149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[13:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka formanni atvinnuveganefndar fyrir ágæta ræðu og yfirferð á þessu máli. Ég tek undir það með hv. þingmanni að mikilvægt er að ná utan um þessa starfsemi, hafa reglur og lög skýr og ekki vanþörf á því að snerta á sem flestum hlutum þar.

Hins vegar langar mig að spyrja hv. þingmann hvort ég hafi skilið það rétt að einhver vafi sé á því á hvaða forsendum þeir sem sóttu um leyfi, segjum fyrir tveimur árum eða einu ári, sóttu um leyfi, á hvaða lögum þeir byggja umsóknir sínar. Það getur varla verið eðlilegt að breyta leikreglum eftir á, þ.e. lögin sem munu taka gildi núna hljóta að gilda um framtíðina, það sem gerist eftir að þau hafa tekið gildi. Ég hef aldrei vitað til þess að hægt sé að setja lög sem gilda afturvirkt. Það hlýtur jafnvel að skapa einhvers konar bótaskyldu eða eitthvað slíkt verði það að veruleika.

Það leiðir mig að því sem ég fæ heldur ekki skilið. Hvernig stendur á því að meiri hluti nefndarinnar er að vinna núna að einhverri breytingartillögu varðandi þetta mál, varðandi 8. gr., og hefur ekki upplýst þingmenn Miðflokksins sem eru á málinu, sem hafa staðið að því og unnið af heilindum að því að gera þetta mál betra og eins gott og hægt er? Upplýsingunum er haldið frá þeim um hvað er í breytingartillögunum sem þingmaður nefndi að eigi að koma inn. Það er mjög sérstakt að ekki séu allir þeir sem eru á áliti meiri hlutans upplýstir og kynnt fyrir þeim að hverju er verið að vinna.

Þetta eru þær vangaveltur og spurningar sem mig langar að beina til hv. þingmanns.