á sviði fiskifræði, stofnerfðafræði og/eða vistfræði til að rýna þá aðferðafræði sem Hafrannsóknastofnun notar við mat á burðarþoli og við gerð áhættumats.

Það er rakið að fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að veita þyrfti ráðherra heimild til að kveða nánar á um meðferð rekstrarleyfa, t.d. þegar breyta þurfi rekstrarleyfi í kjölfar breytinga á áhættumati. Við þessu er brugðist með því að ráðherra verði skylt að setja reglugerð þar sem nánar verði kveðið á um þessi atriði.

Gert er ráð fyrir samráðsnefnd um fiskeldi sem sé stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni fiskeldis. Hlutverk nefndarinnar er m.a. að leggja mat á forsendur og úrvinnslu þeirra gagna sem áhættumat erfðablöndunar byggist á. Ég legg á það áherslu að þessi samráðsvettvangur hefur enga heimild til að hlutast á nokkurn hátt til um mat Hafrannsóknastofnunar, enda gerir hún því aðeins breytingu á sinni tillögu sjái hún sjálf ástæðu til. Það má auðvitað ræða það á hvern veg skuli skipa nefnd af þessu tagi. Fyrir mitt leyti taldi ég álitlegan kost að hún yrði skipuð fagfólki. Það sjónarmið hlaut ekki nægilegan hljómgrunn en ég met það að við því er kannski að einhverju leyti brugðist með þriggja manna sérfræðinganefnd þar sem nákvæmlega er kveðið á um faglegar kröfur.

Frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu er sömuleiðis gert ráð fyrir því, eins og það heitir, að málsvarar umhverfis- og náttúruverndar fái fulltrúa í nefndinni og náttúrlega lá fyrir að það var algjörlega nauðsynlegt. Er brugðist við með því að umhverfisráðherra tilnefnir fulltrúa í nefndina. Í þessum málaflokki eru uppi býsna sterkar skoðanir og ekki fyrir að synja að þeir séu til sem halda því mjög ákveðið fram að það sé ekki heppilegt, svo vægt sé til orða tekið, að ala fisk í opnum kvíum. Í frumvarpinu eru samt hvatar sem ég tel mikilvæga fyrir rekstraraðila til að stunda sjókvíaeldi í lokuðum sjókvíum og sömuleiðis uppi á landi.

Þarna er atriði sem er vert að nefna. Ég lít þannig á að það hafi verið mikil samstaða í hv. nefnd um að leggja mikla áherslu á verndun villtra laxastofna og að gæta að umhverfissjónarmiðum. En sú breyting er gerð í tillögu meiri hluta að við skiptingu fjarða eða hafsvæða í eldissvæði skuli til viðbótar við Skipulagsstofnun haft samráð við Umhverfisstofnun og svæðisráð hlutaðeigandi svæðis. Með því er sömuleiðis talið að betri tenging fáist við lög um náttúruvernd. Það er rétt að geta þess að gildistími rekstrarleyfa er atriði sem oft kom fyrir. Það er auðvitað nauðsynlegt að það sé tryggt að allir rekstrarleyfishafar sitji við sama borð og að slík leyfi sæti endurskoðun líkt og önnur rekstrarleyfi. Því er lögð til breyting á þann veg að rekstrarleyfi verði tímabundin og skulu þau endurskoðuð á a.m.k. 16 ára fresti og þá verði rekstrarleyfishafa skylt að leggja fram þau gögn sem nauðsynleg séu til endurskoðunar leyfisins, sé þess óskað. Þetta er mjög mikilvægt atriði og sömuleiðis það að gert er ráð fyrir því, a.m.k. er það áréttað í áliti meiri hluta, að mikilvægt sé að tryggja að þær stofnanir sem fái aukið hlutverk samkvæmt lögunum séu efldar og þeim tryggt fjármagn til starfsemi sinnar.

Tækni fleygir auðvitað fram og því er lýst af hálfu meiri hluta í nefndarálitinu að ekki sé langt þangað til að eldi á frjóum laxi verði eingöngu stundað í lokuðum og hálflokuðum kvíum, að að því beri að stefna og þess vegna þurfi á komandi árum að fara fram endurskoðun á löggjöf um fiskeldi þar sem tekið verði tillit til þeirra framfara sem orðið hafa, m.a. á eldisbúnaði. Þess vegna er gert ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði að lögin verði endurskoðuð eigi síðar en 1. maí 2024.

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá að nefna eitt atriði sem lýtur að því að, eins og kom fram í máli framsögumanns, meiri hlutinn hefur dregið til baka tillögu sem er að finna varðandi meðferð umsókna um rekstrarleyfi. Gert er ráð fyrir því að fundin verði lausn á þessu viðfangsefni milli 2. og 3. umr. Ég ætla að leyfa mér að segja að það hefði verið heppilegt að þessi niðurstaða lægi fyrir nú þegar við 2. umr. og ég ætla sömuleiðis að leyfa mér að segja að auðvitað hefði verið heppilegt að þeir þingmenn, a.m.k. þeir þingmenn minnihlutaflokka sem rita undir álit meiri hlutans — og ég er í þeirra hópi — hefðu fengið upplýsingar um hvernig því máli yndi fram og sömuleiðis hvaða kostir væru helst uppi í því sambandi og hvert væri álit Skipulagsstofnunar á einstökum kostum.

Í þessu sambandi ræðir um mjög mikla fjárhagslega hagsmuni fyrirtækja og þess vegna skiptir öllu máli að farsæl lausn fáist í þessu efni. Í raun og sanni er ekki hægt að afgreiða þetta mál fyrr en sú lausn er fundin og þá þannig að hún sé viðunandi miðað við þá ríku hagsmuni sem um er að tefla í þessu sambandi. Tíminn sem er til stefnu í því sambandi er orðinn giska knappur.

Ég vil ljúka máli mínu með því að segja að við Miðflokksmenn lögðum á það áherslu að tryggja sem víðtækasta samstöðu (Forseti hringir.) um þetta mál með hagsmuni greinarinnar fyrir augum og þeirra byggðarlaga sem eiga mest undir í þessu máli.