149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[14:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er ekki nýgræðingur í pólitík og hann þekkir það að ýmis mál þarf að vinna aðeins lengur áður en farið er með þau til félaga sinna í öðrum stjórnmálaflokkum þó að þeir séu með á málinu. Þetta mál hefur verið í mikilli vinnslu, skoðun innan Matvælastofnunar, Skipulagsstofnunar og hjá Umhverfisstofnun. Allt þetta fléttast saman, hvar umsóknir eru staddar hjá þeim þremur stofnunum sem hafa aðkomu að málinu. Rekstrarleyfið er hjá atvinnuvegaráðuneytinu, starfsleyfið hjá umhverfisráðuneytinu og þetta hefur verið í skoðun út frá þeim vilja okkar heilt yfir í nefndinni, eins og ég hef skilið það, að við séum að mæta því með málefnalegum hætti að horft sé til þeirra sem hafa lagt í þetta mikla vinnu og kostnað og eru komnir lengst með að klára sínar umsóknir í ferlinu, að þeir fari í gegn á gömlu lögunum, en að þeir sem eru komnir mjög stutt á veg vinni eftir nýju lögunum. Til að draga þá línu viljum við að það sé fast land undir fæti, að við séum að gera þetta þannig að enginn vafi sé í löggjöfinni þegar þarf að úrskurða um hvar fyrirtæki flokkist, í fyrri eða seinni hópinn. Við erum núna að fá niðurstöðu í þeim efnum sem við munum kynna í atvinnuveganefnd á milli 2. og 3. umr. Það hefur bara ekki verið tímabært að kynna það fyrr en við höfum fast land undir fótum í þeim efnum hvar við getum dregið skurðarlínuna og að það sé engin óvissa hvar þær stofnanir sem taka við umsókn hjá fyrirtækjunum og eru með umsóknir inni flokka fyrirtæki, þannig að þau verði að sækja um eftir nýju lögunum eða falli undir gömlu lögin.

Þetta er vinna sem hefur verið í gangi af hálfu framsögumanns málsins (Forseti hringir.) fyrst og fremst. Við og ég sem formaður höfum verið upplýst um málið en ekki verið ástæða til að fjalla um þetta á opnum fundi þar sem málið hefur verið á viðkvæmu stigi.