149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[13:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef ég man þetta rétt var hér um árabil eða jafnvel áratugaskeið verið að fríska upp á þessar ár með sleppingum sem að miklu leyti komu frá sömu stöðinni — ég man ekki hvort það var frá Keldum eða Kollafirði. Þessu var sleppt um allar trissur á Íslandi til að reyna að koma ám af stað og búa til veiði og líf í þeim. Þar er ekki villtur laxastofn á ferðinni, það er alveg augljóst. Maður hefur líka séð muninn á að veiða í á þar sem eru vænir og stórir fiskar og svo keyrir maður í ekkert mjög langan tíma yfir í næstu á þar sem eru bölvaðir tittir sem eru þá allt annars konar fiskar. Við þurfum að mínu viti að skilgreina vel hvað það er sem við viljum skilgreina sem upprunalegt eða villt eða hvernig við viljum vernda það. Ég set ekki samasemmerki á milli þess að vera með á sem búið er að rækta upp með alls konar stofnum sem koma annars staðar að af landinu og miða hana við ár þar sem er bara villtur stofn sem við viljum svo klárlega vernda.

Mótvægisaðgerðir eru af ýmsum toga. Hafi menn grun um að einhver slepping hafi orðið er kafari sendur niður í ána til að athuga hvort einhverjir fiskar finnist. Það er komin tækni sem við sáum í fréttum fyrir nokkrum dögum þar sem tekin er mynd af hverjum fiski sem fer upp í árnar o.s.frv. Svo er líka þróun í eldinu.

En bara til að hafa það á hreinu er hv. þingmaður ekki á móti laxeldi, hann er ekki á móti eldi í sjó, en hann vil fara varlega, láta náttúruna njóta vafans þar sem klárlega er um verðmæti og verndun að ræða. Undir það tek ég, ef ég skil manninn rétt.