149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[13:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Ég vil spyrja hv. þingmann út í skilgreininguna á því hvenær við erum að varðveita villta stofna. Við skulum taka dæmi af á sem ekki veiddist branda í í kringum 1980. Í hana er síðan sleppt laxi eða komið af stað einhvers konar lífi í henni, hvort sem það er lax, bleikja eða eitthvað annað. Telur þingmaðurinn að þá sé áin komin með villtan stofn, þegar búið er að sleppi í hana einhvers konar tegund af fiski? Erum við kannski að tala um að svo lengi sem elstu menn muna hafi veiðst ákveðin tegund af fiski í ánni og þar með sé stofninn í henni villtur?

Ég man ekki hvort hv. þingmaður er í nefndinni — (Gripið fram í: Nei.) nei, ókei, þá ætla ég ekki að spyrja hann út í tæknileg atriði í þessu. Það er hins vegar mikilvægt að hafa í huga að búið er að kynna og fjalla um það, ekki bara í nefndinni heldur líka opinberlega, að hægt er að fara í ýmsar mótvægisaðgerðir til að draga úr líkunum, ég ætla ekki að segja að koma í veg fyrir því að það er stórt orð, á að villtir laxar geti þrifist í þessum ám sem við viljum svo sannarlega varðveita. Ég tek fram að ég hef mjög gaman af því að veiða og vera úti í náttúrunni en ég hef líka mjög gaman af því að sjá mannlíf og atvinnu byggjast upp sem víðast um land. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi kynnt sér eða fengið kynningu á því hvaða mótvægisaðgerðir geta mögulega hjálpað okkur að varðveita þessar ár án þess endilega að það komi niður á möguleikum manna til að búa til atvinnustarfsemi á þessum svæðum.