149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[14:42]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér fiskeldi. Ég vil byrja eins og margir hv. þingmenn hafa minnst á í ræðum sínum, þá nefndarmenn sérstaklega, á að segja að unnin hefur verið mjög góð vinna og verið gott samstarf í nefndinni um þetta stóra og mikilvæga mál. Þetta er sjálfsagt eitt allra stærsta málið sem er tekið fyrir í atvinnuveganefnd, eitt af þeim stærstu í vetur. Málið kom í raun til nefndarinnar í fyrra líka þannig að umræðan hefur verið mikil. Eins og komið hefur fram höfum við heimsótt suðurfirðina á Vestfjörðum og farið til Noregs þannig að vinnan hefur verið ákaflega góð, efnislega mjög góð og til mikillar fyrirmyndar í jafn flóknu máli og við ræðum hér hvernig staðið hefur verið að allri vinnu og rannsókn málsins.

Sérstaða Íslands í málinu, þegar við berum okkur saman við önnur lönd sem eru í fiskeldi, er áhættumatið. Það sem lagt er til hér er að áhættumatið verði raunverulega grundvallarstoðin. Það er horft til okkar varðandi þennan þátt máls, hvernig við stöndum að því.

Sérstaðan í Noregi sem dæmi, og við lærðum í Noregsferðinni, er svokallað umferðarljósamat sem Norðmenn settu á fyrir nokkrum árum. Það snýr meira að laxalúsinni sem er stórt og mikið vandamál í Noregi. Þar er heitari sjór og aðrar aðstæður.

Það er ætlun nefndarinnar og þeirra þingmanna sem hafa komið að þessari vinnu í atvinnuveganefnd að fiskeldi á Íslandi til lengri framtíðar byggi á vísindalegum grunni. Vísindaleg þekking sé í raun leiðarljósið í allri okkar vinnu og horft til náttúruverndar og slíkra þátta, að við verjum náttúruna eins og mögulegt er með góðri vísindalegri vinnu og þekkingu fyrir þá nýju atvinnugrein sem fiskeldið er.

Eins og kemur fram í breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar komum við inn á þætti og bætum inn eins og þeim að ráðherra skuli skipa nefnd þriggja vísindamanna á sviði fiskifræði, stofnerfðafræði og/eða vistfræði til að rýna aðferðafræði sem Hafrannsóknastofnun notar við mat á burðarþoli og við gerð áhættumats. Skal nefndin skila áliti sínu og tillögum til ráðherra fyrir 1. maí 2020. Ráðherra skal í kjölfarið skila Alþingi skýrslu um niðurstöður nefndarinnar og viðbrögð við þeim.

Í Noregsferðinni hittum við hagsmunaaðila, við hittum margt vísindafólk, bæði hjá norsku hafrannsóknastofnuninni og síðan NORCE sem er líka stór og mikil rannsóknarmiðstöð sem m.a. tekur á fiskeldismálum í Noregi. Innan NORCE eru um 100 sérfræðingar sem starfa að vísindastörfum tengdum fiskeldinu og hjá norsku hafrannsóknastofnuninni eru líka aðrir 100 vísindamenn. Í Noregi eru þá í þessum tveim stofnunum um 200 vísindamenn. Mikil umræða hefur verið í atvinnuveganefnd, sérstaklega eftir Noregsferðina, um að auðvitað viljum við hafa svolítið aðgengi að erlendum vísindamönnum í fiskeldinu þannig að við fáum sem allra bestu vísindalegu þekkingu á bak við fiskeldi á Íslandi.

Ég ætla ekki að hafa sérstaklega langt mál um þetta enda víða komið við í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar sem framsögumaður fór í gegnum en ég vil rétt koma inn á hin mögulegu efnahagslegu áhrif fiskeldis á Íslandi. Við lærðum það í Noregsferðinni til samanburðar að fiskeldi hófst þar fyrir um 50 árum. Um 1970 fór það af stað. Norðmenn lentu í umtalsverðum vandræðum fyrstu áratugina og við getum mikið lært af vinnu Norðmanna í þessu máli. Á allra síðustu árum, síðustu 10–15 ár, hefur verið gríðarlegur vöxtur í fiskeldinu þar. Í dag er sjókvíaeldi í Noregi um 1.100.000–1.200.000 tonn af laxi og Norðmenn hafa sett það markmið í sinni stefnumótun að árið 2050, eftir 30 ár, verði um 5 milljóna tonna fiskeldi í sjókvíaeldi í laxi við Noregsstrendur. Við erum í okkar burðarþolsmati búin að meta 130.000 tonn og áhættumatið í dag er um 70.000 tonn.

