149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[14:03]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir prýðisræðu og góða vinnu hennar í nefndinni í málinu. Það er búið að vera í gangi í tvö ár í raun og veru og við höfum staðið furðu vel saman í því mikilvæga máli og vandasama.

Ég hjó eftir svari þingmannsins við spurningu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um umsóknarferlið sem við höfum verið að tala um í 8. gr. Mér finnst pínulítið flækjustig í svarinu en vænti þess að rakni úr þeirri flækju mjög fljótlega.

Mig langar að spyrja þingmanninn út í þrjú atriði, ætla að fara í seinna andsvarinu í þau seinni, en þingmaðurinn minntist á sambandið við áhættumat og mótvægisaðgerðir. Áhættumatið hefur fengið smámótvind í umræðunni, en getum við ekki hert róðurinn í vinnu við mótvægisaðgerðir þannig að hægt verði að tala um nánast 0% áhættu í erfðablöndun svo að báðir þættirnir, áhættumat og mótvægisaðgerðir, geti unnið saman í erfðablöndunarvandanum?