Þegar við erum að eiga við þessi lög núna hefði maður vissulega viljað sjá þau koma fram fyrir einhverju síðan, þessi lagagrundvöllur með því mati sem við erum að leggja fram hér hefði þurft að hafa verið kominn fram fyrir helst 5–10 árum þannig að málið væri meira „próaktíft“. Við erum svolítið seint í þessu ferli en ég tel okkur vera að gera mjög góða hluti og hugsa til lengri framtíðar til að bæta málið. Efnahagslegu áhrifin í Noregi eru gríðarleg og við sjáum á byggðum vítt og breitt um Noreg að þetta mikla fiskeldi Norðmanna í sjókvíaeldi hefur umbreytt heilu samfélögunum. Hagsmunir á Íslandi gætu verið gríðarlega miklir, 70.000 tonna eldi gæti verið um 50–60 milljarðar í útflutningsverðmætum. Þetta kemur þá aðallega niður og hefur áhrif á Vestfjörðum og Austfjörðum eins og málin standa núna og hefur gríðarlega mikið að segja að mínu mati til lengri framtíðar fyrir þessi byggðarlög.

Það sem Norðmenn öfunduðu okkur af, en þeir fylgjast með því sem við höfum upp á að bjóða á Íslandi í fiskeldi, og það sem ég tel vera lærdóminn á þessu rúma ári sem við höfum verið í þessari vinnu er að samkeppnishæfni Íslendinga í sjókvíaeldi í laxi muni snúast um að við setjum út stórseiði og þær náttúrulegu aðstæður sem við höfum til að nýta heitt vatn, mikið aðgengi að góðu og köldu vatni og síðan heitu vatni. Það að setja út stórseiði sé raunverulega okkar stóra atriði ef við viljum vera samkeppnishæf. Þá fækkum við mánuðum þar sem laxinn vex upp í sjókvíum í sjó þannig að það ferli gæti væntanlega orðið 10–12 mánuðir í staðinn fyrir að hefðbundið ferli gæti verið 18–20 mánuðir. Þetta held ég að sé okkar stóra samkeppnisatriði og muni styrkja okkur mjög. Það var greinilegt þegar við hittum norska fiskeldismenn og sérfræðinga í Noregi að þeir öfunduðu okkur af þessum þætti fiskeldisins hjá okkur.

Þegar menn voru að byrja í sjókvíaeldi í Noregi á sínum tíma voru menn að setja út 40–50 gramma seiði. Þau hafa stækkað í Noregi en á Íslandi er mikið verið að leggja út 100–150 gramma seiði og maður hefur heyrt líka á undanförnu ári að menn hafi jafnvel verið að setja út 300–700 gramma seiði. Þetta ýtir undir þá spá að stórseiði verði stóra málið okkar. Það þýðir að töluverður tími, meiri tími í sjókvíaeldi eða í fiskeldi á Íslandi í laxi fari fram á landi en í sjó. Við verðum örugglega með hæsta hlutfallið í því, með fiskinn í raun á landi, allt frá seiðum upp að því að laxinum er slátrað. Þetta hefur gríðarlega mikil áhrif, líka vegna þess að sérfræðingar segja okkur að eftir því sem seiðin eru stærri þegar þau fara út í sjókvíarnar verði þau þeim mun meiri aumingjar eftir því sem stærð og þyngd fisksins er meiri. Þetta er sérstaða okkar að mínu mati og verður mjög spennandi að fylgjast með hvernig þetta gengur.

En stóra málið í öllu þessu, þó að maður fari ekki í fleiri atriði, er að það náist sem allra best sátt um fiskeldi til lengri framtíðar. Ég veit að það verður erfitt að ná henni, það eru miklar og stórar skoðanir í þessu máli, á milli veiðiréttarhafa og fiskeldisfólks, en að það náist sem allra best sátt og við verjum náttúru landsins með öllum mögulegum leiðum. Það eru líka stórkostlegir hagsmunir fyrir fiskeldismenn og fiskeldisfólk, fiskeldisfyrirtæki, að það verði farið vel með og að strokufiski og slíkum áhættuþáttum verði haldið í algjöru lágmarki. Við setjum það inn í þennan lagabálk sem við erum að vinna með hér að tekið verði tillit til þessara þátta, t.d. í kringum rekstrarleyfi og annað, þannig að ef menn ætla að vera í þessum geira til lengri tíma eru það sameiginlegir hagsmunir allra að vel sé gengið um, ekki gengið á náttúruna og hún fái að njóta vafans sem allra mest í öllu þessu ferli.

Ég fagna því að við séum að ná þessu fram og vonandi klárum við þetta á næstu örfáu dögum.